Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Skjaldborg heimilanna? Ræða Lilju Mósesdóttur

    Posted on March 14th, 2013 Þrándur No comments

    Lilja Mósesdóttir er ekkert að skafa utan af hlutunum!

    Það er kannski ekki skrítið að fylgi stjórnarflokkanna er svona lítið. Þeir gáfu loforð um “Skjaldborg heimilanna” og hafa allt frá því unnið markvisst að því að brjóta niður varnir heimilanna og halda vörð um bankana. Sjálfsagt hefði þurft hugrekki – en líka vilja.

    Lilja Mósesdóttir (U):
    Virðulegi forseti. Allt frá því að við hv. þm. Atli Gíslason yfirgáfum þingflokk Vinstri grænna hef ég ekki getað treyst mér til að styðja þessa ríkisstjórn Samfylkingar og VG. Ástæðan er hagsmunagæsla ríkisstjórnarinnar í þágu fjármagnseigenda og AGS. Hagsmunagæslan er þvert á loforð stjórnarflokkanna um skjaldborg heimilanna, norrænt velferðarsamfélag og að byrðum fjármálakreppunnar yrði dreift með sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi.
    Hin svokallaða norræna vinstri stjórn lagði metnað sinn í að skera hratt niður velferðina fyrir vexti, og AGS mærði hana fyrir dugnaðinn við niðurskurðinn. Ríkisstjórnin samþykkti Icesave-samning sem átti að kosta skattgreiðendur um hálf fjárlög til þess eins að endurreisa orðspor Íslands á alþjóðlegum vettvangi, eins og það hét. Aldrei var neinn vilji til að standa við loforðið um skjaldborg heimilanna og varnarlausum heimilum var vísað á dómstóla til að ná fram rétti sínum.
    Afleiðingarnar birtast nú í neyðarkalli frá skuldsettum heimilum sem hafa mátt þola gífurlega eignatilfærslu vegna verðtryggingarinnar og greiðsluerfiðleika eftir að hafa kastað séreignarlífeyrissparnaðinum á skuldabálið. Heilbrigðiskerfið og vegakerfið okkar getur ekki lengur tryggt öryggi sjúklinga og vegfarenda vegna of mikils niðurskurðar eftir hrun. Bankakerfið var endurreist og bönkunum gefið veiðileyfi á almenning til að tryggja hrægammasjóðum arðgreiðslur og góðar endurheimtur á kröfum sínum.
    Virðulegi forseti. Það var von mín og margra annarra sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni að hrunið mundi tryggja völd flokka sem notuðu fjárlögin markvisst til að draga úr efnahagsáfallinu, draga úr misskiptingu og til að forgangsraða í þágu velferðar. Það varð ekki niðurstaðan því að hin svokallaða norræna velferðarstjórn hafði ekki hugrekki til að snúa af braut nýfrjálshyggjulausna til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur.
    Fjármálakreppan varð því ekki til þess að skerpa hinar pólitísku línur, heldur afhjúpaði þvert á móti að í reynd er enginn pólitískur munur á hinum svokölluðu vinstri og hægri flokkum í landinu. Norræna velferðarkerfinu og réttlátri skiptingu byrða kreppunnar var fórnað fyrir valdastóla og velþóknun AGS og vogunarsjóða.
    Fylgishrun blasir við stjórnarflokkunum og vandséð að kjósendur muni nokkurn tíma treysta aftur svokölluðum vinstri flokkum til að stjórna landinu. Afleiðingarnar eru örvænting, ráðaleysi og upplausn í samfélaginu, ekki síst meðal þeirra sem treystu best hinum svokölluðu vinstri flokkum í síðustu kosningum til að leiðrétta forsendubrest, tryggja réttlæti og auka jöfnuð.
    Virðulegi forseti. Ég studdi vantrauststillögu á ríkisstjórnina vorið 2011 þar sem mér var þá orðið ljóst að hún mundi aldrei storka fjármagnseigendum með almennri skuldaleiðréttingu. Stjórnin hélt velli en hefur þurft á að halda stuðningi Hreyfingarinnar frá áramótum 2011/2012. Stuðningurinn var keyptur með loforði um samþykkt nýrrar stjórnarskrár. (Gripið fram í: Farðu nú rétt með.) Nú hefur utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafist og við erum að greiða atkvæði um vantrauststillögu hv. þingmanns Hreyfingarinnar. Ástæðan er svik ríkisstjórnarinnar við Hreyfinguna í stjórnarskrármálinu.
    Frú forseti. Ég hef ekki stutt þessa ríkisstjórn síðustu tvö árin af annarri ástæðu. Ástæðan er hagsmunagæsla ríkisstjórnarinnar í þágu fjármagnseigenda sem leitt hefur til aukinnar misskiptingar, sundrungar og örvæntingar hjá öllum þeim sem ná ekki lengur endum saman

  • Peningakerfið

    Posted on December 7th, 2012 Þrándur No comments

    Þegar kreppan skall á var ljóst að peningakerfi heimsins var að stórum hluta um að kenna.

    Átakið “Betra peningakerfi”  er athyglisverð tilraun til að koma skynsamara kerfi á laggirnar. Nú hefur Lilja Mósesdóttir lagt fram frumvarp á Alþingi sem byggir á þeim hugmyndum.

    Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta gengur og erlendis hafa menn líka mikinn áhuga.

    Íslenska hagkerfið er svo lítið og afmarkað frá heiminum að það ætti að henta vel fyrir tilraunir í þessa veru.

    Orsök óstöðugleika og skuldasöfnunar er að finna í peningakerfinu. Hér eru gallar brotaforðakerfisins útskýrðir og hvernig má leysa vandann með því að taka upp heildarforðakerfi.

  • Frjálsi fjárfestingarbankinn dæmdur og bankastjórnendur kærðir!

    Posted on February 15th, 2012 Þrándur No comments

    Loksins!

    Frjálsi fjárfestingarbankinn hefur nú verið dæmdur af Hæstarétti. Þeim var EKKI heimilt að krefjast hærri vaxtagreiðslna aftur í tímann miðað við vaxtaviðmið Seðlabankans af lánum sem bundin voru við gengi erlendra mynta.

    Þá vísaði Hæstiréttur til laga nr. 151/2010 og taldi að með almennum lögum væri ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reyndi í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Gætu lögin því ekki haggað áðurgreindri niðurstöðu um uppgjör milli aðila

    Nú hafa Hagsmunasamtök heimilianna lagt fram kæru á stjórnendur banka. Ánægjulegt að sjá að spjótum sé beint að þeim sem raunverulega bera ábyrgð.

    Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið óþreytandi við að berjast fyrir réttlátri skuldaleiðréttingu. Hæstaréttardómurinn í dag sýnir að við erum á réttri leið.

    Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt fram kæru til efnahagsbrotadeildar á hendur öllum stjórnendum og bankaráðum bankanna frá árinu 2001-2012 fyrir brot á stjórnarskrá, almennum hegningarlögum, vaxtalögum, lögum um samningsgerð, lögum um hlutafélög og fyrir að vanrækja eftirlitsskyldu sína.

    Í fyrsta lagi eru bankastjórnendur sem voru við stjórn frá 2001- 2008 kærðir fyrir að veita gengistryggð lán. Má leiða líkur að því að hinar ólöglegu lánveitingar hafi jafnvel farið fram vísvitandi, í það minnsta gerðu Samtök banka- og verðbréfafyrirtækja umsögn um frumvarp áður en það varð að lögum og vöruðu við því að ef frumvarpið yrði að lögum yrði ekki heimilt að gengistryggja lán. Jafnframt má geta þess að Verslunarráð Íslands og Samtök atvinnulífsins sendu einnig inn umsagnir áður en frumvarpið varð að lögum þar sem koma fram varnaðarorð í þessa sömu veru.

    Hæstiréttur hefur nú staðfest að slíkar lánveitingar brjóta gegn lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38 frá árinu 2001. Eftir setningu neyðarlaganna árið 2008 hafa nýjar lánveitingar af þessu tagi lagst af, en þó er heimilt að veita sannanlega erlent lán sem er greitt út í erlendum gjaldmiðli og innheimt í erlendum gjaldmiðli. Innheimta á ólögmætum gengistryggðum lánum hefur þó haldið áfram á forsendum sem HH telja að stríði gegn samningalögum, vaxtalögum, lögum um neytendalán og stjórnarskrá.

    Í öðru lagi beinist því kæran einnig gegn þeim bankastjórnendum sem setið hafa í stjórnum frá því bankarnir hófu innheimtu á endurútreiknuðum ólögmætum lánum. Er það mat samtakanna að bankarnir hafi gerst brotlegir við lög og gengið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar með því að vaxtavaxtareikna lánin annars vegar og hins vegar með því að reikna hærri vexti afturvirkt á greidda gjalddaga allt frá lántökudegi í stað þess að miða við setningu laga nr. 151/2010. Í dómum Hæstaréttar hefur gengistryggingin verið dæmd ólögleg og mælst til að nota óverðtryggða vexti Seðlabankans á ógreiddar eftirstöðvar lána, en ekki á greidda gjalddaga.

    Í þriðja lagi telja Hagsmunasamtök heimilanna að bönkunum sé óheimilt að innheimta vexti fyrir tímabil áður en þeir eignuðust kröfuna, og er það skilningur samtakanna að eigandi skuldabréfs eigi eingöngu kröfurétt á vexti frá þeim degi þegar hann eignast kröfuna. Þessi hluti kærunnar á því við um stjórnendur nýju bankanna þar sem bankarnir eigi ekkert tilkall til vaxtagreiðslna fyrir þann tíma þegar þeir urðu löglegir eigendur skuldabréfa. Gamlir eigendur þeirra hafa þegar innheimt vaxtagreiðslur og greiðslur inn á höfuðstól sem að mati samtakanna eiga að standa í íslenskum krónum.

    Einstaklingar dregnir til ábyrgðar.

    Í öllum tilvikum eru bankastjórnendur kærðir fyrir auðgunarbrot er varða almenn hegningarlög, sem og brot á greinum hlutafélagalaga er varða ábyrgð. Það er mat samtakanna að mikilvægt sé að draga til ábyrgðar þá einstaklinga sem setið hafa í stjórnum bankanna undanfarin ár. Með kæru á hendur bankastjórnendum vilja samtökin leggja áherslu á þá gríðarlegu ábyrgð sem því fylgir að vera stjórnarmaður í bankakerfinu. Hafi fjármálastofnanir stundað refsivert athæfi með ólöglegri lánastarfsemi og síðan ólöglegri innheimtu er það krafa HH að einstaklingarnir sem standa að baki ákvörðunum geti ekki vikið sér undan persónulegri ábyrgð sinni.

  • Í tilefni dagsins…

    Posted on October 1st, 2011 Þrándur No comments

    Hefur nokkuð breyst síðan þetta lag var flutt?

  • Leiðin til helvítis 2

    Posted on June 28th, 2011 Reynir No comments

    Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég grein í blaðið sem hét Leiðin til helvítis. Það var um eiturlyfjavandann, og um það hvað við gerum í góðri trú, en virkar alveg öfugt við það sem ætlast er til. Mér verður oft hugsað til Sjálfstæðismanna. Af hverju kýs fólk Sjálfstæðisflokkinn? Sérstaklega núna þegar hann hefur komið endanlega út úr skápnum sem einn spilltasti stjórnmálaflokkur á vesturlöndum. Hann setti fjármálakerfið á hliðina. Hann seldi bankana þrátt fyrir varnaðarorð stjórnarandstöðunnar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins aðhafðist ekkert þó að seðlabankar og ríkisstjórnir annara landa hrópuðu á hana að gera eitthvað áður en allt færi á hliðina. Þetta stóð í mörg ár og þeir lokuðu augunum og lugu að þjóðinni alveg fram á síðasta dag. Öll spillingarmálin er óþarfi að telja upp. Fjölmargir þingmenn flokksins eru flæktir í þau. Þeir viðurkenna engin mistök, segja bara að bankamennirnir hafi valdið hruninu. Það hafa verið bankamenn í 100 ár á Íslandi, en þeim var ekki gert mögulegt að svindla svona fyrr en nú. Þrátt fyrir allt þetta: 40% þjóðarinnar finnst rétt að kjósa flokkinn! Þetta er ekki Rússland. Það eru margir aðrir flokkar og minna spilltir sem hægt er að kjósa. Það er örugglega einhver skýring á þessu. Ég held að þetta sé einskonar trú. Fólki finnst það vera hluti af fjölskyldu. Einskonar ættarveldi, svipað og í Afríku. Davíð Oddson var ættarhöfðinginn. Menn voru ánægðir með hann, hann réði öllu eins og ættarhöfðingjar eiga að gera. Svo voru það hinir. Þeir voru hættulegir. Það voru Kommúnistarnir. Flokkurinn barðist gegn Kommúnistunum. Vinstri menn sneru baki við Kommúnismanum uppúr 1960, en þá kölluðust þeir Sósíalistar sem var álíka skammaryrði. Þannig varð til jafnan: Allir hinir = Sósíalistar = Kommúnistar = Alræðisstjórn í Sovétríkjunum. Alræðisstjórnin í Sovétríkjunum hleraði andstæðinga sína og var með tökin á öllu: Stjórnmálum, atvinnulífi, dómstólum og fréttamiðlum. Af hræðslu við óvininn safnast Sjálfstæðismenn nú enn einu sinni saman og kjósa sinn flokk, sem þeim finnst að berjist gegn öllu þessu. Staðreyndin er hinsvegar að það er einmitt Sjálfstæðisflokkurinn sem er líkastur Sovéska kommúnistaflokknum eins og hann var og hét: Flokkurinn er eini flokkurinn sem hefur hlerað pólitíska andstæðinga sína (Bjarni Ben hinn fyrri) og hann hefur haft tökin á: Stjórmálunum, atvinnulífinu, dómstólunum og fréttamiðlunum. Mest sláandi eru líkindin með flokksþingunum. Þar andmæla menn ekki, heldur rétta bara prúðir upp hendi og klappa. Er þetta virkilega það sem hinn venjulegi Sjálfstæðismaður vill? Ég held ekki. En: „Leiðin til helvítis er vörðuð góðum áformum“.

  • Leiðin til helvítis

    Posted on May 17th, 2011 Reynir No comments

    Leiðin til helvítis.

    „Leiðin til helvítis er vörðuð góðum áformum“ sagði einn félagi minn eftir að hafa hlustað á afsakanir mínar þegar ég mætti ekki á tennisæfingu fyrir löngu síðan.  Mér fannst þetta full sterkt til orða tekið, en flott.  Síðan hef ég hugsað um þetta af og til, og þetta er svo satt.  Það er átt við að menn geta verið að gera eitthvað í góðri trú, haft góð áform, en afleiðngarnar eru þveröfugar við það sem ætlast er til. 

    Nú eru í fréttum mótorhjólagengi sem verið er að stofna, skipulögð glæpasamtök sem  hafa náð fótfestu í nágrannalöndunum.  Þetta er stórhættuleg þróun.  Við sjáum Ítalíu, þar sem mafían ræður nánast öllu, að maður tali nú ekki um Mexíkó, þar sem fólk er drepið í hópum, bara fyrir það eitt að vilja ekki vinna með glæpasamtökunum.  Hvað er hægt að gera?  Eldsneytið fyrir þessi samtök er eiturlyfjasala.  Því miður er einhverskonar klofningur í afstöðu manna til áfengis annarsvegar, og annara eiturlyfja hinsvegar.  Mönnum finnst eðlilegt að auglýsa áfengi, og tala fyrir því að einkaaðilar selji það, en önnur eiturlyf eru bönnuð.   Fólk gerir þetta í góðri trú, það vill vernda æskuna frá því að lenda í klóm eiturlyfjanna.  En með því að hafa þetta bannað, er eiturlyfjamarkaðurinn lagður heill og óskiptur upp í hendurnar á glæpamönnunum.  Þetta eru sterkir strákar og sólbrúnir, með fullar hendur fjár.  Stelpurnar hrífast af þeim, þeir tæla þær inn í þennan heim, og strákana líka.  Þetta er lokaður heimur, enginn læknir, ráðgjafi eða neinn stuðningsaðili kemst nálægt fyrr en allt er orðið of seint.  Brosmildi unglingurinn er orðinn að samviskulausu slytti sem hugsar bara um næsta skammt.  Það er auðvitað þetta sem menn eru hræddir við, og þessvegna eru eiturlyf bönnuð.  En afleiðingin verður að her manns tekur það að sér að:  Flytja inn eiturlyfin (eða framleiða), tæla ungt fólk inná braut eiturlyfjanna, og svo rukka þá og aðstandendur þeirra fyrir eiturlyfjaskuldirnar.   

    Nú er ástandið orðið svipað og á bannárunum milli stríða.  Þá var markaðurinn fyrir áfengissölu settur í hendurnar á glæpamönnum, þá var gullöld Al Capone í Bandaríkjunum, og menn sáu að ef það yrði ekki gert löglegt að versla með áfengi, myndu glæpamennirnir ekki bara ná yfirhöndinni yfir lögreglunni, heldur í verslun og viðskiptum og almennt allri atvinnustarfsemi í þjóðfélaginu.

    Sumir segja:  „Herðum bara refsingarnar, fjölgum lögregluþjónum aukum eftirlit tollgæslunnar“.  Þar eru líka góð áform að baki.  En núna eru refsingar orðnar all verulega harðar fyrir smygl t.d.  Og hverjir lenda í þessum hörðu refsingum?  Það eru unglingarnir okkar, sem í sakleysi sínu og bjánaskap eru plataðir til að taka með sér pakka af efni í gegnum tollinn.  Ég man eftir máli ungrar stúlku sem var dæmd í 8 ára fangelsi fyrir smygl í danmörku.  Margir sleppa með lægri dóm fyrir að drepa mann.  Viljum við þetta?  Hver er meiri glæpamaður, sá sem drepur mann, eða sá sem í bjálfaskap flytur pakka yfir landamærin?  Varðandi fleiri lögregluþjóna og harðara eftirlit:  Það hefur verið rannsakað, að allar tilraunir Bandaríkjamanna við að auka eftirlit með landamærunum að Mexíkó, eða fjölga í lögregluliði í fíkniefnadeildunum, hafa bara orðið til þess að framboðið minnkar tímabundið á markaðnum, verðið hækkar, og eiturlyfin finna sér nýjan farveg inn í landið.  Þetta hefur oft verið reynt.  Man einhver eftir slagorðinu „Eiturlyfjalaus Reykjavík árið 2000“?

    Eina leiðin til að stemma stigu við þróuninni, er að selja þessi lyf í ríkinu, eins og gert er við áfengið.  Slá þannig markaðinn úr höndum glæpagengjanna.  Með því móti mætti koma upplýsingum til neytendanna um hætturnar, og leiðir til að losna úr klóm eiturlyfjanna.  Einnig eru meir líkur til að fólk leiti sér hjálpar ef neyslan og varsla eiturlyfjanna er ekki refsiverð.

  • Kosningaklúður?

    Posted on February 7th, 2011 Þrándur No comments

    Ég verð að játa að fyrstu viðbrögð við úrskurði Hæstaréttar hjá mér voru: “klúður aldarinnar!”…

    …en svo þegar maður hefur velt þessu aðeins fyrir sér er þetta kannski ekki svo einfalt. Rökin sem Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður og Reynir Axelsson stærðfræðingur hafa sett fram í greinum, Silfri Egils og fleiri stöðum vega þar þungt.

    Kjarni málsins er þessi:

    Var eitthvað sem benti til að einhver af þeim atriðum sem Hæstiréttur telur upp hefði haft áhrif á útkomu kosninganna?

    Ef ekki þá átti að láta úrslitin standa.

    Vandinn er að úrskurðurinn bitnar á þeim sem síst skyldi – saklausum almenningi.

    Ágæt regla sem dómarar hljóta að hafa í huga: “First do no harm”. Finnst þetta hafi ekki verið alveg nógu vandaður dómur.

    • Skaði fyrir þjóðfélagið 200 milljónir
    • Skaði fyrir 80.000 kjósendur * 5.000 = 400 milljónir
    • Skaði fyrir ímynd Hæstaréttar – ómældur

    Hingað til hef ég borið töluvert traust til Hæstaréttar og talið að þar sitji heiðarlegir og grandvarir menn sem vegi og meti mál út frá lögum og ekki síður anda laganna. “Bonus pater familias” hefði að mínu áliti tekið öðruvísi á þessu máli. Lögfræði og dómar eiga að snúast um fólk og vernda almenning.

    Þetta er vandrataður vegur.

    Hitt er annað mál að undirbúningur fyrir Stjórnlagaþingið hefði mátt vera vandaðri, t.d. hefði mátt hafa strangari kröfur um frambjóðendur svo fjöldinn hefði verið minni og fjölmiðlaumfjöllun markvissari.

  • Búsáhaldabyltingin í Argentínu

    Posted on December 5th, 2010 Þrándur No comments

    Heimildarmynd um atburðina sem leiddu til efnahagshruns í Argentínu 2001. Hrunið þurrkaði út millistéttina og jók fátækt upp í 57,5%. Meðal aðalástæðna fyrir hruninu var opinber stefna um nýfrjálshyggju sem opnaði leiðir fyrir erlenda banka og stórfyrirtæki að stela milljörðum dollara. Mikið af eignum og auðlindum Argentínumanna sjálfra var sóað. Fjármálakerfi landsins var meira að segja notað til peningaþvættis af Citibank, Credit Suisse og JP Morgan.

    Afleiðingarnar voru stórkostlegar tilfæringar auðs og fátæktarvæðing samfélagsins sem náði hámarki með fjölda dauðsfalla vegna mótmæla og vannæringar.

    Er þetta það ferli sem stjórnvöld, bankar og lífeyrissjóðir vilja sjá á Íslandi?

  • DV gegn Hagsmunum Heimilanna?

    Posted on December 2nd, 2010 Þrándur No comments

    Við endurbirtum hér grein frá Hagsmunasamtökum heimilanna þar sem þögn “hefðbundinna fjölmiðla” um þessi málefni er æpandi. Hér er spurt stórt – vonandi fáum við einhver svör fljótlega. Þolinmæði almennings hefur verið gríðarleg en gæti senn þrotið…

    DV hafnar birtingu sjónarmiða HH

    Fréttaritið DV hefur fjallað nokkuð mikið um Hagsmunasamtök heimilanna að undanförnu. Stjórn samtakanna fannst nokkuð á sig halla svo ákveðið var að rita grein sem segði frá sjónarmiðum samtakanna því þau hafa sem slík ekki fengið umfjöllun í blaðinu. Ingi F Vilhjálmsson, fréttastjóri DV var beðinn fyrir birtingu greinarinnar. Hann hafnaði birtingu alfarið á þeim grundvelli að það væri of seint og búið væri að ákveða að fara ekki eftir tillögum samtakanna um leiðréttingu íbúðalána. Eftirfarandi er greinin sem Hagsmunasamtök heimilanna óskuðu eftir birtingu á.

    HVATNINGARPAKKI HEIMILANNA
    Hagsmunasamtök heimilanna lögðu fram tillögur sínar um efnahagsaðgerð til leiðréttingar á skuldum heimilanna strax í janúar 2009. Núverandi tillögur að þjóðarsátt eru byggðar á þeim tillögum. Í grunninn hafa tillögurnar ekki breyst vegna þess að þær hafa staðist tímans tönn og í reynd hefur sýnt sig að varnaðarorð HH áttu við rök að styðjast. Megin markmið aðgerða eru tvö: Upprisa efnahagslífs og réttlæti/sanngirni.

    Staðreyndir:
    Fasteignamarkaðurinn er enn botnfrosinn, neysla dregst enn saman, raunskatttekjur og velta samfélagsins hafa dregist saman (6,8% samdráttur 2009). Atvinnuleysi eykst og vel menntað og hæft fólk flytur úr landi (atgerfisflótti). Samdrátturinn er mun meiri en hann þyrfti að vera. Eina ástæðan fyrir því að dregið hefur lítillega úr atvinnuleysi á tímabili er útflutningur vinnuafls (megin útflutningsvara íslendinga nú um stundir að því er virðist).

    Spurt er, hvað kostar?
    Hagsmunasamtök heimilana spyrja á móti hvað kostar að fara ekki í þær aðgerðir sem samtökin leggja til. Sú spurning er mun mikilvægari og nú höfum við hluta sönnunargagnanna fyrir augunum. Hafa þarf í huga að ásetningur kerfisins er að láta heimilin greiða kostnað af óráðsíu banka og slæmri efnahagsstjórn. Kostnaðurinn er því lántaka fasteignalána að óbreyttu og HH hefur bent á að sá reikningur sé ekki bara óréttlátur heldur einnig óskynsamlegur. Sá reikningur kemur í ýmsum formum margfaldur til baka á ríkissjóð, fjármálafyrirtæki og samfélagið allt. Við höfum nú aðeins séð rétt í toppinn á þeim borgunarísjaka (gæti farið yfir 1.000 mja, þ.a. 500 mja. færsla eigna frá heimilum til fjármálastofnana til að bæta þeim eigin afglöp samkvæmt grein Agnars Jón Ágústssonar, 73.000 heimili eignalaus 2011).

    Kr. 12 til 16 milljarðar á ári er allt og sumt

    Almenningur er hvað eftir annað hræddur með óskiljanlega háum grilljörðum og trilljörðum. Setjum tölurnar nú í vitrænt samhengi. Í séráliti fulltrúa HH í svonefndum sérfræðingahóp forsætisráðherra, er gefið dæmi um uppsetningu á afskriftareikning sem mundi bera leiðréttinguna. Við útfærum þetta dæmi Marinós G Njálssonar úr sérálitinu með rauntölum frá sérfræðingahópnum.

    Gefum okkur að tillögur HH séu virkjaðar óbreyttar með afskriftareikning til 25 ára með 5% vöxtum að þá lítur dæmið svona út í þús. milljóna (takið eftir árlegum greiðslum):

    Óbreytt leiðréttingartillaga HH : kr. 182,7 mja (léttir á 72.672 heimilum):

    Ef hugmynd MGN um þak á leiðréttingu út frá tekjum er notuð: kr. 139,6 mja (léttir á ca. 54.000 heimilum):

    Sé þetta reiknað samkvæmt tillögu MGN með tekju og/eða eignatengingu (þeir sem eiga miklar nettó eignir og eru tekjuháir í einu eða öðru formi fengju minni leiðréttingu og margir enga þ.e. þeir sem eru með húsnæðislán upp á punt eins og MGN orðaði það). Útkoman er þá svona:

    Þetta væru sem sagt ekki nema rúmir kr. 12 mja árið 2011 þ.e. en því væri hægt að skipta milli aðila hrunsins. Á móti þessum greiðslum inn á afskriftareikning koma betri almennar innheimtur, afþýðing fasteignamarkaðar, meiri velta og þar með skattar í ríkiskassann, meiri framleiðni, lækkun vaxtabóta, minna atvinnuleysi, færri gjaldþrota heimili, viðsnúningur brottflutnings, meiri kaupmáttur, hækkun greiðslna í lífeyrissjóði og heilbrigðari viðskipti við bankana. Aðrar afurðir væru öryggi, stöðugleiki, bjartsýni og betri almenn heilsa heimilanna, minna álag en ella á heilbrigðiskerfið auk meðbyrs til stjórnvalda. Ríkissjóður fengi myndarlegann tekjuauka á sama tíma en það mundi auðvelda honum að hjálpa t.d. Seðlabankanum og Sparisjóðunum að takast á við þeirra hlið málsins.

    Verða heimilin með í endurreisninni?
    Með lækkun höfuðstóls fasteignalána er markmiðið að heimilin nái fótfestu með hvað þau skulda og að dragi úr yfirveðsetningu. Yfirveðsetning og óvissa með framtíðina eru helstu ástæður þess að fasteignamarkaðurinn er dauður. Væntanlegir kaupendur halda að sér höndum því þeir hafa trú á að verð fasteigna hafi ekki náð botni. Framboð á lánsfé og vaxtastig hafa þarna einnig nokkur áhrif. Megin veltan á fasteignamarkaði almennt er fólk sem er að stækka við sig, minnka við sig eða færa sig um set á einhvern hátt. Að óbreyttu er útlit fyrir að lánveitendur fasteignalána yfirtaki mikið af eignum á næstu árum. Eignirnar fara væntanlega á markað og setja aukin þunga á fasteignaverð niðurávið. Þetta er ekki alslæmt fyrir þá sem eiga ekki fasteignir fyrir, svo framarlega sem þeir eiga fyrir útborgun, hafa lánstraust og vinnu og eru tilbúnir að greiða þá vexti sem eru í boði. Þeim fækkar þó óðum í yfirstandandi samdrætti.

    Hver er ávinningurinn?
    Meiri ráðstöfunarfé heimilanna gerir margt fyrir marga. Sem dæmi væru fleiri sem hefðu efni á að vera áskrifendur að ritum eins og DV. Auglýsingakakan stækkar sem hefur einnig góð áhrif á fjölmiðla sem treysta á auglýsingatekjur. Hagfræðingar hafa fært rök fyrir því að aukinn kaupmáttur í lægri tekjuenda millistéttarinnar hefur jákvæðust áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Hagkerfið þarf á meiri veltu að halda, sérstaklega í þjónustugreinunum. Leiða má getur að því að þjónustugreinarnar séu komnar töluvert undir eðlilegt jafnvægisástand vegna stöðugs samdráttar í eftirspurn. Vísbendingar um þetta má finna í hagtölum Hagstofunnar um gjaldþrot í þessum greinum.

    Hvernig sem menn skipta árlegum endurgreiðslum 12 til 16 milljarða stökkbreytts hluta íbúðalána á milli ríkissjóðs, banka og lífeyrissjóða er alveg ljóst að heimilin geta ekki greitt þennan reikning nema með sambærilegum samdrætti veltu og eftirspurnar í hagkerfinu. Ráðamenn þurfa aðeins að líta á hagtölur síðustu tveggja ára til að sjá hvaða áhrif það hefur að fjármálastofnanir sogi til sín allt fjármagn. Menn gleyma því stundum að gjaldmiðillinn er til þess upp fundinn að láta verðmæti og verðmætasköpun flæða í hagkerfinu. Ekki ósvipað og blóðið hefur það hlutverk að láta orku og næringu flæða um líkamann. Hefti menn flæði fjármuna eða safna þeim of mikið eða þynna út dregur úr flutning næringar frá líffærum til vöðva, heila og vefja samfélagsins og þar með getu þess til að láta til sín taka.

    Mikilvægi réttlætis
    Hornsteinn tillagna HH er um réttlæti. Lántökum finnst afar óréttlátt að vera ætlað að bæta einir upp geigvænlegt aulatap lífeyrissjóða svo ekki sé minnst á fjármögnun eigin fés kennitöluflakkandi banka. Tillögurnar leggja út frá sameiginlegri ábyrgð þ.e. af um 30% hækkun verðbóta verði rétt rúmum helming skilað til heimilanna. Lagt er til að fórnarlömb stökkbreyttra íbúðalána (lögheimila) sitji við sama borð með því að taka stöðuna 1. janúar 2008 og reikna lánin frá þeim degi með 4% þaki á verðbætur en gengisbundnu lánin verði einnig með verðbótum og þaki frá þeim degi. Verðbólga er nú vel undir 4% og því engar fjármálastofnanir að tapa neinu af því þaki á næstu árum á meðan fjármálakerfið heldur sér á mottunni í útlánum (fylgni óhóflegra útlána og verðbólgu er margreynd bæði hérlendis og annarstaðar).

    Án réttlætis verða lántakar um langa framtíð í mótþróa við allt sem bankar, lífeyrissjóðir og ríkisstjórn leggja til. Sárindin yfir óréttlætinu éta okkur að innan, við viljum síður leggja okkur fram, við verðum veikari, við látum í besta falli draga okkur áfram eða leggjumst í andóf. Við flytjum úr landi, við vantreystum samborgurum okkar, mörg okkar verða óvirk. Tilfinningin er lamandi tilfinning um tilgangsleysi. Tilfinningin er sambærileg við afleiðingar innbrots og þjófnaðar en það sem verra er að þjófarnir ætlast til að þú vinnir í tugi ára upp í það sem þeir náðu ekki í fyrstu umferð. Skuldaþrældómur. Hversu margir munu kjósa frelsið með einum eða öðrum hætti vitum við ekki. Þó má reikna með að ofangreindar tilfinningar leiði til minni virðingar, glæpa og almennrar hnignunar samfélagsins. Kostnaður okkar allra af þeim völdum er ómælanlegur. Réttlæti er samfélaginu afar dýrmætt.

    Hagsmunasamtök lýðskrumara?
    Fréttastjóri DV skrifar gildishlaðna grein 26. nóv. sl. og upplýsir lesendur um afstöðu sína til tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna. Afstaða hans er áþekk þeirra sem hafa lagt sig fram um að verja málstað fjármálafyrirtækja og stefnu stjórnvalda. Hvergi í greininni er efast um réttmæti krafna fjármálastofnananna. Fullyrðingar eru settar fram en ekki alltaf rökstuddar. Sumt er hreinlega rangt. T.d. er fullyrt að samtökin hafi sett fram aðrar tölur en gefnar hafa verið út af opinberum aðilum. Hið rétta er að HH hefur stuðst við töluleg gögn frá AGS, FME, Seðlabankanum, Hagstofunni, lífeyrissjóðum og bönkunum. HH hefur einnig bent á ósamræmi í ýmsum tölum, sérstaklega frá SÍ og FME. Þau tölulegu gögn sem koma fram í þessari grein koma m.a. frá gögnum sérfræðingahópsins og opinberum tölum. Nú síðast kom út skýrsla Hagstofunnar um stöðu heimilanna. Þar kemur fram að staðan er næst því sem við höfum haldið fram en það byggjum við m.a. á könnunum okkar frá 2009 sem hafa reynst lýsa ástandinu býsna vel ef þær eru bornar saman við gögnin frá Hagstofunni. Kannanirnar má finna á heimasíðu samtakanna ásamt vísunum í önnur gögn og greinar.

    Hagsmunasamtök heimilanna hvetja DV til að birta og fjalla um skýrslu sérfræðihóps forsætisráðherra og markmið hans og einnig sérálit fulltrúa HH. Slík frjáls og óháð umfjöllun getur vonandi kastað ljósi á málefnið fyrir bæði fréttamenn DV og almenning.

    Skjaldborgin
    Allt tal um aðstoð við þá verst settu hefur verði afsökun fyrir að gera helst ekkert. Það eina sem gert er fyrir þá “verst settu” er að þeir eru leiddir í gegn um eignahreinsun og síðan skammtað skít úr hnefa í tvö til þrjú ár. Kröfum fjármálafyrirtækja hefur verið svarað umsvifalaust með lagasetningu og öðrum aðgerðum þeim í hag. Seðlabankinn og FME eru eins og gæsamömmur með ungahóp einkarekinna fjármálafyrirtækja. Í stað þess að veita þessum fyrirtækjum aðhald eru þau vernduð með umönnun sem óvitar væru.

    Forsætisráðherra hefur nefnt Hagsmunasamök heimilanna á nafn í viðtölum, nú síðast í viðtali við Stöð tvö daginn eftir að skýrsla sérfræðingahóps var birt. Forsætisráðherra hrósar samtökunum og nefnir að áhugi sé á áframhaldandi samvinnu við samtökin. Ekkert alvöru samráð hefur verið haft við samtökin þrátt fyrir eindregna ósk stjórnar HH þess efnis, nú síðast með bréfi frá formanni stjórnar til forsætisráðherra 16. nóvember sl. (sjá heimasíðu HH www.heimilin.is).

    Kjarni málsins varðandi kostnað
    Eins og áður segir þyrftu fjármálastofnanir að gefa eftir árlega 12 til 16 milljarða í heild í nokkur ár og síðar lækka þessar árlegu afskriftir. HH hefur jafnvel gert ráð fyrir vöxtum inn í þessum tölum. Mönnum er tíðrætt um að einhver þurfi að borga. Spurt er hver á að borga? Borga hvað? Ránsfeng markaðsmisnotkunar og fjársvikastarfsemi? Eiga fórnarlömb slíks að greiða gerendunum? Halda menn að með því að skipta um kennitölu á bönkunum séu syndir þeirra fyrirgefnar? Með því að rétta nýjum eigendum pappírana sé enginn glæpur til lengur? Sannleikurinn er sá að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna eru ofur sanngjarnar og halla töluvert á heimilin ef eitthvað er. Óbreytt stefna mun skaða heimilin og samfélagið í heild. Atvinnulífið þarf á eftirspurn heimilanna að halda og heimilin byggja velferð sína og öryggi á öflugu atvinnulífi, ábyrgri fjármálastarfsemi og áreiðanlegri opinberri þjónustu. Ætli menn að endurreisa traust og trú heimilanna á framtíðina þurfa þeir að skoða tillögur samtakanna af alvöru án undanbragða.

    Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

  • Ekki kjósa Jónas!

    Posted on November 22nd, 2010 Þrándur No comments

    Jónas Kristjánsson er ákaflega afkastamikill bloggari eftir að hann settist í helgan stein. Hann hefur verið duglegur að benda á ýmislegt sem betur má fara í þjóðfélaginu og kemur víða við. Það var ástæðan fyrir því að ég setti hann á lista yfir þá frambjóðendur sem mér finnst helst koma til greina á stjórnlagaþing.

    Nú bregður svo við að ég get ekki annað en mælt eindregið með því að kjósa EKKI þennan mann. Ástæðan er ótrúlegt skilningsleysi á aðstæðum lánþega eftir hrun sem hann kallar óhikað “óráðssíufólk”. Jónas er reyndar af þeirri kynslóð sem tók lán sem eyddust upp í verðbólgubáli og sitja nú í skuldlausum eignum. Þau fengu eignirnar að “gjöf” frá gamalmennum og börnum sem áttu sparifé og ætlast nú til að afkomendur þeirra borgi allt í topp og rúmlega það.

    Höfum það líka í huga að þetta “óráðssíufólk” er ekki fólkið sem fékk kúlulán frá bönkunum, heldur venjulegt miðstéttarfólk sem var að koma þaki yfir höfuð sitt og fjölskyldu sinnar. Þetta er líka fólkið sem við viljum síst að fari úr landi.

    Hér var framið bankarán í öllum stóru bönkunum a.m.k. og fólkið sem Jónas vill að greiði fyrir glæpinn er það sem hann nefnir svo smekklega.

    Nei takk – Ekki Jónas!

    Það eru fjölmargir aðrir frambærilegri á stjórnlagaþingið.