Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Áhugamenn um utanvegaakstur

    Posted on February 25th, 2013 Þrándur No comments

    Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og áhugamaður um rétta setningarfræði skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið í morgun. Oft hittir Guðmundur á áhugaverð mál og stundum er ég sammála honum. Í þessu tilviki missir hann þó marks. Fyrsta setningin gefur tóninn:

    Þúsundir Íslendinga hafa ritað nöfn sín á mótmæli gegn nýjum náttúruverndarlögum og hafa áhugamenn um utanvegaakstur þar látið mikið að sér kveða.

    Það er alveg hárrétt hjá Guðmundi að þúsundir Íslendinga hafa ritað mótmæli gegn nýjum náttúruverndarlögum. Nánar tiltekið er fjöldinn kominn yfir 16 þúsund manns. Ekki það að fjöldi þeirra sem hafa ákveðna skoðun geri hana réttari eða ekki, en samt gefur þetta ákveðna vísbendingu, sérstaklega í lýðræðisríki.

    Seinni helmingur setningarinnar tengir andstöðuna við “áhugamenn um utanvegaakstur”. Þetta er hópur sem ég hefði haldið að væri afar smár, þar sem utanvegaakstur er jú bannaður samkvæmt núgildandi lögum! Miklu nærtækara er að telja upp þá sem hafa sent inn athugasemdir og skilgreina hópinn svona:

    • Samband íslenskra sveitarfélaga
    • Landssamband veiðifélaga
    • Skógræktarfélag Borgarfjarðar
    • Landssamband landeigenda á Íslandi
    • Norðurþing
    • Skógræktarfélag Íslands
    • Skógrækt ríkisins
    • Ferðaklúbburinn 4×4

    Það er eins og Guðmundur hafi ekki kynnt sér innihald nýju laganna eða þau atriði sem bent hefur verið á að betur megi fara. Ferdafrelsi.is telur upp fjölmörg atriði:

    Almennar umsagnir um frumvarpið eru m.a. að

    • útivistarhópum er mismunað eftir ferðamáta
    • ekki er tekið tillit til hópa eins og fatlaðra, aldraðra eða fólks með ung börn sem ekki geta vegna aðstæðna sinna farið um hálendið fótgangandi
    • ráðherra og Umhverfisstofnun er falið óhóflegt vald til banna og boða eftir eigin geðþótta
    • skilgreiningar á hugtökum eru óljósar og aðrar vantar
    • ýmis ákvæði eru óframkvæmanleg, þannig að frá byrjun verður ómögulegt að framfylgja lögunum
    • ef rýnt er í þrönga skilgreining höfunda frumvarpsins á hugtakinu útivist sést að hún á aðeins við um för og dvöl úti undir beru lofti í náinni snertingu við landið sem farið er um. Ljóst má vera að höfundarnir telja ferðalög á fjórhjólum, mótorhjólum og vélsleðum ekki til útivistar þótt undir beru lofti sé og upplifun af náttúrunni hjá þeim hópi sé síst minna virði en upplifun annarra. Þá mætti einnig ætla að nefndin líti ekki á það sem hluta af útivist þegar ferðamenn fara akandi á einhvern tiltekinn stað á hálendi Íslands, að ökuferðin sé ekki hluti útivistarinnar, jafnvel þótt áð sé við fallega staði á leiðinni og þeirra notið um leið og teygt er úr sér, eða farið í göngu-, hjóla- eða veiðiferðir út frá áningastað. Andi laganna einkennist mjög sterklega af þessum skoðunum höfundanna

    Eins og sjá má fjalla megin athugasemdirnar meira um innihald laganna, valdmörk ráðherra og stofnana ásamt vinnsluferlinu.

    Guðmundur heldur áfram:

    Jeppafjallamenn eru vissulega upp til hópa miklir náttúruunnendur og hafa áhyggjur af því að fá ekki að njóta hennar að vild og myndu aldrei rótast á viðkvæmum svæðum: en þeir hugsa málið út frá sjálfum sér.

    Er það rangt að hugsa málið út frá sjálfum sér? Er rangt að hugsa málið út frá hagsmunum afkomenda? Er það rangt að hugsa málið út frá börnum og gamalmennum ásamt fötluðum? Er það rangt að hugsa málið út frá þeim hópi fólks sem hefur notið náttúrunnar og hefur þar mesta reynslu og þekkingu?

    Eftir þessar setningar fer Guðmundur síðan að fjalla um setningarfræði. Þar er hann greinilega á heimavelli – en ég ekki. Ég verð að játa að eftir það skil ég hvorki upp né niður í því hvað hann er að meina.

    Stóra málið er að við vinnslu þessa frumvarps var kastað til höndum og ekki hlustað á raddir stórs hóps áhugafólks um náttúru Íslands. Það gilti um “Hvítbók”, stofnun þjóðgarðs í Vatnajökulssvæðinu og nú um þessi nýju lög.

     

    4 responses to “Áhugamenn um utanvegaakstur”

    1. Aðalsteinn Sigurgeirsson

      Þeir aðilar sem sent hafa umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis athugasemdir við frumvarpið eru margfalt fleiri en ætla mætti af ykkar pistli. Fæstir þeirra (ef nokkrir) eru “áhugamenn um utanvegaakstur”.
      Þær umsagnir má nálgast hér: http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?ltg=141&mnr=429

    2. Takk fyrir að hnykkja á þessu Aðalsteinn.

      Það má reyndar bæta við að það eru nokkrir aðilar sem hafa leyfi til utanvegaaksturs. Það er vegna starfa við landbúnað, landmælinga, línu- og vegalagnir og rannsóknir. Ekki er skráningarskylda á slíkum akstri!

    3. Tryggvi Felixson

      Það er vel hve margir legga orð í belg um náttúruvernd.Það er ljóst að sjónarmiðin eru mörg og ólík, og öll eru þau gangleg til að greina málið niður í kjölinn. En ég tel að sum sjónarmiðin séu því miður ekki sérlega jákvæð fyrir sjálfa náttúruverndina,sem er kjarni náttúruverndarlaga. Undir þetta flokka ég mörg þau sjónarmið sem þeir sem kenna sig við ferdafrelsi.is og lýst er hér.

      Ég tel að útivist og náttúruvernd geti farið vel saman. En varlega þarf að fara. Útvist á vélum og tækjum getur haft mjög skaðleg áhrif á náttúruna, eins reynslan sýnir. Náttúrverndarlögin mismuna ekki einstaklingum,eftir því sem ég kem næst. Þau mismuna þeim aðferðum sem einstaklingar beita til útivistar. Það tel ég því miður nauðsynlegt þar sem sum þessara tækja spilla náttúrunni.

      Ég tel óheppilegt að blanda umræðu um réttindi fatlaðra og hreyfiskertra eins og sumir virðast gera. Það eru og verða áfram fjölmargir staðir aðgengilegir fyrir þennan hóp, en aldrei allir ef ætlunin er að vernda viðkvæma náttúruna.

      Náttúruvernd er að vernda og njóta, í þessari röð.

    4. Tryggvi – nú ert þú að tala um þína upplifun af sjónarmiðum og nefnir engin dæmi.

      Mín tilfinning er sú að þessi atriði sem sett er út á hjá ferdafrelsi.is séu jákvæð fyrir náttúruna líka.

      Ég er dálítið hissa á hvernig sífelt er verið að búa til óvini – þegar allir eru sammála um markmiðið.

      Því miður eru miklar öfgar í umræðunni og undarlegt að fylgjast með hvernig málaflokkinum hefur verið stýrt undanfarin ár – þar sem með markvissum hætti er forðast að taka tillit til skoðana þeirra sem vilja njóta náttúrunnar.

      Dálítið sérstakt.

      Vandamálið er að það eru litlar sem engar rannsóknir til um áhrif og umfang utanvegaksturs.

      Það eru flestir sammála um að útivist og verndun náttúrunnar geti og eigi að fara saman.

    Leave a reply