Grasrótin ræðir málin
RSS icon Email icon Home icon
 • Frjálsi fjárfestingarbankinn dæmdur og bankastjórnendur kærðir!

  Posted on February 15th, 2012 Þrándur No comments

  Loksins!

  Frjálsi fjárfestingarbankinn hefur nú verið dæmdur af Hæstarétti. Þeim var EKKI heimilt að krefjast hærri vaxtagreiðslna aftur í tímann miðað við vaxtaviðmið Seðlabankans af lánum sem bundin voru við gengi erlendra mynta.

  Þá vísaði Hæstiréttur til laga nr. 151/2010 og taldi að með almennum lögum væri ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reyndi í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Gætu lögin því ekki haggað áðurgreindri niðurstöðu um uppgjör milli aðila

  Nú hafa Hagsmunasamtök heimilianna lagt fram kæru á stjórnendur banka. Ánægjulegt að sjá að spjótum sé beint að þeim sem raunverulega bera ábyrgð.

  Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið óþreytandi við að berjast fyrir réttlátri skuldaleiðréttingu. Hæstaréttardómurinn í dag sýnir að við erum á réttri leið.

  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt fram kæru til efnahagsbrotadeildar á hendur öllum stjórnendum og bankaráðum bankanna frá árinu 2001-2012 fyrir brot á stjórnarskrá, almennum hegningarlögum, vaxtalögum, lögum um samningsgerð, lögum um hlutafélög og fyrir að vanrækja eftirlitsskyldu sína.

  Í fyrsta lagi eru bankastjórnendur sem voru við stjórn frá 2001- 2008 kærðir fyrir að veita gengistryggð lán. Má leiða líkur að því að hinar ólöglegu lánveitingar hafi jafnvel farið fram vísvitandi, í það minnsta gerðu Samtök banka- og verðbréfafyrirtækja umsögn um frumvarp áður en það varð að lögum og vöruðu við því að ef frumvarpið yrði að lögum yrði ekki heimilt að gengistryggja lán. Jafnframt má geta þess að Verslunarráð Íslands og Samtök atvinnulífsins sendu einnig inn umsagnir áður en frumvarpið varð að lögum þar sem koma fram varnaðarorð í þessa sömu veru.

  Hæstiréttur hefur nú staðfest að slíkar lánveitingar brjóta gegn lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38 frá árinu 2001. Eftir setningu neyðarlaganna árið 2008 hafa nýjar lánveitingar af þessu tagi lagst af, en þó er heimilt að veita sannanlega erlent lán sem er greitt út í erlendum gjaldmiðli og innheimt í erlendum gjaldmiðli. Innheimta á ólögmætum gengistryggðum lánum hefur þó haldið áfram á forsendum sem HH telja að stríði gegn samningalögum, vaxtalögum, lögum um neytendalán og stjórnarskrá.

  Í öðru lagi beinist því kæran einnig gegn þeim bankastjórnendum sem setið hafa í stjórnum frá því bankarnir hófu innheimtu á endurútreiknuðum ólögmætum lánum. Er það mat samtakanna að bankarnir hafi gerst brotlegir við lög og gengið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar með því að vaxtavaxtareikna lánin annars vegar og hins vegar með því að reikna hærri vexti afturvirkt á greidda gjalddaga allt frá lántökudegi í stað þess að miða við setningu laga nr. 151/2010. Í dómum Hæstaréttar hefur gengistryggingin verið dæmd ólögleg og mælst til að nota óverðtryggða vexti Seðlabankans á ógreiddar eftirstöðvar lána, en ekki á greidda gjalddaga.

  Í þriðja lagi telja Hagsmunasamtök heimilanna að bönkunum sé óheimilt að innheimta vexti fyrir tímabil áður en þeir eignuðust kröfuna, og er það skilningur samtakanna að eigandi skuldabréfs eigi eingöngu kröfurétt á vexti frá þeim degi þegar hann eignast kröfuna. Þessi hluti kærunnar á því við um stjórnendur nýju bankanna þar sem bankarnir eigi ekkert tilkall til vaxtagreiðslna fyrir þann tíma þegar þeir urðu löglegir eigendur skuldabréfa. Gamlir eigendur þeirra hafa þegar innheimt vaxtagreiðslur og greiðslur inn á höfuðstól sem að mati samtakanna eiga að standa í íslenskum krónum.

  Einstaklingar dregnir til ábyrgðar.

  Í öllum tilvikum eru bankastjórnendur kærðir fyrir auðgunarbrot er varða almenn hegningarlög, sem og brot á greinum hlutafélagalaga er varða ábyrgð. Það er mat samtakanna að mikilvægt sé að draga til ábyrgðar þá einstaklinga sem setið hafa í stjórnum bankanna undanfarin ár. Með kæru á hendur bankastjórnendum vilja samtökin leggja áherslu á þá gríðarlegu ábyrgð sem því fylgir að vera stjórnarmaður í bankakerfinu. Hafi fjármálastofnanir stundað refsivert athæfi með ólöglegri lánastarfsemi og síðan ólöglegri innheimtu er það krafa HH að einstaklingarnir sem standa að baki ákvörðunum geti ekki vikið sér undan persónulegri ábyrgð sinni.

 • Leiðin til helvítis

  Posted on May 17th, 2011 Reynir 4 comments

  Leiðin til helvítis.

  „Leiðin til helvítis er vörðuð góðum áformum“ sagði einn félagi minn eftir að hafa hlustað á afsakanir mínar þegar ég mætti ekki á tennisæfingu fyrir löngu síðan.  Mér fannst þetta full sterkt til orða tekið, en flott.  Síðan hef ég hugsað um þetta af og til, og þetta er svo satt.  Það er átt við að menn geta verið að gera eitthvað í góðri trú, haft góð áform, en afleiðngarnar eru þveröfugar við það sem ætlast er til. 

  Nú eru í fréttum mótorhjólagengi sem verið er að stofna, skipulögð glæpasamtök sem  hafa náð fótfestu í nágrannalöndunum.  Þetta er stórhættuleg þróun.  Við sjáum Ítalíu, þar sem mafían ræður nánast öllu, að maður tali nú ekki um Mexíkó, þar sem fólk er drepið í hópum, bara fyrir það eitt að vilja ekki vinna með glæpasamtökunum.  Hvað er hægt að gera?  Eldsneytið fyrir þessi samtök er eiturlyfjasala.  Því miður er einhverskonar klofningur í afstöðu manna til áfengis annarsvegar, og annara eiturlyfja hinsvegar.  Mönnum finnst eðlilegt að auglýsa áfengi, og tala fyrir því að einkaaðilar selji það, en önnur eiturlyf eru bönnuð.   Fólk gerir þetta í góðri trú, það vill vernda æskuna frá því að lenda í klóm eiturlyfjanna.  En með því að hafa þetta bannað, er eiturlyfjamarkaðurinn lagður heill og óskiptur upp í hendurnar á glæpamönnunum.  Þetta eru sterkir strákar og sólbrúnir, með fullar hendur fjár.  Stelpurnar hrífast af þeim, þeir tæla þær inn í þennan heim, og strákana líka.  Þetta er lokaður heimur, enginn læknir, ráðgjafi eða neinn stuðningsaðili kemst nálægt fyrr en allt er orðið of seint.  Brosmildi unglingurinn er orðinn að samviskulausu slytti sem hugsar bara um næsta skammt.  Það er auðvitað þetta sem menn eru hræddir við, og þessvegna eru eiturlyf bönnuð.  En afleiðingin verður að her manns tekur það að sér að:  Flytja inn eiturlyfin (eða framleiða), tæla ungt fólk inná braut eiturlyfjanna, og svo rukka þá og aðstandendur þeirra fyrir eiturlyfjaskuldirnar.   

  Nú er ástandið orðið svipað og á bannárunum milli stríða.  Þá var markaðurinn fyrir áfengissölu settur í hendurnar á glæpamönnum, þá var gullöld Al Capone í Bandaríkjunum, og menn sáu að ef það yrði ekki gert löglegt að versla með áfengi, myndu glæpamennirnir ekki bara ná yfirhöndinni yfir lögreglunni, heldur í verslun og viðskiptum og almennt allri atvinnustarfsemi í þjóðfélaginu.

  Sumir segja:  „Herðum bara refsingarnar, fjölgum lögregluþjónum aukum eftirlit tollgæslunnar“.  Þar eru líka góð áform að baki.  En núna eru refsingar orðnar all verulega harðar fyrir smygl t.d.  Og hverjir lenda í þessum hörðu refsingum?  Það eru unglingarnir okkar, sem í sakleysi sínu og bjánaskap eru plataðir til að taka með sér pakka af efni í gegnum tollinn.  Ég man eftir máli ungrar stúlku sem var dæmd í 8 ára fangelsi fyrir smygl í danmörku.  Margir sleppa með lægri dóm fyrir að drepa mann.  Viljum við þetta?  Hver er meiri glæpamaður, sá sem drepur mann, eða sá sem í bjálfaskap flytur pakka yfir landamærin?  Varðandi fleiri lögregluþjóna og harðara eftirlit:  Það hefur verið rannsakað, að allar tilraunir Bandaríkjamanna við að auka eftirlit með landamærunum að Mexíkó, eða fjölga í lögregluliði í fíkniefnadeildunum, hafa bara orðið til þess að framboðið minnkar tímabundið á markaðnum, verðið hækkar, og eiturlyfin finna sér nýjan farveg inn í landið.  Þetta hefur oft verið reynt.  Man einhver eftir slagorðinu „Eiturlyfjalaus Reykjavík árið 2000“?

  Eina leiðin til að stemma stigu við þróuninni, er að selja þessi lyf í ríkinu, eins og gert er við áfengið.  Slá þannig markaðinn úr höndum glæpagengjanna.  Með því móti mætti koma upplýsingum til neytendanna um hætturnar, og leiðir til að losna úr klóm eiturlyfjanna.  Einnig eru meir líkur til að fólk leiti sér hjálpar ef neyslan og varsla eiturlyfjanna er ekki refsiverð.

 • Kosningaklúður?

  Posted on February 7th, 2011 Þrándur No comments

  Ég verð að játa að fyrstu viðbrögð við úrskurði Hæstaréttar hjá mér voru: “klúður aldarinnar!”…

  …en svo þegar maður hefur velt þessu aðeins fyrir sér er þetta kannski ekki svo einfalt. Rökin sem Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður og Reynir Axelsson stærðfræðingur hafa sett fram í greinum, Silfri Egils og fleiri stöðum vega þar þungt.

  Kjarni málsins er þessi:

  Var eitthvað sem benti til að einhver af þeim atriðum sem Hæstiréttur telur upp hefði haft áhrif á útkomu kosninganna?

  Ef ekki þá átti að láta úrslitin standa.

  Vandinn er að úrskurðurinn bitnar á þeim sem síst skyldi – saklausum almenningi.

  Ágæt regla sem dómarar hljóta að hafa í huga: “First do no harm”. Finnst þetta hafi ekki verið alveg nógu vandaður dómur.

  • Skaði fyrir þjóðfélagið 200 milljónir
  • Skaði fyrir 80.000 kjósendur * 5.000 = 400 milljónir
  • Skaði fyrir ímynd Hæstaréttar – ómældur

  Hingað til hef ég borið töluvert traust til Hæstaréttar og talið að þar sitji heiðarlegir og grandvarir menn sem vegi og meti mál út frá lögum og ekki síður anda laganna. “Bonus pater familias” hefði að mínu áliti tekið öðruvísi á þessu máli. Lögfræði og dómar eiga að snúast um fólk og vernda almenning.

  Þetta er vandrataður vegur.

  Hitt er annað mál að undirbúningur fyrir Stjórnlagaþingið hefði mátt vera vandaðri, t.d. hefði mátt hafa strangari kröfur um frambjóðendur svo fjöldinn hefði verið minni og fjölmiðlaumfjöllun markvissari.

 • Sviðsmyndir glæpafyrirtækja?

  Posted on July 2nd, 2010 Þrándur 1 comment

  Gylfi Magnússon hefur notað orðið “sviðsmynd” um það sem gæti gerst EF farið væri eftir dómi Hæstaréttar.

  Veltum nú aðeins fyrir okkur hver sviðsmyndin gætu orðið af nýjasta útspili SÍ og FME. Þar er lagt er til að glæpafyrirtækin reikni afborganir og eftirstöðvar “gengislánanna” eftir eigin uppástungum.

  • Gerum nú ráð fyrir að fólk “borgi og brosi” – einhverjir munu fara í mál við glæpafyrirtækin og munu vinna þau, fyrst fyrir héraðsdómi og síðar Hæstarétti. Þá gætu glæpafyrirtækin væntanlega átt endurkröfurétt á SÍ og FME fyrir mismuninum.
  • Hinn möguleikinn er að fólk BORGI EKKI – þá mun verulegt tekjuflæði tapast úr bókhaldi glæpafyrirtækjanna og þau munu fara í mál við “viðskiptavini” sína. Þau mál tapast síðan fyrir héraðsdómi og síðar Hæstarétti. Á sama hátt og áður gætu þá glæpafyrirtækin átt endurkröfurétt á ríkið.

  Spurningar sem vakna:

  • Ætla fjármálafyrirtæki að eiga viðskipti við fyrirtæki eða einstaklinga í landinu eftir þessi mál?
  • Ætla fjármálafyrirtækin að stimpla sig endanlega sem glæpafyrirtæki?
  • Ætlar láglaunamaðurinn í Seðlabankanum að fá á sig kæru vegna tilmæla um lögbrot?
  • Ætlar forstjóri FME að gera það?
  • Ætlar dómsmálaráðherra að sjá til þess að dómi Hæstaréttar sé fylgt eftir?
  • Sættir fólk sig við að búa ekki lengur í réttarríki?
  • Á nú enn og aftur að seilast í vasa almennings til að greiða fyrir óráðsíu bankanna?

  Höfum það líka í huga að þessu sama fjármálakerfi var bjargað með neyðarlögum fyrir ekki svo löngu síðan.

 • Lánaleiðrétting? – Hagsmunasamtök heimilanna

  Posted on May 15th, 2009 Þrándur No comments

  Þriðjudaginn 19. maí kl. 20. Borgartúni 3

  Gísli Tryggvason talsmaður neytenda hefur lagt fram ítarlega tillögu um
  leiðréttingu á húsnæðislánum landsmanna. Hún felur í sér skipun gerðardóms
  sem meta skuli áhrif forsendubrests og fjölda málsástæðna á hækkanir
  húsnæðislána og finna mælikvarða til leiðréttingar hinna ýmsu flokka lána.
  Hann hefur kynnt þessa tillögu fyrir stjórnvöldum og ýmsum aðilum. Nú kemur
  hann á fund með okkur, kynnir tillöguna og svarar spurningum.
  Félagar eru hvattir til að fjölmenna. Fundurinn er öllum opinn og er
  aðgangur ókeypis.

  Hagsmunasamtök heimilanna
  www.heimilin.is
  Framlög til HH af frjálsum vilja
  (o: 1110-26-5202, kt. 520209-2120 :o)

 • Lögsækjum bankana!

  Posted on April 19th, 2009 Þrándur 2 comments

  Björn Þorri Viktorsson er einn af þeim fáu mönnum sem tala “á íslensku” um ástandið í fjármálum þjóðarinnar. Hann var góður í Silfri Egils í dag og bendir á að það sé mikið vafamál að skuldir einstaklinga séu meðhöndlaðar með  réttum hætti og geti hugsanlega verið um lögbrot að ræða.

  Lögbrot bankanna felast í stöðu þeirra gegn krónunni (og þar með gegn hagsmunum viðskiptavina sinna) og hreinlega hvort erlend lán hafi í raun verið heimil.

  Björn Þorri er að leita að hópi til að sækja málið.

  Hvet þig til að lesa skilmerkilega grein Björns Þorra um stöðu skuldara og undirbúning að lögsókn

  og

  vera með í hópmálssókn gegn bönkunum…

  Hvers vegna tala stjórnmálamenn ekki um þetta?

 • Samsæri? – Árásin á tvíburaturnana

  Posted on April 16th, 2009 Þrándur No comments

  911 Loose Change (í fullri lengd)

  Alltaf áhugavert að skoða samsæriskenningar og hér er ein stór. Mér finnst rétt að menn geri upp hug sinn um þessa hluti.

  Getur verið að atburðirnir hafi verið ein stór leiksýning?

  Það sem mér finnst skrítið er að hrunið á turnunum tekur jafn langan tíma og ef þeir hafi fallið í frjálsu falli. Ekki síður að þriðja byggingin féll líka þrátt fyrir að engin flugvél hafi flogið á hana.

  Í myndinni eru talin upp fjölmörg önnur atriði sem vekja grunsemdir um að ekki séu öll kurl komin til grafar.

  Hér er líka myndband um danskan vísindamann sem telur að notað hafi verið sprengiefni.

  Hvað finnst þér?