Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Umsögn um Sjávarútvegsstefnu

    Posted on January 10th, 2024 Þrándur No comments

    Getur verið að Þorsteinn Már og Steingrímur J. hafi skrifað þetta frumvarp með hagsmuni Samherja og stórútgerðarinnar að leiðarljósi?

    Það er eins og kvótakerfið sjálft sé eitthvað náttúrulögmál sem alls ekki má hrófla við. Það þrátt fyrir að hafa skilað minna en engum árangri öll þessi ár. 

    Sorglegt að ráðherra sem kemur úr flokki sem segist í orði vilja bæta hag lítilmagnans skuli styðja við áframhaldandi sjálftöku stórútgerðarinnar.

    Ég hef nú verið að kynnast sjávarútvegi síðustu tvö sumur sem skipstjóri á strandveiðibát. Veiðar með handfærum eru þær umhverfisvænustu sem hægt er að hugsa sér og skila verðmætasta aflanum. Enginn er með fleiri en 16 öngla niðri í sjónum á hverjum tíma. Siglt út á miðin og drepið á vélinni meðan rafgeymarnir knýja færavindurnar.

    Til þess að útgerð strandveiðibáta geti staðið undir sér verður að tryggja að lágmarki veiðar í 48 daga á ári. Þær veiðar eiga að vera utan alls kvótakerfis, enda sett lög um þær eftir úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu.

    Frjálsar handfæraveiðar er krafan. Þangað til það næst ætti að miða við að allir bátar fái 48 daga. Þeir megi byrja 1. apríl og veiða út september. Allt landið verði eitt svæði og byggðakvótinn komi inn í strandveiðikerfið.

    Allir íslendingar eigi rétt á að veiða úr auðlind þjóðarinnar uppfylli þeir ákveðin skilyrði. Takmörkin við 48 heildarfjölda veiðidaga og hámark 12 daga innan mánaðar ættu að nægja sem öflug sóknarstýring.

    Sanngjarnt væri að úthluta dagafjölda á báta sem veiða má innan ákveðins tímabils og láta dagafjöldann standa svo strandveiðimenn geti hagað sínum veiðum á skynsamlegan og arðbæran hátt án þess að hafa áhyggjur af því að veiðarnar verði stöðvaðar. Sjósókn væri sjálfkrafa stýrð eftir fiskgengd og veðri.

    Ég er algjörlega mótfallin svæðaskiptingu strandveiða. Það leiðir til kapphlaups við að ná fiski í hvaða veðri sem er og þar af leiðandi stefnir það mönnum í háska, smærri og verri fisk og lélegra aflaverðmæti.

    Eina vitið er að festa 48 daga á bát, það mun engin áhrif hafa á fiskistofna.

    Ég held ég geti fullyrt að allir strandveiðisjómenn vilja lögfestingu á 48 dögum það er ekki mikið til ætlast fyrir umhverfisvænustu veiðarnar.

    Lausnin felst í því að 48 daga kerfi verði komið á, á hvern bát og veiðitíminn sé frá 1 apríl til 30. september. Opinn pottur, opin svæði.

    Það myndi gera það að verkum að menn vissu að hverju þeir gengju og höguðu sínum strandveiðum eftir veðri og fiskgengd.

    https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3617

     

    Leave a reply