Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Aðgerðalisti Stjórnvalda?

    Posted on May 5th, 2009 Þrándur No comments

    Marínó G. Njálsson hefur verið öflugur talsmaður í Samtökum Heimilanna. Nú brýtur hann niður listann sem stjórnvöld hafa verið að hreykja sér af.  Af 20 liðum sem taldir eru upp er nettó kostnaður ríkisins kannski 100 milljónir. Berum það saman við 200 milljarða sem fóru í að bjarga peningasjóðum bankanna.

    Niðurstaðan er að ekki á að kosta neinu til í byggingu “Skjaldborgar um heimilin”. Fjármagnseigendur eiga fyrir einhverja galdra að halda sínu en saklausum skuldurum ætlað að borga fall bankanna.

    Heldur máttlausar aðgerðir, enn sem komið er.

    Skilaboð Marínó eru skýr:

    • Vaknið af dvalanum og farið að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir heimilin í landinu.
    • Samþykkið án tafar tillögu talsmanns neytenda um gerðardóm.
    • Breytið lögum þannig, að hægt sé að fara í hópmálssókn.
    • Stuðlið að því að hægt sé að leita á skjótvirkan hátt úrlausnar á ágreiningsmálum um lögmæti gengisbundinna lána og forsendubrests verðtryggðra lána.
    • Skapið atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo hægt sé að fjölga störfum í landinu.
    • Skapið heimilunum í landinu eðlileg skilyrði svo þeim hætti að blæða.

    Við þessa upptalningu ætla ég að bæta:

    • Athuga þarf lög og reglur vegna ábyrgðarmanna.
    • Skuldir nái eingöngu til veðsettrar eignar.

    Auðvitað er ekki hægt að ætlast til að öllu þessu verði komið í gagnið strax – en væri gaman að sjá EITTHVAÐ gerast.

  • Gæslumenn Kerfisins?

    Posted on May 4th, 2009 Þrándur No comments

    Það er nú nokkuð skondið að heyra í ýmsum liðsmönnum ríkisstjórnarflokkanna nú rétt eftir að þeir hafa náð kosningu.

    Þar er nú ekki lengur að heyra neina auðmýkt gagnvart þegnum landsins. Þvert á móti er þeim sýndur puttinn.

    Sighvatur Björgvinsson sem Eysteinn Jónsson hefði nefnt “uppgjafar pólitíkus” og Gylfi Magnússon sem er allt í einu búinn að snúast 180° frá fyrri yfirlýsingum eru þar gott dæmi. Jóhanna og Steingrímur fylgja síðan fast eftir.  Þetta fólk virðist vera dottið úr sambandi við þjóðina og orðið að stöðnuðum kerfisköllum. Getur verið að þau hugsi: “Að tala niður til fólks er góð skemmtun?”

    Elías Pétursson skrifar sérstaklega áhugaverða grein sem Egill birtir í Silfrinu. Ég get tekið undir hvert orð.

    Málið er að ef ekki á illa að fara verður að bregðast við með óvenjulegum aðferðum. Ef all stór hópur fólks hættir að greiða verður hér kerfishrun af áður óþekktri stærð. Auðvelt að sjá að ef allir fara af landi brott eða hætta að borga – verða engar skuldir greiddar.

    Krafan um niðurfellingu skulda við þessar aðstæður er bæði réttlát og skynsamleg.

    Sá hópur sem er skuldum vafinn eftir bankahrunið er sá hópur sem á að standa undir velferðarkerfinu. Ef honum er ekki gert það mögulegt – verður ekkert velferðarkerfi. Þá er lítill þörf fyrir lúxus eins og stjórnmálamenn.

    Skilboð dagsins:

    Vaknið! Takið stöðu með fólkinu sem býr í landinu.

  • Niðurfærsla Lána?

    Posted on April 29th, 2009 Þrándur No comments

    Nú hefur talsmaður neytenda stigið fram og sent erindi til Forsætisráðherra vegna íbúðarlána.

    Bréfið byrjar þannig:

    Efni: Tillaga um neyðarlög í þágu neytenda þar sem kveðið verði á um

    • eignarnám íbúðarveðlána til neytenda,
    • niðurfærslu allra íbúðarveðlána til neytenda
    • eftir mati lögbundins, sérstaks gerðardóms.

    Útdráttur
    Talsmaður neytenda bregst hér með við brotum gegn hagsmunum og réttindum neytenda með því að leggja til að

    • öll íbúðarveðlán í landinu í eigu annarra en íbúðarlánasjóðs verði tekin eignarnámi með lögum;
    • kröfuhöfum verði bætt eignarnámið eftir verðmati í samræmi við almennar reglur;
    • kröfur á hendur neytendum verði færðar niður eftir mati lögbundins, sérstaks gerðardóms samkvæmt almennum mælikvarða eða mælikvörðum sem byggi á málefnalegum sjónarmiðum sem lögð eru til í tillögu þessari;
    • í þessu felist bindandi leiðrétting í eitt skipti vegna óvænts og skyndilegs atburðar sem engin skynsamleg rök voru fyrir neytendur að gera ráð fyrir

    Sjá nánar á vef talsmanns neytenda.

    Þetta er mjög í anda þess sem Björn Þorri hefur nefnt áður og líka Hagsmunasamtök heimilanna.

    Nú er bara að sjá hvort stjórnvöld bregðast hratt og vel við.  Þetta er gríðarlega mikilvægt mál – sérstaklega ef við viljum byggja nýja Ísland á réttlæti.

  • Aðildarumsókn

    Posted on April 28th, 2009 Jón H. No comments

    Hvað er eðlilegt framhald í samningaviðræðum Samfylkingar og Vinstri grænna. Vinstri grænir hafa sagt kjósendum sínum að þeir séu hlyntir því að láta þjóðina ráða varðandi samning um aðild að ESB. Þeir hafa gefið í skyn að þeir vilji jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sækja skuli um. Hinn stjórnarflokkurinn hefur sagt að hann vilji aðildarumsókn strax án þess að þjóðin sé spurð um það sérstaklega áður. Rökin: Við megum engan tíma missa og að þeir sem hafa forsjá mála hjá ESB núna séu vinir okkar hjá ESB, finnar og svíar. Staðan virðist því vera sú að semja þarf um hvað hratt er farið í málin og hvort spyrja eigi þjóðina áður en umsókn er formlega send til ESB. Hvernig sem á er horft virðast Vinstri grænir ekki trúverðugir í sínum máflutningi nema þeir samþykki annað hvort áætlun um hvenær sótt er um eða hvenær þjóðin er spurð. Nú virðast varaformenn flokkanna hafa fengið það verkefni í fangið að lenda því hvor leiðin er farin. Vonandi bera þau gæfu til að finna samningsflöt þar sem sett er fram tímasett áætlun um framangreint. Það að segja að niðurstaða kosninganna hafi ekki verið krafa um aðildarumsókn má styðja rökum. Hitt má ekki síður styðja rökum að niðurstaðan hafi verið sú þjóðin hafi treyst þessum tveimur flokkum að ráða málinu til lykta. Hitt er svo staðreynd að Samfylkingin er nú stærsti flokkurinn og setti þetta mál á oddinn. Hún hefur jafnframt aðra kosti til stjórnarmyndunar. Því hníga rök að því að sjónarmið Samfylkingar eigi að ráða miklu um niðurstöðuna. Auðvitað ráða ekki síður hinu brýnu mál endurreisnar efnahagskerfisins en þar hefur Samfylkingin sett umsókn um aðild sem hluta af þeirri heildarlausn. Úrlausn þessa máls hlýtur því að vera brýnt frá öllum hliðum séð, að ekki sé talað um ákall atvinnulífsins um nýjan gjaldmiðil og stöðugleika til framtíðar. Það að skipta um gjaldmiðil er nauðsynlegt og um leið endurreisn á trúverðugleika íslensks efnahagslífs. Vera kann að aðrir möguleikar séu til staðar en sterk undiralda aðilarumsóknar krefst þess að það mál sé leitt til lykta. Nú er tími orða að líða á enda og tími aðgerða að hefjast. Ágætu stjórnmálamenn! Hefjið verkið og segið okkur hvernig að því skuli unnið.

    Reykjavík, 28. apríl 2009

  • Lögsækjum bankana!

    Posted on April 19th, 2009 Þrándur No comments

    Björn Þorri Viktorsson er einn af þeim fáu mönnum sem tala “á íslensku” um ástandið í fjármálum þjóðarinnar. Hann var góður í Silfri Egils í dag og bendir á að það sé mikið vafamál að skuldir einstaklinga séu meðhöndlaðar með  réttum hætti og geti hugsanlega verið um lögbrot að ræða.

    Lögbrot bankanna felast í stöðu þeirra gegn krónunni (og þar með gegn hagsmunum viðskiptavina sinna) og hreinlega hvort erlend lán hafi í raun verið heimil.

    Björn Þorri er að leita að hópi til að sækja málið.

    Hvet þig til að lesa skilmerkilega grein Björns Þorra um stöðu skuldara og undirbúning að lögsókn

    og

    vera með í hópmálssókn gegn bönkunum…

    Hvers vegna tala stjórnmálamenn ekki um þetta?

  • Hvað á að kjósa?

    Posted on April 18th, 2009 Þrándur No comments

    Ég var að prófa að máta saman mínar skoðanir við stefnu flokkanna með því að nota Kosningakompás MBL. – Bráðsniðugt tól. Ekki síst þar sem flokkarnir eru óvenju ósamstilltir við vilja þjóðarinnar um þessar mundir.

    Niðurstaðan var þessi:

    Kosningakompás mbl.is – niðurstaða

    Samsvörun svara þinna við svör flokkanna er sem hér segir:

    Flokkur Samsvörun
    Borgarahreyfingin (O) 84%
    Samfylkingin (S) 76%
    Frjálslyndi flokkurinn (F) 69%
    Framsóknarflokkur (B) 66%
    Vinstrihreyfingin – grænt framboð (V) 64%
    Lýðræðishreyfingin (P) 60%
    Sjálfstæðisflokkur (D) 48%

    Miðað við þetta ætti ég að kjósa Borgarahreyfinguna og það er reyndar margt sem bendir til að ég geri það.

    Hvað ætlar þú að kjósa?

  • Samsæri? – Árásin á tvíburaturnana

    Posted on April 16th, 2009 Þrándur No comments

    911 Loose Change (í fullri lengd)

    Alltaf áhugavert að skoða samsæriskenningar og hér er ein stór. Mér finnst rétt að menn geri upp hug sinn um þessa hluti.

    Getur verið að atburðirnir hafi verið ein stór leiksýning?

    Það sem mér finnst skrítið er að hrunið á turnunum tekur jafn langan tíma og ef þeir hafi fallið í frjálsu falli. Ekki síður að þriðja byggingin féll líka þrátt fyrir að engin flugvél hafi flogið á hana.

    Í myndinni eru talin upp fjölmörg önnur atriði sem vekja grunsemdir um að ekki séu öll kurl komin til grafar.

    Hér er líka myndband um danskan vísindamann sem telur að notað hafi verið sprengiefni.

    Hvað finnst þér?

  • Skjaldborg eða Spilaborg?

    Posted on April 15th, 2009 Þrándur No comments

    Hagsmunasamtök Heimilanna benda á máttlausar aðgerðir ríksisstjórnarinnar:

    “Það glittir bara í löngutöng”

    -Brauðmolum kastað til lýðsins

    • Samkomulag án aðkomu lántakenda er marklaust
    • Krafa um sanngjarna skiptingu byrða
    • Vörn fyrir öll sparnaðarform, ekki bara sum
    • Mesta eignaupptaka Íslandssögunnar í sjónmáli
    • Lýst eftir betri lánakjörum ekki lengingu á því sama
    • Bankakerfið fellur, ef gjaldþrotaleiðin verður farin

    Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeirri ákvörðun stjórnvalda og fjármálafyrirtækja að sniðganga með öllu sanngjarnar og hóflegar tillögur samtakanna um leiðréttingu gengis- og verðtryggðra fasteignalána. Að sama skapi mótmæla samtökin þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum sem liggja til grundvallar samkomulagi stjórnvalda og fjármálafyrirtækja.

    Það er ljóst að þeir sem eiga að bera ALLT tapið af hruni bankanna eru skuldarar – ekki síst heimilin sem átti að reisa “skjaldborg” um.

    Ég held að margir séu orðnir langeygðir eftir þessari skjaldborg. Raunar líkist það sem komið er frekar SPILABORG, þar sem allar varnir geta fallið á augabragði ef einhver hreyfir sig óvarlega.

    Er það ekki skrítið af hverju sjóðsreikningarnir voru greiddir út umyrðalaust og án þess að nokkur innistæða virtist vera fyrir hendi? Þegar kemur að því að rétta hlut skuldara verður fátt um aðgerðir aðrar en að lengja í henginarólum.

    Hér þarf massívar aðgerðir ef ekki á að verða stórkostlegt hrun þegar traustustu greiðendur skatta og lána flýja land í stórum stíl. Ef þetta fólk fer, hver ætlar þá að borga fyrir velferðina? Og ég tala nú ekki um risaskuldir þjóðarinnar?

    Er ekki nóg af ónotuðu húsnæði?

    Viljum við landauðn?

    Til hvers var búsáhaldabyltingin?

  • Alheimsstríð lánardrottna

    Posted on April 2nd, 2009 Þrándur No comments

    Dr. Michael Hudson skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið.  Þar bendir hann á að nú er í gangi alvarlegt efnahagslegt “stríð” þar sem lánardrottnar eru að soga allar eignir til sín með gríðarháum vöxtum. 

    Með því að heimta okurvexti af skuldsettum fyrirtækjum, heimilum og ríkjum eru þessir aðilar settir í skuldafjötra.

    Hann segir t.d. blákalt:

    Bandaríkin eru skuldugasta þjóð heims og mun aldrei greiða erlendar skuldir sínar.”

    Það sérstaklega íhugunarvert að lesa hvernig hann líkir ástandinu við stríð. Fjárhagslegi hernaðurinn er bara ekki eins sýnilegur. Afleiðingarnar geta hins vegar orðið afar alvarlegar:

    • Styttri meðalaldur
    • Færri fæðingar
    • Vinnuafl flýr úr  landi
    • Hækkuð sjálfsmorðstíðni
    • Sjúkdómar og fleira

    Verst er að þeir sem fara úr landi eru oft fólk á verðmætasta aldrinum 25-40 ára.

    Eftir stendur spurningin til íslenskra stjórnmálamanna (og kollega þeirra í öðrum löndum):

    Munu stjórnvöld standa vörð um hag íslenskra heimila eða hneppa þjóðina í skuldafangelsi?

  • Stóru málin…

    Posted on March 30th, 2009 Þrándur No comments

    Andri Geir Arinbjarnarson var í Silfri Egils um daginn og átti ágætis innlegg.

    Á blogginu sínu telur hann upp öll stóru málin:

    • Allir bankar fallnir og viðreisn bankakerfisins óviss
    • Ónýtur gjaldmiðill sem krefst hárra vaxta og hafta til að skrimta á innlendri grund
    • 75%  fyrirtækja á leið í gjaldþrot eða greiðslustöðvun
    • 20% heimila í neikvæðri eignastöðu og gríðarlegir greiðsluerfiðleikar hjá enn fleirum
    • Sívaxandi atvinnuleysi
    • Skuldafen Íslands eitt það versta á byggðu bóli
    • Tekjustofnar ríkisins hafa hrunið og velferðarkerfið í uppnámi
    • Enginn aðgangur að erlendu fjármagni nema með aðkomu AGS
    • Icesave og erlendar kröfur ófrágengnar
    • Stjórnmálamenn ringlaðir og flokkarnir flestir stefnulitlir
    • Þjóðin reið, óttasleginn, tortryggin og bitur

    …og bendir á að við eigum bara tvo kosti í stöðunni. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Krónuna EÐA Evrópusambandið og Evruna.

    Mjög sammála þessu hjá honum. Á sama tíma er alveg ótrúlegt hvað stjórnmálamennirnir virðast vera hræddir við að tala um þessi stóru mál sem blasa við. Virðist sem þeir séu hræddir við að tala um hlutina eins og þeir eru.

    Nú þyrfti Íslenska þjóðin einhverja virkilega framsýna menn við stjórnvölinn. Atvinnuþrasarar og fyrirgreiðslupólitíkusar mættu fara í smá frí. Því miður virðast ekki vera neitt stórkostlegar breytingar í mannvali stjórnmálaflokkanna – ekki frekar en á undanförnum árum.