-
48 dagar í strandveiðum
Posted on February 25th, 2023 No commentsAð fara aftur í úrelt kerfi er skelfileg tilhugsun. Frjálsar handfæraveiðar er krafan sem Landssamband Smábátaeigenda hefur haft frá stofnun þess sambands. Þangað til það næst ætti að miða við að allir bátar fái 48 daga. Þeir megi byrja 1. apríl og veiða út september. Allt landið verði eitt svæði og byggðakvótinn komi inn í strandveiðikerfið.
Munum að lögin um strandveiðar voru sett í framhaldi af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Allir íslendingar eigi rétt á að veiða úr auðlind þjóðarinnar uppfylli þeir ákveðin skilyrði. Lögin virðast gerð þannig að stjórnvöld þurfi sem minnst að hrófla við þessu yndislega kvótakerfi sem komið var á að tilstuðlan stórútgerðarinnar. Takmörkin við 48 heildarfjölda veiðidaga og hámark 12 daga innan mánaðar ættu að nægja sem öflug sóknarstýring.
Strandveiðar með handfærum eru umhverfisvænasta veiðiaðferðin. Menn sigla út á miðin og drepa á vélinni meðan rafgeymarnir knýja færavindurnar.
Sanngjarnt væri að úthluta dagafjölda á báta sem veiða má innan ákveðins tímabils og láta dagafjöldann standa svo strandveiðimenn geti hagað sínum veiðum á skynsamlegan og arðbæran hátt án þess að hafa áhyggjur af því að veiðarnar verði stöðvaðar. Sjósókn væri sjálfkrafa stýrð eftir fiskgengd og veður.
Ég er algjörlega mótfallin svæðaskiptingu strandveiða. Það leiðir til kapphlaups við að ná fiski í hvaða veðri sem er og þar af leiðandi stefnir það mönnum í háska, smærri og verri fisk og lélegra aflaverðmæti.
Eina vitið er að festa 48 daga á bát, það mun engin áhrif hafa á fiskistofna.
Ég held ég geti fullyrt að allir strandveiðisjómenn vilja lögfestingu á 48 dögum það er ekki mikið til ætlast fyrir umhverfisvænustu veiðarnar.
Lausnin felst í því að 48 daga kerfi verði komið á, á hvern bát og veiðitíminn sé frá 1 apríl til 30. september. Opinn pottur, opin svæði.
Það myndi gera það að verkum að menn vissu að hverju þeir gengju og höguðu sínum strandveiðum eftir veðri og fiskgengd.
Leave a reply