Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • “Erlendir ferðamenn í vandræðum”

    Posted on June 14th, 2013 Þrándur No comments

    Kannast þú við fréttir sem byrja á þessum orðum?

    Nú er kominn út bæklingur á ensku sem ætti að gagnast erlendum ferðamönnum sem ferðast um Ísland á jeppa.

    Upplagt að benda erlendum vinum á þennan bækling:

    Iceland Offroad

    Bæklingurinn er gefinn út af 4x4OffRoads.com og er ókeypis. Þarna er að finna leiðbeiningar um helstu hættur sem ber að varast við ferðalög um hálendi Íslands auk upplýsinga um hvar hægt er að fá aðstoð og leiðbeiningar.

    iceland-offroad

  • Áhugamenn um utanvegaakstur

    Posted on February 25th, 2013 Þrándur No comments

    Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og áhugamaður um rétta setningarfræði skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið í morgun. Oft hittir Guðmundur á áhugaverð mál og stundum er ég sammála honum. Í þessu tilviki missir hann þó marks. Fyrsta setningin gefur tóninn:

    Þúsundir Íslendinga hafa ritað nöfn sín á mótmæli gegn nýjum náttúruverndarlögum og hafa áhugamenn um utanvegaakstur þar látið mikið að sér kveða.

    Það er alveg hárrétt hjá Guðmundi að þúsundir Íslendinga hafa ritað mótmæli gegn nýjum náttúruverndarlögum. Nánar tiltekið er fjöldinn kominn yfir 16 þúsund manns. Ekki það að fjöldi þeirra sem hafa ákveðna skoðun geri hana réttari eða ekki, en samt gefur þetta ákveðna vísbendingu, sérstaklega í lýðræðisríki.

    Seinni helmingur setningarinnar tengir andstöðuna við “áhugamenn um utanvegaakstur”. Þetta er hópur sem ég hefði haldið að væri afar smár, þar sem utanvegaakstur er jú bannaður samkvæmt núgildandi lögum! Miklu nærtækara er að telja upp þá sem hafa sent inn athugasemdir og skilgreina hópinn svona:

    • Samband íslenskra sveitarfélaga
    • Landssamband veiðifélaga
    • Skógræktarfélag Borgarfjarðar
    • Landssamband landeigenda á Íslandi
    • Norðurþing
    • Skógræktarfélag Íslands
    • Skógrækt ríkisins
    • Ferðaklúbburinn 4×4

    Það er eins og Guðmundur hafi ekki kynnt sér innihald nýju laganna eða þau atriði sem bent hefur verið á að betur megi fara. Ferdafrelsi.is telur upp fjölmörg atriði:

    Almennar umsagnir um frumvarpið eru m.a. að

    • útivistarhópum er mismunað eftir ferðamáta
    • ekki er tekið tillit til hópa eins og fatlaðra, aldraðra eða fólks með ung börn sem ekki geta vegna aðstæðna sinna farið um hálendið fótgangandi
    • ráðherra og Umhverfisstofnun er falið óhóflegt vald til banna og boða eftir eigin geðþótta
    • skilgreiningar á hugtökum eru óljósar og aðrar vantar
    • ýmis ákvæði eru óframkvæmanleg, þannig að frá byrjun verður ómögulegt að framfylgja lögunum
    • ef rýnt er í þrönga skilgreining höfunda frumvarpsins á hugtakinu útivist sést að hún á aðeins við um för og dvöl úti undir beru lofti í náinni snertingu við landið sem farið er um. Ljóst má vera að höfundarnir telja ferðalög á fjórhjólum, mótorhjólum og vélsleðum ekki til útivistar þótt undir beru lofti sé og upplifun af náttúrunni hjá þeim hópi sé síst minna virði en upplifun annarra. Þá mætti einnig ætla að nefndin líti ekki á það sem hluta af útivist þegar ferðamenn fara akandi á einhvern tiltekinn stað á hálendi Íslands, að ökuferðin sé ekki hluti útivistarinnar, jafnvel þótt áð sé við fallega staði á leiðinni og þeirra notið um leið og teygt er úr sér, eða farið í göngu-, hjóla- eða veiðiferðir út frá áningastað. Andi laganna einkennist mjög sterklega af þessum skoðunum höfundanna

    Eins og sjá má fjalla megin athugasemdirnar meira um innihald laganna, valdmörk ráðherra og stofnana ásamt vinnsluferlinu.

    Guðmundur heldur áfram:

    Jeppafjallamenn eru vissulega upp til hópa miklir náttúruunnendur og hafa áhyggjur af því að fá ekki að njóta hennar að vild og myndu aldrei rótast á viðkvæmum svæðum: en þeir hugsa málið út frá sjálfum sér.

    Er það rangt að hugsa málið út frá sjálfum sér? Er rangt að hugsa málið út frá hagsmunum afkomenda? Er það rangt að hugsa málið út frá börnum og gamalmennum ásamt fötluðum? Er það rangt að hugsa málið út frá þeim hópi fólks sem hefur notið náttúrunnar og hefur þar mesta reynslu og þekkingu?

    Eftir þessar setningar fer Guðmundur síðan að fjalla um setningarfræði. Þar er hann greinilega á heimavelli – en ég ekki. Ég verð að játa að eftir það skil ég hvorki upp né niður í því hvað hann er að meina.

    Stóra málið er að við vinnslu þessa frumvarps var kastað til höndum og ekki hlustað á raddir stórs hóps áhugafólks um náttúru Íslands. Það gilti um “Hvítbók”, stofnun þjóðgarðs í Vatnajökulssvæðinu og nú um þessi nýju lög.

  • Leiðum lokað

    Posted on December 6th, 2012 Þrándur No comments

    Eins og þeir vita sem ferðast um hálendið er þar víða fagurt um að litast. Miklar auðnir, fjöll og landslag sem fátt jafnast á við. Á nokkrum svæðum eru gönguskórnir einu hjálpartækin sem hægt er að nota til að komast um. Á öðrum svæðum er jeppinn mun hentugra tæki.

    Stofnun þjóðgarðs við Vatnajökul hefur verið hið besta mál að flestra mati. Eitt af markmiðum með stofnun garðsins var að opna aðgengi almennings að þessu mikilfenglega svæði.

    Þó eru þar tvær leiðir sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur verið ákveðið að loka fyrir bílaumferð.

    Þetta eru leiðirnar: Vikrafellsleið, sem liggur norðan við Dyngjufjöll og Öskju og Vonarskarð sem er forn þjóðleið við norðvesturhorn Vatnajökuls.

    Í þessu myndbandi er flogið yfir þessar tvær leiðir og má þá glöggt sjá hvernig landið lítur út og hversu lítil áhrif margra áratuga umferð jeppa um þessar leiðir hefur haft.

    Því miður virðist sem svo að hafi leiðum verið lokað á annað borð sé erfitt að fá þær opnaðar aftur.

    Vikrafellsleið liggur um hraun og hverfur nánast alveg eftir hvern vetur. Þar eru engar hættur á gróðurskemmdum eða öðrum skemmdum – á sama tíma er svæðið nánast útilokað til göngu þar sem þar er ekki vatnsdropa að fá svo tugum kílómetra skiptir!

    Vissulega er viðkvæmt land í Snapadal við hlið leiðarinnar um Vonarskarð. Þar gæti verið ástæða til að banna umferð bíla og jafnvel líka gangandi fólks. En jafnframt ætti að vera auðvelt að færa slóðina lengra frá dalnum án þess að það komi að sök. Með lokun leiðarinnar fyrir jeppum þurfa göngumenn sem vilja ganga hana að láta trússbílinni keyra 100 km. leið!

    Ég mæli með að þú horfir á þetta myndband og metir hvort ekki sé full ástæða til að opna þessar leiðir.

    Þó ekki væri til annars er að njóta þessa landslags með einu aðferðinni sem hægt er.

  • Utanvegaakstur

    Posted on May 23rd, 2012 Þrándur No comments

    Mikið hefur verið rætt um utanvegaakstur í fjölmiðlum að undanförnu. Því miður er þar oft á tíðum rætt um málin af “yfirgripsmikilli vanþekkingu” eða af einhverjum sérkennilegum hvötum.

    Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landverndar skrifar til dæmis í blogg sitt á DV þessa færslu:
    http://www.dv.is/blogg/gudmundur-hordur/2012/5/22/haettu-malthofi-i-skiptum-fyrir-utanvegaakstur/

    Við skulum nú rýna aðeins í þessa færslu.

    Færslan hefst á þessari málsgrein:

    Fréttastofa Rúv sagði í kvöld frá skemmdum á náttúru Íslands vegna aksturs utan vega á leiðinni upp í Herðubreiðarlindir. Í sama fréttatímasagði Rúv frá því að þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefðu í dag samþykkt að hætta málþófi um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá með því skilyrði að frumvarp til laga um náttúruvernd yrði tekið af dagskrá þingsins og vísað aftur í nefnd.

    Það er nú vægast sagt undarlegt að tengja saman þessi óskyldu mál með þessum hætti og maður hlýtur að spyrja sig hvert markmiðið er.

    En skoðum næstu málsgrein:

    Nú vill svo til að markmið þessa frumvarps er einmitt að draga úr skemmdum á náttúru Íslands af völdum utanvegaaksturs með því að skerpa reglur um slíkan akstur, skilgreina betur hvað telst akstur utan vega og eyða óvissu um akstursleiðir sem heimilt er að aka.

    Hér er talað um markmið frumvarpsins og þau sögð draga úr skemmdum á náttúru Íslands. Gott og vel, markmiðið er nokkuð sem allflestir hljóta að vera sammála um. Hvort frumvarpið er í raun betra en núgildandi reglur er ekki augljóst.

    Frumvarpið fjallar meðal annars um slóða um hálendi Íslands. Félagsmenn í Ferðaklúbbnum 4×4 hafa gríðarlega þekkingu á þessum leiðum og hafa félagsmenn verið óþreytandi við að safna gögnum um þessa slóða. Ferðaklúbburinn hefur líka unnið mikið að fræðslumálum um góða siði ásamt því að stika leiðir sem geta verið villugjarnar og óljósar.

    Ferðaklúbburinn 4×4 hefur viljað vinna að þessum málum með stjórnvöldum á hverjum tíma. Nú þegar stjórnvöld lýsa því yfir að þau séu hlynnt “samræðustjórnmálum” bregður svo við að samstarf um þessi mál eru í mýflugumynd.

    Höldum áfram…:

    Akstur utan vega virðist vera vaxandi vandamál. Fjöldi frétta af alvarlegum afleiðingum utanvegaaksturs bendir til þess, m.a. nýleg frétt Morgunblaðsins um akstur utan vega á hálendinu norðan Vatnajökuls. Það er því rík þörf á að náttúruverndarlögum verði breytt í þá veru að hægt verði að takast á við þessa ógn við íslenska náttúru.

    Hér fer nú aðeins að vandast málið.

    Er akstur utan vega “vaxandi vandamál”? Er fjöldi frétta einhver mælikvarði sem hægt er að byggja á? Er víst að náttúruverndarlög séu ekki nógu skýr? Er þetta ógn við íslenska náttúru?

    Hvaða rannsóknir styðja þessar fullyrðingar?

    Ef við horfum 30 ár aftur í tímann er ljóst að fjöldi jeppa í eigu landsmanna hefur aukist mikið. Á sama tíma held ég að skilningur jeppamanna á góðri umgengni um landið sé betri en var.

    Umferð um hálendið hefur auk þess aukist margfalt með auknum ferðamannafjölda til Íslands.

    Síðan endar Guðmundur á því að tengja þessi mál enn og aftur við umræðu á þingi:

    Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þurfa því að útskýra hvers vegna þeir lögðu svo ríka áherslu á að koma í veg fyrir að einmitt slíkt frumvarp yrði samþykkt á Alþingi.

    Það eru í gildi lög sem banna utanvegaakstur nema á frosinni jörð og snævi þakinni. Þau eru einföld og ætti að vera auðvelt að fygjast með brotum.

    Vegagerðin lokar ákveðnum leiðum á vorin meðan frost er að fara úr vegum. Ef menn álpast inn á slíkar leiðir er sjálfsagt að sekta fyrir það.

    Aðalmálið er að auka fræðslu til ferðamanna um hálendið og bæta þannig umgengni.

    Hin leiðin væri að loka öllu landinu nema fyrir túristum í vernduðu umhverfi. Það er ekki leið sem mér finnst áhugaverð.

    Að lokum er hér rétt að birta fréttatilkynningu frá Ferðaklúbbnum 4×4 vegna fréttar í Morgunblaðinu: