Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Nýtt Leiðakerfi Strætó?

    Posted on May 26th, 2010 Þrándur No comments

    Ég tók strætó um daginn frá Breiðholti niður í Kringluna.

    Ferðin tók 40 mínútur!

    Ef ég hefði labbað alla leið hefði það tekið svipaðan tíma og ef ég hefði hjólað hefði það tekið 15-20 mínútur.

    Skýringin hlýtur að liggja í skipulaginu – sjálfu leiðakerfinu. Hugsunin í kerfinu virðist ekkert hafa breyst þrátt fyrir að borgin hafi þanist út með ógnar hraða. Ef við viljum að fólk noti strætó frekar en bílinn þarf einfaldlega að hugsa leiðakerfið upp á nýtt.

    Ég hef því sett upp grunnhugmynd að nýju stofnleiðakerfi þar sem notast er við beinar og greiðfærar leiðir sem liggja frá úthverfum og inn í miðborgina. Kerfið er sett upp þannig að flestir eiga að geta labbað á innan við 10 mínútum að næstu stöð.

    Strætóleiðir

    Svona gætu leiðirnar verið:

    • Rauð lína – Hafnarfjöður – Reykjavík
    • Græn lína – Álftanes – Seltjarnarnes
    • Gul lína – Hringur (vinstri og hægri) – Breiðholt – Rauðavatn – Árbær – Miðbær
    • Fjólublá lína – Grafarvogur – Skerjafjörður
    • Ljósblá lína – Úlfarsfell – Laugavegur

    Auðvitað þarf síðan að auki að vera með hverfastrætó fyrir þá sem eiga erfitt með gang eða til að komast um innan hverfis t.d. fyrir tómstundir barna o.s.frv.

    Fróðlegt að heyra skoðanir á þessari hugmynd…

     

    4 responses to “Nýtt Leiðakerfi Strætó?”

    1. Ferðin með leið 3 frá Gerðubergi að Kringlu tekur 21 mínútu. Það er hægt að vera 13 mínútur á virkum degi með því að taka t.d. leið 17 í Gerðubergi og skipta svo yfir í leið 3 í Mjódd.
      Hvernig varstu 40 mínútur á leiðinni ?
      Þessar línur þínar eru allrar athygli verðar.
      Ég veit um einn áhugamann sem sisona smíðaði heilt leiðakerfi : http://frontpage.simnet.is/romanza/greinar/umhverfi/streetcar/streetcar.htm

    2. Takk fyrir að benda á þessa áhugaverðu og vel unnu tillögu, Pétur. Stjórnmálamenn í Reykjavík hafa greinilega verið í einhverju rugli að hlusta ekki á svona skynsamlegt innlegg.

      Ég tók vagn 4 hjá Gerðubergi sem fór reyndar fyrst að Fellaskóla og beið þar “stundarkorn”. Síðan fór hann til baka og gegnum allt Hólahverfið og síðan í Mjódd og svo þvælst um Kópavog og stoppað aftur “stundarkorn” í Hamraborg áður en silast var yfir í Kringlu.

      Ég hafði áður kíkt á vef Strætó og séð tvo möguleika á ferðum. Báðir tóku yfir 30 mínútur.

      Nákvæmlega NÚNA (9:38) er hægt að velja um tvær tillögur. Önnur með 17 og 4 sem tekur 23 mínútur og hin með leið 4 sem tekur 26 mínútur.

    3. Hann virðist vera svolítið gloppóttur þessi “Finna leiðir”-hnappur á netinu fyrst leið 3 er ekki inni í myndinni. Leið 17 tekin klukkan 9:44 og svo leið 3 í Mjódd klukkan 9:51. Þá er komið að göngubrúnni við Kringluna klukkan 9:57. Þrettán mínútur !

    4. Já Pétur, það er spurning hvernig þessi galdrahnappur virkar. Núna eru tveir möguleikar í boði: 4 sem tekur 26 mínútur og 3 sem tekur 30 mínútur! Báðir leggja af stað eftir rúman hálftíma…

      Greinilega hægt að gerast sérfræðingur í núverandi leiðakerfi og koma með betri tillögur en fíni vefurinn þeirra 🙂

    Leave a reply