Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Réttlætið það sigraði að lokum…

    Posted on June 23rd, 2010 Þrándur No comments

    …og (bankinn) almenningur endurheimti féð!

    Það er alveg ótrúlegt að bankarnir þurfi nú allt í einu aðstoð við að lesa samningana sem þeir gerðu um gengistryggð lán.

    Samkvæmt dómi Hæstaréttar er það alveg kýrskýrt og alls engin réttaróvissa.

    Svo vitnað sé í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

    Réttlætið sigrar

    Engin réttaróvissa

    GENGISTRYGGING allra lána allra lánafyrirtækja er ÓGILD.
    Lánasamningur stendur að öðru leyti; upphaflegir vaxtaskilmálar og upphaflegur höfuðstóll í íslenskum krónum, að frádregnum greiðslum.

    Lánafyrirtæki endurreikni “áður” gengistryggð lán, án gengistryggingar og með upphaflegum vaxtakjörum og stöðvi á meðan frekari greiðslur frá lántökum eða takmarki þær við upphaflega greiðsluáætlun.

    Lánafyrirtæki endurreikni allar greiðslur afborgana, vaxta og kostnaðar og endurgreiði ofgreiðslur með vöxtum samkvæmt vaxtaviðmiði Seðlabankans (lög nr. 38/2001, 18. grein).

    Lántaki sem vill fresta frekari greiðslum eða takmarka þær við upphaflega greiðsluáætlun, tilkynni lánafyrirtæki það skriflega.

    Lántakar eru hvattir til að kanna rétt sinn til skaðabóta vegna; ofgreiðslna, innheimtuaðgerða, eignamissis eða annars tjóns vegna ólögmætrar gengistryggingar lána.

    Stjórnvöld tryggi, með fyrirmælum ef þarf, að öll lánafyrirtæki endurreikni undanbragðalaust “áður” gengistryggð lán, án gengistryggingar og með upphaflegum vaxtakjörum.

    Samtökin vilja áframhaldandi samvinnu við stjórnvöld um lausnir á skuldavanda heimilanna, og mótunar nýs lánakerfis, til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

    Taktu þátt í að verja hagsmuni heimilanna og móta lánakerfi til framtíðar með því að skrá þig í Hagsmunasamtök heimilanna á heimilin.is

    Höfum það líka í huga að engin heimild er til að breyta samningum eftirá eins og suma virðist dreyma um, hvað þá að eitthvað sé krukkað í dóma Hæstarétts.

    Vonandi verður þetta mál allt síðan til að varpa ljósi á það arfavitlausa kerfi sem verðtryggingin hefur orðið að.

    Verðtryggingin hefur virkað sem bæði belti og axlabönd fyrir vanhæft bankakerfi. Og við munum líka að það var almenningur sem þurfti samt að hysja upp um bankana buxurnar!

    Það er lífsspursmál fyrir þjóðina að verðtrygging verði lögð af NÚNA!

  • Lausn fyrir heimilin?

    Posted on May 19th, 2009 Þrándur No comments

    Opinn kynningarfundur um tillögu talsmanns neytenda

    Minnum á fundinn þriðjudagskvöldið 19. maí 2009 kl. 20.00 í Borgartúni 3.
    Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, mætir á fundinn og kynnir tillöguna og svarar fyrirspurnum fundarmanna.

    Eftirfarandi má lesa á heimasíðu embættis talsmanns neytenda um málið:

    Talsmaður neytenda hefur sent forsætisráðherra tillögu með ítarlegum rökstuðningi fyrir því að taka beri öll neytendalán með veði í íbúðarhúsnæði eignarnámi og fela gerðardómi að leggja til niðurfærslu þeirra.

    Lagt hefur verið til við forsætisráðherra að sett verði neyðarlög í þágu neytenda þar sem kveðið verði á um

    • eignarnám íbúðarveðlána til neytenda,
    • niðurfærslu allra íbúðarveðlána til neytenda
    • eftir mati lögbundins, sérstaks gerðardóms.

    Lagt er til að tiltekin samtök neytenda tilnefni tvo fulltrúa í gerðardóminn og þrír aðilar úr hópi kröfuhafa tilnefni aðra tvo fulltrúa í gerðardóminn en Hæstiréttur skipi formann sem skuli vera lögfræðingur.

    Alger forsendubrestur aðalröksemdin

    Meginrökin eru forsendubrestur og eru tilteknir útreikningar um að neytendur hafi ekki mátt gera ráð fyrir því gengishruni sem varð enda aðeins 0,7% líkur á að gengi Bandaríkjadals yrði lægra en 122 ISK/USD. Sömuleiðis hafi aðeins verið um 2,1% líkur á því að gengisvísitalan tæki gildi yfir 171.

    Þá er tiltekinn í tillögunni fjöldi annarra lagasjónarmiða og röksemda af sviði neytendaréttar, auðgunarsjónarmiða, skaðabótareglna, réttarfarsreglna og stjórnskipulegra röksemda auk staðreynda og sanngirnissjónarmiða.


    Hagsmunasamtök heimilanna
    www.heimilin.is
    Framlög til HH af frjálsum vilja
    (o: 1110-26-5202, kt. 520209-2120 :o)

  • Lánaleiðrétting? – Hagsmunasamtök heimilanna

    Posted on May 15th, 2009 Þrándur No comments

    Þriðjudaginn 19. maí kl. 20. Borgartúni 3

    Gísli Tryggvason talsmaður neytenda hefur lagt fram ítarlega tillögu um
    leiðréttingu á húsnæðislánum landsmanna. Hún felur í sér skipun gerðardóms
    sem meta skuli áhrif forsendubrests og fjölda málsástæðna á hækkanir
    húsnæðislána og finna mælikvarða til leiðréttingar hinna ýmsu flokka lána.
    Hann hefur kynnt þessa tillögu fyrir stjórnvöldum og ýmsum aðilum. Nú kemur
    hann á fund með okkur, kynnir tillöguna og svarar spurningum.
    Félagar eru hvattir til að fjölmenna. Fundurinn er öllum opinn og er
    aðgangur ókeypis.

    Hagsmunasamtök heimilanna
    www.heimilin.is
    Framlög til HH af frjálsum vilja
    (o: 1110-26-5202, kt. 520209-2120 :o)