-
Stjórnvöld geri sér ekki of miklar vonir…
Posted on September 21st, 2009 No commentsÞað er oft gott að horfa á málin frá “hinni” hliðinni. Það var t.d. frábært að heyra það sagt að “heimilin hafa ekki efni á að aðstoða bankana eftir hrunið” í stað ruglsins um að ekki séu til peningar til að hjálpa almenningi.
Þegar ráðherra í ríkisstjórn biður almenning að “gera sér ekki of miklar vonir” er vissulega nokkur sannleikur í því. Held að það séu einmitt fáir sem “gera sér miklar vonir”.
En stjórnvöld (fjórflokkurinn) á heldur ekki að “gera sér miklar vonir”. Von þeirra virðist vera sú að almenningur sitji þegjandi undir því sem þau ákveði á lokuðum fundum með útvöldum (og innmúruðum?) ráðgjöfum og án samráðs um breiða sátt við heimilin í landinu.
Reyndar virðist smátt og smátt vera að rofa til í hausnum á stjórnvöldum og fulltrúar skuldara (Hagsmunasamtaka Heimilanna) jafnt sem kröfuhafa fengnir að borði.
Það er vel.
Nú er bráðum ár liðið frá hruninu mikla og enn ríkir gríðarleg óvissa. Hér þarf að hafa hraðar hendur og skapa viðunandi lífskjör í landinu. Koma í veg fyrir frekari eignaupptöku og snúa vörn í sókn.
Þær aðgerðir sem þarf að vinda sér í:
- Leysa skuldavanda heimilanna með ALMENNUM aðgerðum.
- Breyta lögum um veðsettar skuldir, þ.a. þær nái eingöngu til veðsettu eignarinnar.
- Hreinsa upp og ákæra EINSTAKLINGA sem báru ábyrgð á hruninu.
- Leita ráða hjá breiðri fylkingu sérfræðinga um endurreisn og endurnýjaða framtíðarsýn.
- Og umfram allt að tala við þjóðina (en ekki til hennar).
Sjálfsagt mætti hafa mörg orð um hvern þessara liða, en ég læt þetta duga í bili.
Það er því á þessum tímapunkti afar mikilvægt að VEKJA vonir hjá fólki um bjarta framtíð. Það er verkefni stjórnvalda.