-
Þjóðfundur dýr?
Posted on November 9th, 2010 No commentsNú er Þjóðfundur um stjórnarskrá lokið og kannski fátt sem kom á óvart í sjálfu sér. Almennt held ég þó að flestir geti verið sammála niðurstöðunni og að hún sé gott innlegg í stjórnlagaþingið sjálft.
Örfáir hafa tekið sig til og fundið að kostnaði við þjóðfundinn. Um 90 milljónir kostaði að halda fundinn sem gerir um 90 þúsund á hvern fundarmann. Sjálfsagt hefði mátt reyna eitthvað að draga úr kostnaði, t.d. er spurning hvort fundarmenn hafi átt að fá borgað fyrir. Á móti má spá í hvort það hefði dregið úr þátttökuvilja.
Ég held að auðveldara sé að spara á mörgum öðrum stöðum. Hvað hefur t.d. farið mikill tími Alþingismanna í misheppnaðar tilraunir til að endurskoða stjórnarskránna? Hvað þarf að fækka þingmönnum mikið til að halda einn svona þjóðfund á ári?
Niðurstöðurnar:
LAND OG ÞJÓÐ – Gildi og gildistengd atriði sem lúta að sjálfstæði ríkisins, menningu og landshögum, svo sem framsýni, gildi íslenskrar tungu og landsbyggðar.Stjórnarskráin er sáttmáli sem tryggir fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og er skrifuð fyrir fólkið í landinu. Stjórnarskráin á að standa vörð um íslenska tungu, menningu og auðlindir þjóðarinnar. Hún verði kynnt í skólum og almenningi tryggð áhrif á ákvarðanir í þjóðmálum. Efla skal ímynd Íslands, stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga.SIÐGÆÐI – Almenn siðferðileg gildi án sérstakra tengsla við stjórnskipun eða stjórnmál, svo sem heiðarleiki, virðing, ábyrgð, umburðarlyndi, sanngirni og samkennd.Stjórnarskráin skal byggja á siðferðisgildum. Siðgæðisþema nýrrar stjórnarskrár skal vera mannvirðing, tjáningarfrelsi og tillitssemi. Lögð sé áhersla á heiðarleika kjörinna fulltrúa, embættismanna, lög og siðareglur. Til að efla og bæta siðgæði þjóðarinnar þarf að kenna siðfræði í skólum landsins og auka samfélagslega ábyrgð almennings. Á Íslandi skal valdhöfum settur skýr rammi þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins eru höfð að leiðarljósi.MANNRÉTTINDI – Gildi sem liggja til grundvallar eða tengjast viðteknum mannréttindum, svo sem jafnrétti og jafnræði, tjáningarfrelsi, menntun, trúfrelsi og eignaréttur.Allir skulu njóta mannréttinda samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur lofað að virða, svo sem tjáningarfrelsis, friðhelgi einkalífs, trúfrelsis og eignarréttar. Tryggja skal jafnræði fyrir lögum óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, búsetu og kynhneigð. Allir skulu njóta jafns réttar til náms, heilbrigðisþjónustu og lágmarksframfærslu. Vægi atkvæða verði jafnt.RÉTTLÆTI, VELFERÐ OG JÖFNUÐUR – Gildi og gildistengd atriði sem lúta almennt að réttlæti, velferð og jöfnuði, t.d. með tilliti til menntunar, heilbrigði og framfærslu.Tryggja skal öllum landsmönnum mannsæmandi lífskjör óháð kyni, kynþætti, aldri, búsetu, vinnu, þjóðerni, trúarskoðun, efnahag, fötlun, kynhneigð eða skoðunum. Allir skulu hafa jafnan rétt til framfærslu, menntunar, heilbrigðisþjónstu og félagsþjónustu. Lífeyrisréttindi skulu öllum tryggð. Vægi atkvæða skal vera jafnt og refsilög skýr.NÁTTÚRA ÍSLANDS, VERND OG NÝTING – Gildi og gildistengd sem lúta að umhverfi, þ.á.m. auðlindum, svo sem sjálfbærni, umhverfisvernd og þjóðareign.Náttúra og auðlindir landsins eru óframseljanleg þjóðareign sem ber að vernda, umgangast og nýta á sjálfbæran hátt þannig að aðgengi almennings sé tryggt. Setja þarf skýr lög um eigna- og nýtingarétt þjóðarinnar á auðlindum, náttúru og lífríki. Náttúru Íslands og auðlindir ber að vernda fyrir komandi kynslóðir.LÝÐRÆÐI – Hvers kyns gildi og gildistengd atriði sem lúta beint að þátttöku þjóðarinnar í stjórn ríkisins, svo sem þjóðaratkvæði og kosningaréttur. Einnig gildi tengd forsendum lýðræðis, t.d. miðlun upplýsinga.Á Íslandi skal vera virkt og gagnsætt lýðræði. Vægi atkvæða verði jafnt í einu kjördæmi, kosningar með persónukjöri, þingseta þingmanna háð tímatakmörkunum og þeim fækkað. Lýðræðið byggi á þrískiptingu valds og skýrum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni. Skipan dómara skal endurskoðuð. Kjósendur með jafnan atkvæðisrétt geti einir breytt stjórnarskrá.VALDDREIFING, ÁBYRGÐ OG GAGNSÆI – Gildi og gildistengd atriði sem lúta almennt að uppbyggingu ríkisins og meðferð ríkisvalds, svo sem dreifing valdsins, gegnsæi og stöðugleiki. Einnig gildi (og gildistengd atriði) sem lúta að störfum einstakra stofnana og handhafa ríkisvalds og ábyrgð þeirra.Tryggja þarf þrígreiningu valds þar sem hlutverk og ábyrgð ráðamanna séu skýr. Ráðherrar skulu ekki gegna þingmennsku ásamt ráðherraembætti. Stjórnarskráin ætti að tryggja gagnsæi og eftirlit með stjórnsýslu. Fagmennska ráði för við ráðningar í störf í stjórnsýslunni. Endurskoða þarf vald forseta Íslands og taka afstöðu til neitunarvalds hans. Takmarka ætti þann tíma sem alþingismenn mega sitja á þingi. Tryggja þarf sjálfstæði dómstóla.FRIÐUR OG ALÞJÓÐASAMVINNA – Gildi og gildistengd atriði sem lúta að stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, svo sem öryggi, friður og hlutleysi.Ísland sé sjálfstætt og fullvalda ríki sem leggi áherslu á samvinnu við aðrar þjóðir, sérstaklega á norðurslóðum. Ísland sé málsvari friðar og taki þátt í alþjóðasamstarfi í þeim tilgangi. Öryggi landsins skal tryggt. Ísland taki virkan þátt í samstarfi um náttúruvernd, sjálfbæra nýtingu auðlinda, vernd mannréttinda og þróunar- og hjálparstarfi. Ísland sé herlaust og kjarnorkuvopnalaust. -
Þjóðfundur?
Posted on October 25th, 2009 No commentsÞað er í mínum huga alveg nauðsynlegt að koma stjórnmálamönnum og flokkum frá um stundarsakir þegar við sem þjóð myndum okkur sýn á framtíðina. Það var því mjög gleðilegt að frétta af því að hópur sem virðist vera óháður bæði flokkum og stórfyrirtækjum ætlar að halda stóran vinnufund þar sem breið flóra landsmanna leggur til hugmyndir til framtíðarstefnu landsins.
Þjóðfundur Þjóðfundurinn gefur færi á að lyfta umræðunni upp úr einstökum viðfangsefnum, horfa lengra fram og hlusta á visku þjóðarinnar. Sú aðferð að leiða saman stóran hóp til stefnumörkunar er vel þekkt, en aldrei áður hefur verið prófað að kalla saman tölfræðilega marktækt úrtak heillar þjóðar í því skyni að efna til samtals í heilan dag. Gildi fundarins felst í því að hlusta á þjóðina – þ.e. marktækt úrtak hennar.
Aðferðinni er líkt við mauraþúfu þar sem samlegðin er stærri en einstaklingar innan heildarinnar:
Undirbúningshópur Þjóðfundar er samsettur af einstaklingum sem hafa ólíkan bakgrunn en eiga það allir sameiginlegt að hafa með einum eða öðrum hætti framkvæmt og talað fyrir skipulagðri sameiginlegri umræðu og hugmyndavinnu meðal þjóðarinnar til þess að finna bestu leiðina til framfara við nýjar aðstæður. Hópurinn hefur kallað sig Mauraþúfuna með vísan til þess sem á ensku hefur verið kallað „Collective Intelligence“.
Nánar um nafnið Mauraþúfan
Á síðari árum hefur orðið æ ljósara að stórir hópar búa yfir innsæi og viti sem einstaklingarnir innan hópanna eru sér ekki meðvitaðir um. Þekkt dæmi af þessu fyrirbrigði í náttúrunni er mauraþúfa. Mauraþúfa er samyrkjubú margra miljóna maura sem hver og einn hefur ákaflega takmarkað vit og stjórnast eingöngu af eðlishvötum. Ef ytri ógn stafar að mauraþúfunni, ef til að mynda nálæg á er í vexti og grefur úr árbakkanum og nálgast mauraþúfuna bregst mauraþúfan við og færir sig lengra frá ánni. Enginn maur tekur þessa ákvörðun – mauraþúfa sem heild hefur vit sem engum mauranna er gefið og enginn mauranna veit af. Staðfestingar hafa fengist fyrir því að þannig sé þetta líka í mannheimum.
Hópurinn hefur starfað í sumar og hist reglulega til þess að stilla saman hugmyndir og móta aðdraganda, skipulag og eftirfylgni Þjóðfundar. Hópurinn hefur lagt fram þessa vinnu endurgjaldslaust og mun gera það áfram. Einstaklingar innan hópsins hafa víðtæk alþjóðleg tengsl við sérfræðinga með reynslu á þessu sviði sem hafa boðið fram aðstoð sína við undirbúning fundarins fram að þessu endurgjaldslaust. Allir þeir sem komið hafa að málinu eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga og trú á verkefninu og þeim áhrifum sem það getur haft þjóðinni til heilla.
Hægt er að hafa samband við Mauraþúfuna í síma 773.7399 eða á maurathufan@gmail.com. Grandagarði 2, 101 Reykjavík.
Eftirfarandi hafa verið þátttakendur í Mauraþúfunni:
Bjarni Snæbjörn Jónsson (framkvæmdaráði)Björk Guðmundsdóttir
Guðjón Már Guðjónsson (framkvæmdaráði)
Gunnar Jónatansson
Halla Tómasdóttir
Haukur Ingi Jónasson
Lárus Ýmir Óskarsson (framkvæmdaráði)
María Ellingsen
Svandís Svavarsdóttir
Þorgils Völundarson
Síðustu misserin hafa ótal margir bæst við skipulagshópinn til þess að hjálpa með ólík viðfangsefni.
Vonandi nær þessi aðferðafræði að skila okkur Nýju Íslandi…
Nánar: