Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Leiðin til helvítis

    Posted on May 17th, 2011 Reynir No comments

    Leiðin til helvítis.

    „Leiðin til helvítis er vörðuð góðum áformum“ sagði einn félagi minn eftir að hafa hlustað á afsakanir mínar þegar ég mætti ekki á tennisæfingu fyrir löngu síðan.  Mér fannst þetta full sterkt til orða tekið, en flott.  Síðan hef ég hugsað um þetta af og til, og þetta er svo satt.  Það er átt við að menn geta verið að gera eitthvað í góðri trú, haft góð áform, en afleiðngarnar eru þveröfugar við það sem ætlast er til. 

    Nú eru í fréttum mótorhjólagengi sem verið er að stofna, skipulögð glæpasamtök sem  hafa náð fótfestu í nágrannalöndunum.  Þetta er stórhættuleg þróun.  Við sjáum Ítalíu, þar sem mafían ræður nánast öllu, að maður tali nú ekki um Mexíkó, þar sem fólk er drepið í hópum, bara fyrir það eitt að vilja ekki vinna með glæpasamtökunum.  Hvað er hægt að gera?  Eldsneytið fyrir þessi samtök er eiturlyfjasala.  Því miður er einhverskonar klofningur í afstöðu manna til áfengis annarsvegar, og annara eiturlyfja hinsvegar.  Mönnum finnst eðlilegt að auglýsa áfengi, og tala fyrir því að einkaaðilar selji það, en önnur eiturlyf eru bönnuð.   Fólk gerir þetta í góðri trú, það vill vernda æskuna frá því að lenda í klóm eiturlyfjanna.  En með því að hafa þetta bannað, er eiturlyfjamarkaðurinn lagður heill og óskiptur upp í hendurnar á glæpamönnunum.  Þetta eru sterkir strákar og sólbrúnir, með fullar hendur fjár.  Stelpurnar hrífast af þeim, þeir tæla þær inn í þennan heim, og strákana líka.  Þetta er lokaður heimur, enginn læknir, ráðgjafi eða neinn stuðningsaðili kemst nálægt fyrr en allt er orðið of seint.  Brosmildi unglingurinn er orðinn að samviskulausu slytti sem hugsar bara um næsta skammt.  Það er auðvitað þetta sem menn eru hræddir við, og þessvegna eru eiturlyf bönnuð.  En afleiðingin verður að her manns tekur það að sér að:  Flytja inn eiturlyfin (eða framleiða), tæla ungt fólk inná braut eiturlyfjanna, og svo rukka þá og aðstandendur þeirra fyrir eiturlyfjaskuldirnar.   

    Nú er ástandið orðið svipað og á bannárunum milli stríða.  Þá var markaðurinn fyrir áfengissölu settur í hendurnar á glæpamönnum, þá var gullöld Al Capone í Bandaríkjunum, og menn sáu að ef það yrði ekki gert löglegt að versla með áfengi, myndu glæpamennirnir ekki bara ná yfirhöndinni yfir lögreglunni, heldur í verslun og viðskiptum og almennt allri atvinnustarfsemi í þjóðfélaginu.

    Sumir segja:  „Herðum bara refsingarnar, fjölgum lögregluþjónum aukum eftirlit tollgæslunnar“.  Þar eru líka góð áform að baki.  En núna eru refsingar orðnar all verulega harðar fyrir smygl t.d.  Og hverjir lenda í þessum hörðu refsingum?  Það eru unglingarnir okkar, sem í sakleysi sínu og bjánaskap eru plataðir til að taka með sér pakka af efni í gegnum tollinn.  Ég man eftir máli ungrar stúlku sem var dæmd í 8 ára fangelsi fyrir smygl í danmörku.  Margir sleppa með lægri dóm fyrir að drepa mann.  Viljum við þetta?  Hver er meiri glæpamaður, sá sem drepur mann, eða sá sem í bjálfaskap flytur pakka yfir landamærin?  Varðandi fleiri lögregluþjóna og harðara eftirlit:  Það hefur verið rannsakað, að allar tilraunir Bandaríkjamanna við að auka eftirlit með landamærunum að Mexíkó, eða fjölga í lögregluliði í fíkniefnadeildunum, hafa bara orðið til þess að framboðið minnkar tímabundið á markaðnum, verðið hækkar, og eiturlyfin finna sér nýjan farveg inn í landið.  Þetta hefur oft verið reynt.  Man einhver eftir slagorðinu „Eiturlyfjalaus Reykjavík árið 2000“?

    Eina leiðin til að stemma stigu við þróuninni, er að selja þessi lyf í ríkinu, eins og gert er við áfengið.  Slá þannig markaðinn úr höndum glæpagengjanna.  Með því móti mætti koma upplýsingum til neytendanna um hætturnar, og leiðir til að losna úr klóm eiturlyfjanna.  Einnig eru meir líkur til að fólk leiti sér hjálpar ef neyslan og varsla eiturlyfjanna er ekki refsiverð.

     

    4 responses to “Leiðin til helvítis”

    1. Já, þetta er ekki svo einfalt mál. Trúlegt að það verði erfitt að sannfæra fólk um að það eigi að selja eiturlyf í ríkínu (eða apótekum).

      Annars virðast margir læknar ansi duglegir að ávísa lyfjum sem fara svo í umferð í undirheimum.

    2. “Eina leiðin til að stemma stigu við þróuninni, er að”…
      Ef það væri bara ein leið við einhverju vandamáli væri hún farin.
      Þú ert með fullyrðingu sem er út í hött og ég er ekki frá því að fleira í þessu bloggi sé í stíl við það.

    3. Hörður Valdimarsson

      Þetta hefur nú verið gefið frjálst svæðisbundið um alla evrórpu þ.á.m í englandi sviss gíbraltar og víða. Frá þessum svæðum hefur maður ekki séð breytingu í þá veru að eyturlyfjaneysla minnki. En hún hefur heldur ekki aukist. Hinns vegar hefur maður séð að auðgunarbrotum hefur fjölgað nánast niður í 0. Þá er ástand fíkla á þessum svæðum mun betra en þar sem þetta er bannað. Ástæðan er su að hreinlæti og aðstoð hafa verið til að hjálpa þessu fólki. Í mörgum tilfellum lifir þetta fólk ósköp eðlilegu lífi oft með vinnu og börn. Þetta eru sjúkið einstaklingar sem eiga rétt á mannréttindum eins og við. Að sjá heimildar þætti um þessa fíkla samanborið við fíkla í bandaríkjunum t.d. er eins og svart og hvítt hvað varðar heilsu, hreinlæti og aðrar félagslegar aðstæður.

    4. Ragnar: “Ef leiðin er færi væri hún farin” Þessi setning lýsir öfundsverðri trú á stjórnmálin og ráðamönnum þjóðarinnar. Ég reyndi einmitt að skýra í greininni af hverju hún er ekki farin.

    Leave a reply