Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Enn af skjaldborginni…

    Posted on May 15th, 2009 Þrándur No comments

    Það er alveg ótrúlegt hversu lítið ráðherrar hafa tekið eftir því að hér hefur heilt hagkerfi hrunið. Það er bara haldið áfram af fullri hörku gagnvart saklausu fólki sem vann sér það eitt til sakar að hafa trúað á framtíð landsins.

    Það er eins og þeir haldi að við það að taka við slíku embætti aukist viska þeirra svo mikð að engin þörf sé lengur að hlusta á önnur sjónarmið.

    Gunnar Tómasson ritar í morgun grein í Fréttablaðið þar sem hann talar um að eina skjaldborgin sé sú sem reist hefur verið utan um kröfuhafa:

    Eignamat gömlu bankanna

    Í minnisblaði viðskiptaráðherra – Endurreisn fjármálakerfisins – sýn viðskiptaráðherra á verkefnin framundan – dags. 5. maí segir svo í 1. lið:

    „Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá því í október 2008 var kveðið á um að tilteknar eignir og skuldir færðust yfir frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Í kjölfarið gerði Fjármálaeftirlitið samning við Deloitte LLP um að meta þær eignir og skuldir sem færðust á milli. Einnig gerði eftirlitið samning við alþjóða ráðgjafafyrirtækið, Oliver Wyman, til þess að hafa tilsjón með mati á eignunum. Fjármálaeftirlitið fól Deloitte LLP að byggja mat sitt á hugtakinu gangvirði, en skilgreining þess gerir ráð fyrir að nýju bankarnir haldi áfram starfsemi sem fullfjármagnaðir íslenskir bankar á innanlandsmarkaði og þurfi hvorki að losa eignir (eða gera upp skuldbindingar) í bráð né með nauðungarsölu. Niðurstöður matsins liggja nú fyrir og er nú verið að kynna þær hagsmunaaðilum í samræmi við stefnu þar að lútandi.”

    Gangvirði („fair value” á ensku) vísar til söluverðs eigna við ríkjandi markaðsaðstæður án tillits til upphaflegs kaupverðs eða nafnverðs, t.d. reyndist gangvirði eigna Glitnis í Noregi sl. október vera 10% af kaupverði 2004 og brezkur fjármálamaður bauð 5% í áhvílandi skuldir á eignum Baugs í Bretlandi á sama tíma. Þegar bankar fara á hliðina fara eignir þeirra á brunaútsölu, sbr. yfirtöku Bank of America á skuldum og eignum Merrill Lynch & Co. um síðustu áramót á 12% af gangvirði hlutabréfa fyrirtækisins í janúar 2007. Markaðurinn er harður húsbóndi eins og skuldsett heimili landsins sannreyna um leið og stjórnvöld bjóða þeim aðstoð í skötulíki. Hins vegar hafa íslenzk stjórnvöld slegið skjaldborg um hagsmuni erlendra og innlendra kröfuhafa á Gömlu bankana sbr. þær vinnureglur sem Fjármálaeftirlitið setti Deloitte LLP við mat á eignum þeirra og eiga ekkert skylt við gangvirði í merkingu þess hugtaks við ráðstöfun eigna gjaldþrota banka.

    Höfuðstóll og skilmálar húsnæðislána Gömlu bankanna eru ótvírætt umfram greiðslugetu fjölda lántakenda. Það væri því glapræði fyrir Nýju bankana að yfirtaka slík lán skv. mati Deloitte LLP sem byggir á öðrum forsendum. Vandi stjórnvalda verður einfaldlega ekki umflúinn: skjaldborg verður ekki slegin samtímis um hagsmuni heimila landsins og kröfuhafa Gömlu bankanna. Hið sama er upp á teningnum varðandi skuldir sjávarútvegsfyrirtækja: Nýju bankarnir myndu verða nánast óstarfhæfir til langframa við yfirtöku skuldanna á margföldu gangvirði.

    Mat á eignum Gömlu bankanna samkvæmt þeirri aðferðafræði sem Fjármálaeftirlitið fyrirskipaði myndi ofmeta eignir þeirra til hagsbóta fyrir erlenda og innlenda kröfuhafa um e.t.v. hundruð milljarða miðað við eignamat samkvæmt „fair value” aðferðafræðinni. Leiðrétting á mistökum Fjármálaeftirlitsins og endurmat eigna Gömlu bankanna í samræmi við viljayfirlýsingu stjórnvalda til AGS myndi skapa samsvarandi svigrúm til að aðlaga greiðslubyrði heimila landsins af skuldum við bankakerfið að greiðslugetu þeirra.

    Ólafur Arnarsson sá sem skrifaði bókina “Sofandi að feigðarósi” sem fjallar um íslenska hrunið er ekki siður skýr í máli:

    Það er eins og það fari hreinlega framhjá ráðamönnum þjóðarinnar að íslenska þjóðin hefur nýverið gengið í gegnum versta efnahagshrun, sem nokkur vestræn þjóð hefur þurft að þola. Það sem verra er, hörmungarnar halda áfram. Við hrunið sjálft gerðist í sjálfu sér ekki margt hjá þorra þjóðarinnar. Lánin hækkuðu hvort sem um verðtryggð eða gengistryggð lán var að ræða. En fólk bjó enn í húsunum sínum og keyrði enn um á bílunum sínum í vinnuna sína. Þetta gat verið tímabundið bakslag.

    Nú vitum við að þetta er alls ekki tímabundið. Heimili og fyrirtæki standa frammi fyrir því að allar lánaskuldbindingar hafa hækkað og jafnvel tvöfaldast. Atvinnuleysi stefnir yfir 10% og vextirnir eru eins og Seðlabankinn sé að berjast við mesta góðæri Íslandssögunnar, nú eða jafnvel mannkynssögunnar. Greiðslubyrðin er óviðráðanleg og eignirnar eru nánast einskis virði, alla vega ef nauðsynlegt er að koma þeim hratt í verð.

    Frábær sagan af Jóni og Gunnu…

    Lestu alla greinina hér:

    Pressuúttekt: Neyðarástand, nú þarf tafarlaust að grípa til aðgerða!

    Hvenær ætlar ríkisstjórnin að vakna?


  • Skjaldborg eða Spilaborg?

    Posted on April 15th, 2009 Þrándur No comments

    Hagsmunasamtök Heimilanna benda á máttlausar aðgerðir ríksisstjórnarinnar:

    “Það glittir bara í löngutöng”

    -Brauðmolum kastað til lýðsins

    • Samkomulag án aðkomu lántakenda er marklaust
    • Krafa um sanngjarna skiptingu byrða
    • Vörn fyrir öll sparnaðarform, ekki bara sum
    • Mesta eignaupptaka Íslandssögunnar í sjónmáli
    • Lýst eftir betri lánakjörum ekki lengingu á því sama
    • Bankakerfið fellur, ef gjaldþrotaleiðin verður farin

    Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeirri ákvörðun stjórnvalda og fjármálafyrirtækja að sniðganga með öllu sanngjarnar og hóflegar tillögur samtakanna um leiðréttingu gengis- og verðtryggðra fasteignalána. Að sama skapi mótmæla samtökin þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum sem liggja til grundvallar samkomulagi stjórnvalda og fjármálafyrirtækja.

    Það er ljóst að þeir sem eiga að bera ALLT tapið af hruni bankanna eru skuldarar – ekki síst heimilin sem átti að reisa “skjaldborg” um.

    Ég held að margir séu orðnir langeygðir eftir þessari skjaldborg. Raunar líkist það sem komið er frekar SPILABORG, þar sem allar varnir geta fallið á augabragði ef einhver hreyfir sig óvarlega.

    Er það ekki skrítið af hverju sjóðsreikningarnir voru greiddir út umyrðalaust og án þess að nokkur innistæða virtist vera fyrir hendi? Þegar kemur að því að rétta hlut skuldara verður fátt um aðgerðir aðrar en að lengja í henginarólum.

    Hér þarf massívar aðgerðir ef ekki á að verða stórkostlegt hrun þegar traustustu greiðendur skatta og lána flýja land í stórum stíl. Ef þetta fólk fer, hver ætlar þá að borga fyrir velferðina? Og ég tala nú ekki um risaskuldir þjóðarinnar?

    Er ekki nóg af ónotuðu húsnæði?

    Viljum við landauðn?

    Til hvers var búsáhaldabyltingin?