Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Utanvegaakstur

    Posted on May 23rd, 2012 Þrándur No comments

    Mikið hefur verið rætt um utanvegaakstur í fjölmiðlum að undanförnu. Því miður er þar oft á tíðum rætt um málin af “yfirgripsmikilli vanþekkingu” eða af einhverjum sérkennilegum hvötum.

    Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landverndar skrifar til dæmis í blogg sitt á DV þessa færslu:
    http://www.dv.is/blogg/gudmundur-hordur/2012/5/22/haettu-malthofi-i-skiptum-fyrir-utanvegaakstur/

    Við skulum nú rýna aðeins í þessa færslu.

    Færslan hefst á þessari málsgrein:

    Fréttastofa Rúv sagði í kvöld frá skemmdum á náttúru Íslands vegna aksturs utan vega á leiðinni upp í Herðubreiðarlindir. Í sama fréttatímasagði Rúv frá því að þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefðu í dag samþykkt að hætta málþófi um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá með því skilyrði að frumvarp til laga um náttúruvernd yrði tekið af dagskrá þingsins og vísað aftur í nefnd.

    Það er nú vægast sagt undarlegt að tengja saman þessi óskyldu mál með þessum hætti og maður hlýtur að spyrja sig hvert markmiðið er.

    En skoðum næstu málsgrein:

    Nú vill svo til að markmið þessa frumvarps er einmitt að draga úr skemmdum á náttúru Íslands af völdum utanvegaaksturs með því að skerpa reglur um slíkan akstur, skilgreina betur hvað telst akstur utan vega og eyða óvissu um akstursleiðir sem heimilt er að aka.

    Hér er talað um markmið frumvarpsins og þau sögð draga úr skemmdum á náttúru Íslands. Gott og vel, markmiðið er nokkuð sem allflestir hljóta að vera sammála um. Hvort frumvarpið er í raun betra en núgildandi reglur er ekki augljóst.

    Frumvarpið fjallar meðal annars um slóða um hálendi Íslands. Félagsmenn í Ferðaklúbbnum 4×4 hafa gríðarlega þekkingu á þessum leiðum og hafa félagsmenn verið óþreytandi við að safna gögnum um þessa slóða. Ferðaklúbburinn hefur líka unnið mikið að fræðslumálum um góða siði ásamt því að stika leiðir sem geta verið villugjarnar og óljósar.

    Ferðaklúbburinn 4×4 hefur viljað vinna að þessum málum með stjórnvöldum á hverjum tíma. Nú þegar stjórnvöld lýsa því yfir að þau séu hlynnt “samræðustjórnmálum” bregður svo við að samstarf um þessi mál eru í mýflugumynd.

    Höldum áfram…:

    Akstur utan vega virðist vera vaxandi vandamál. Fjöldi frétta af alvarlegum afleiðingum utanvegaaksturs bendir til þess, m.a. nýleg frétt Morgunblaðsins um akstur utan vega á hálendinu norðan Vatnajökuls. Það er því rík þörf á að náttúruverndarlögum verði breytt í þá veru að hægt verði að takast á við þessa ógn við íslenska náttúru.

    Hér fer nú aðeins að vandast málið.

    Er akstur utan vega “vaxandi vandamál”? Er fjöldi frétta einhver mælikvarði sem hægt er að byggja á? Er víst að náttúruverndarlög séu ekki nógu skýr? Er þetta ógn við íslenska náttúru?

    Hvaða rannsóknir styðja þessar fullyrðingar?

    Ef við horfum 30 ár aftur í tímann er ljóst að fjöldi jeppa í eigu landsmanna hefur aukist mikið. Á sama tíma held ég að skilningur jeppamanna á góðri umgengni um landið sé betri en var.

    Umferð um hálendið hefur auk þess aukist margfalt með auknum ferðamannafjölda til Íslands.

    Síðan endar Guðmundur á því að tengja þessi mál enn og aftur við umræðu á þingi:

    Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þurfa því að útskýra hvers vegna þeir lögðu svo ríka áherslu á að koma í veg fyrir að einmitt slíkt frumvarp yrði samþykkt á Alþingi.

    Það eru í gildi lög sem banna utanvegaakstur nema á frosinni jörð og snævi þakinni. Þau eru einföld og ætti að vera auðvelt að fygjast með brotum.

    Vegagerðin lokar ákveðnum leiðum á vorin meðan frost er að fara úr vegum. Ef menn álpast inn á slíkar leiðir er sjálfsagt að sekta fyrir það.

    Aðalmálið er að auka fræðslu til ferðamanna um hálendið og bæta þannig umgengni.

    Hin leiðin væri að loka öllu landinu nema fyrir túristum í vernduðu umhverfi. Það er ekki leið sem mér finnst áhugaverð.

    Að lokum er hér rétt að birta fréttatilkynningu frá Ferðaklúbbnum 4×4 vegna fréttar í Morgunblaðinu: