Grasrótin ræðir málin
RSS icon Email icon Home icon
 • Kosningaklúður?

  Posted on February 7th, 2011 Þrándur No comments

  Ég verð að játa að fyrstu viðbrögð við úrskurði Hæstaréttar hjá mér voru: “klúður aldarinnar!”…

  …en svo þegar maður hefur velt þessu aðeins fyrir sér er þetta kannski ekki svo einfalt. Rökin sem Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður og Reynir Axelsson stærðfræðingur hafa sett fram í greinum, Silfri Egils og fleiri stöðum vega þar þungt.

  Kjarni málsins er þessi:

  Var eitthvað sem benti til að einhver af þeim atriðum sem Hæstiréttur telur upp hefði haft áhrif á útkomu kosninganna?

  Ef ekki þá átti að láta úrslitin standa.

  Vandinn er að úrskurðurinn bitnar á þeim sem síst skyldi – saklausum almenningi.

  Ágæt regla sem dómarar hljóta að hafa í huga: “First do no harm”. Finnst þetta hafi ekki verið alveg nógu vandaður dómur.

  • Skaði fyrir þjóðfélagið 200 milljónir
  • Skaði fyrir 80.000 kjósendur * 5.000 = 400 milljónir
  • Skaði fyrir ímynd Hæstaréttar – ómældur

  Hingað til hef ég borið töluvert traust til Hæstaréttar og talið að þar sitji heiðarlegir og grandvarir menn sem vegi og meti mál út frá lögum og ekki síður anda laganna. “Bonus pater familias” hefði að mínu áliti tekið öðruvísi á þessu máli. Lögfræði og dómar eiga að snúast um fólk og vernda almenning.

  Þetta er vandrataður vegur.

  Hitt er annað mál að undirbúningur fyrir Stjórnlagaþingið hefði mátt vera vandaðri, t.d. hefði mátt hafa strangari kröfur um frambjóðendur svo fjöldinn hefði verið minni og fjölmiðlaumfjöllun markvissari.

 • Réttlætið það sigraði að lokum…

  Posted on June 23rd, 2010 Þrándur No comments

  …og (bankinn) almenningur endurheimti féð!

  Það er alveg ótrúlegt að bankarnir þurfi nú allt í einu aðstoð við að lesa samningana sem þeir gerðu um gengistryggð lán.

  Samkvæmt dómi Hæstaréttar er það alveg kýrskýrt og alls engin réttaróvissa.

  Svo vitnað sé í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

  Réttlætið sigrar

  Engin réttaróvissa

  GENGISTRYGGING allra lána allra lánafyrirtækja er ÓGILD.
  Lánasamningur stendur að öðru leyti; upphaflegir vaxtaskilmálar og upphaflegur höfuðstóll í íslenskum krónum, að frádregnum greiðslum.

  Lánafyrirtæki endurreikni “áður” gengistryggð lán, án gengistryggingar og með upphaflegum vaxtakjörum og stöðvi á meðan frekari greiðslur frá lántökum eða takmarki þær við upphaflega greiðsluáætlun.

  Lánafyrirtæki endurreikni allar greiðslur afborgana, vaxta og kostnaðar og endurgreiði ofgreiðslur með vöxtum samkvæmt vaxtaviðmiði Seðlabankans (lög nr. 38/2001, 18. grein).

  Lántaki sem vill fresta frekari greiðslum eða takmarka þær við upphaflega greiðsluáætlun, tilkynni lánafyrirtæki það skriflega.

  Lántakar eru hvattir til að kanna rétt sinn til skaðabóta vegna; ofgreiðslna, innheimtuaðgerða, eignamissis eða annars tjóns vegna ólögmætrar gengistryggingar lána.

  Stjórnvöld tryggi, með fyrirmælum ef þarf, að öll lánafyrirtæki endurreikni undanbragðalaust “áður” gengistryggð lán, án gengistryggingar og með upphaflegum vaxtakjörum.

  Samtökin vilja áframhaldandi samvinnu við stjórnvöld um lausnir á skuldavanda heimilanna, og mótunar nýs lánakerfis, til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

  Taktu þátt í að verja hagsmuni heimilanna og móta lánakerfi til framtíðar með því að skrá þig í Hagsmunasamtök heimilanna á heimilin.is

  Höfum það líka í huga að engin heimild er til að breyta samningum eftirá eins og suma virðist dreyma um, hvað þá að eitthvað sé krukkað í dóma Hæstarétts.

  Vonandi verður þetta mál allt síðan til að varpa ljósi á það arfavitlausa kerfi sem verðtryggingin hefur orðið að.

  Verðtryggingin hefur virkað sem bæði belti og axlabönd fyrir vanhæft bankakerfi. Og við munum líka að það var almenningur sem þurfti samt að hysja upp um bankana buxurnar!

  Það er lífsspursmál fyrir þjóðina að verðtrygging verði lögð af NÚNA!