-
Ekki Flokka Sorpið!
Posted on July 9th, 2009 No commentsÞað er ótrúlegt hversu jákvætt fólk getur verið að auka við vinnuframlag sitt fyrir ríkið. Við sjáum þetta til dæmis skýrt varðandi flokkun á rusli. Okkur er talin trú um að flokkun sé afskaplega umhverfisvæn, spari þjóðfélaginu ómældar upphæðir og sé atvinnuskapandi.
Ef betur er að gáð orkar þetta nú mikið tvímælis, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Ef það kostar meira að farga rusli með flokkun á einfaldlega að hætta því!
Hér þurfa að liggja fyrir nákvæmar tölur um hagkvæmni.
Við vitum að álumbúðir eins og áldósir er hagkvæmt að safna saman og selja til endurbræðslu. Við sem neytendur fáum líka borgað fyrir að skila slíkum umbúðum inn.
Ef við tökum aftur á móti t.d. sérflokkun mjólkurumbúða lítur dæmið allt öðru vísi út. Við þurfum að skola umbúðirnar úr vatni, við þurfum að hafa sérstakar söfnunarumbúðir sem taka pláss. Við þurfum síðan að aka með umbúðirnar (nota bensín) á næstu mótttökustöð (sem þarf líka sitt pláss og gám. Gáminn þarf síðan að flytja eitthvert til að hægt sé að endurvinna umbúðirnar (sem reyndar er örugglega ekki nokkur leið þar sem þær eru blanda af pappír og plasti).
Það þarf allavega að sannfæra mig með sterkum rökum að svona þegnskylduvinna þjóni raunverulega einhverjum tilgangi (öðrum en að halda fólki uppteknu).