Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Þjóðfundur?

    Posted on October 25th, 2009 Þrándur No comments

    Það er í mínum huga alveg nauðsynlegt að koma stjórnmálamönnum og flokkum frá um stundarsakir þegar við sem þjóð myndum okkur sýn á framtíðina. Það var því mjög gleðilegt að frétta af því að hópur sem virðist vera óháður bæði flokkum og stórfyrirtækjum ætlar að halda stóran vinnufund þar sem breið flóra landsmanna leggur til hugmyndir til framtíðarstefnu landsins.

    Þjóðfundur

    Þjóðfundur Þjóðfundurinn gefur færi á að lyfta umræðunni upp úr einstökum viðfangsefnum, horfa lengra fram og hlusta á visku þjóðarinnar. Sú aðferð að leiða saman stóran hóp til stefnumörkunar er vel þekkt, en aldrei áður hefur verið prófað að kalla saman tölfræðilega marktækt úrtak heillar þjóðar í því skyni að efna til samtals í heilan dag. Gildi fundarins felst í því að hlusta á þjóðina – þ.e. marktækt úrtak hennar.

    Aðferðinni er líkt við mauraþúfu þar sem samlegðin er stærri en einstaklingar innan heildarinnar:

    Undirbúningshópur Þjóðfundar er samsettur af einstaklingum sem hafa ólíkan bakgrunn en eiga það allir sameiginlegt að hafa með einum eða öðrum hætti framkvæmt og talað fyrir skipulagðri sameiginlegri umræðu og hugmyndavinnu meðal þjóðarinnar til þess að finna bestu leiðina til framfara við nýjar aðstæður. Hópurinn hefur kallað sig Mauraþúfuna með vísan til þess sem á ensku hefur verið kallað „Collective Intelligence“.

    Nánar um nafnið Mauraþúfan

    Á síðari árum hefur orðið æ ljósara að stórir hópar búa yfir innsæi og viti sem einstaklingarnir innan hópanna eru sér ekki meðvitaðir um. Þekkt dæmi af þessu fyrirbrigði í náttúrunni er mauraþúfa. Mauraþúfa er samyrkjubú margra miljóna maura sem hver og einn hefur ákaflega takmarkað vit og stjórnast eingöngu af eðlishvötum. Ef ytri ógn stafar að mauraþúfunni, ef til að mynda nálæg á er í vexti og grefur úr árbakkanum og nálgast mauraþúfuna bregst mauraþúfan við og færir sig lengra frá ánni. Enginn maur tekur þessa ákvörðun – mauraþúfa sem heild hefur vit sem engum mauranna er gefið og enginn mauranna veit af. Staðfestingar hafa fengist fyrir því að þannig sé þetta líka í mannheimum.

    Hópurinn hefur starfað í sumar og hist reglulega til þess að stilla saman hugmyndir og móta aðdraganda, skipulag og eftirfylgni Þjóðfundar. Hópurinn hefur lagt fram þessa vinnu endurgjaldslaust og mun gera það áfram. Einstaklingar innan hópsins hafa víðtæk alþjóðleg tengsl við sérfræðinga með reynslu á þessu sviði sem hafa boðið fram aðstoð sína við undirbúning fundarins fram að þessu endurgjaldslaust. Allir þeir sem komið hafa að málinu eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga og trú á verkefninu og þeim áhrifum sem það getur haft þjóðinni til heilla.

    Hægt er að hafa samband við Mauraþúfuna í síma 773.7399 eða á maurathufan@gmail.com. Grandagarði 2, 101 Reykjavík.

    Eftirfarandi hafa verið þátttakendur í Mauraþúfunni:
    Bjarni Snæbjörn Jónsson (framkvæmdaráði)

    Björk Guðmundsdóttir

    Guðjón Már Guðjónsson (framkvæmdaráði)

    Gunnar Jónatansson

    Halla Tómasdóttir

    Haukur Ingi Jónasson

    Lárus Ýmir Óskarsson (framkvæmdaráði)

    María Ellingsen

    Svandís Svavarsdóttir

    Þorgils Völundarson

    Síðustu misserin hafa ótal margir bæst við skipulagshópinn til þess að hjálpa með ólík viðfangsefni.

    Vonandi nær þessi aðferðafræði að skila okkur Nýju Íslandi…

    Nánar:

    http://www.thjodfundur2009.is/

    http://www.facebook.com/thjodfundur2009

  • Sami rassinn.

    Posted on September 23rd, 2009 Reynir No comments

    Núna þegar Ísland er svo gott sem gjaldþrota (líklega verr statt en gjaldþrota), og afborganir af lánunum okkar hjóna eru orðin eins og við hefðum keypt 400 fermetra lúxusvillu á besta stað í bænum, eða London jafnvel. Þá velti ég því fyrir mér: Hvernig gat þetta gerst? Íslenskir stjórnmálamenn breyttu góðu hagkerfi í eina rjúkandi rúst. Það tók þá 18 ár, frá 1991 til og með 2008. Þessir stjórnmálamenn eru kallaðir bjálfar í dagblöðum úti um allan heim. Geir Haarde var valinn í 4 sætið af lesendum The Guardian yfir þá þjóðarleiðtoga sem bera mesta sök á hruninu á fjármálamörkuðum heimsins!
    Hvað gerðist? Af hverju kusum við Íslendingar bjálfa til að stjórna okkur? Erum við ekki vel menntuð þjóð? Það eru allir að segja það. Er það bara eitthvað smjaður? Nú veit ég að Geir Haarde og Davíð eru engir bjánar, en þeir höguðu sér vissulega bjánalega, og mistökin voru stór. Núna þurfum við almenningur að borga Icesave vegna þess að einkaaðilum var leyft að stunda fjárglæfrastarfsemi í öðrum löndum eftirlitslaust.

    Bjarni Benediktson núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins benti réttilega á að flokkurinn hefði verið valinn 1991, og aftur 1995 og aftur 1999 og aftur 2003 og aftur 2007, til að stjórna landinu. Af hverju gerðum við það? Það vissu allir sem fylgdust með hvernig Landsbankinn var seldur, að þar var á ferðinni misbeiting valds af verstu tegund. Það var skrifað um söluna á þeim tíma. Það byrtist góður greinaflokkur um þetta mál í Fréttablaðinu eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttir, þar sem allt þetta mál er rakið. Og núna er allur sannleikurinn kominn í ljós: Þeir fengu Landsbankann á 10 milljarða, borguðu bara hluta, nú þurfum við að kaupa hann til baka fyrir 700 milljarða!

    En af hverju kusum við þess stjórnmálamenn aftur og aftur? Upplýsingarnar lágu fyrir. Margir hagfræðingar vöruðu við því sem var að gerast. Það var stórkostlegur viðskiptahalli við útlönd og gegndarlaus skuldasöfnun alveg frá 2001 sem bara jókst og jókst þartil hrunið varð En: Það þurfti að leita til að finna réttu greinarnar. Það þurfti að hafa áhuga á málefninu og velta því fyrir sé hvað var að gerast. Íslenskir kjósendur létu hinsvegar nægja að velta sér við í sófanum og segja spekingslega: ”Það er sami rassinn undir þessu öllu saman”, og héldu áfram að kjósa sama flokkin sama hvað á dundi.

    Ég er þeirrar skoðunar að lýðræðið sjálft sé amk hluti af vandamálinu. Þjóðfélagið byggir á því að það séu gerðar kröfur til allra þjóðfélagshópa: Launþegar gera kröfu til vinnuveitenda og öfugt, kennarar til nemenda, foreldrar til kennara osfrv. Þetta virkar. En það er einn þjóðfélagshópur sem enginn gerir neinar kröfur til: Það eru kjósendur. Þeir geta hegðað sér nákvæmlega eins og þeim sýnist, og allir eru hvattir til að kjósa.
    Það á ekki að hvetja menn til að kjósa. Það á að hvetja menn til að kynna sér málin og þá að kjósa. Það ætti jafnvel að halda uppi áróðri til að fá þá sem ekki hafa áhuga á stjórnmálum til að kjósa ekki. Ef við fengjum áhugasama kjósendur, þá myndu áhrif ýmissa styrktaraðila minnka. Stjórnmálaflokkarnir þyrftu ekki að fara í rándýrar kynningar og markaðsherferðir, kostaðar af fyrirtækjum og hagsmunaaðilum sem síðan ætlast til að fá greiðann endurgoldinn með einum eða öðrum hætti.

    Margir hafa rætt um að nota tölvutæknina til að halda fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur til að auka beint lýðræði.  Það er eflaust mögulegt upp að vissu marki, en það má ekki ofnota það, einmitt vegna þess að menn verða að geta tekið upplýsta ákvörðun.  Fyrsta skrefið er að hafa viljann til þess. Það mætti nota tölvutæknina til að biðja fólk um að svara nokkrum léttum spurningum um málefnið sem spurt er um.  Þannig mætti útiloka þá sem ekki hafa minnsta áhuga eða þekkingu á málunum.
    Ég er viss um að það væri til bóta ef kosningafyrirkomulaginu væri breytt svona. Það yrið til þess að þrýsta á bæði stjórnmálamenn og fjölmiðla um að halda uppi vitrænni umræðu og viðhafa öguð vinnubrögð. Kannske gætu aðrar þjóðir tekið okkur til fyrirmyndar.  Það væri nú skemmtileg tilbreyting.  Ísland er nú ekki eina landið sem hefur kosið yfir sig bjálfa og einræðissinnaða foringja.

  • Stjórnvöld geri sér ekki of miklar vonir…

    Posted on September 21st, 2009 Þrándur No comments

    Það er oft gott að horfa á málin frá “hinni” hliðinni. Það var t.d. frábært að heyra það sagt að “heimilin hafa ekki efni á að aðstoða bankana eftir hrunið” í stað ruglsins um að ekki séu til peningar til að hjálpa almenningi.

    Þegar ráðherra í ríkisstjórn biður almenning að “gera sér ekki of miklar vonir”  er vissulega nokkur sannleikur í því. Held að það séu einmitt fáir sem “gera sér miklar vonir”.

    En stjórnvöld (fjórflokkurinn) á heldur ekki að “gera sér miklar vonir”. Von þeirra virðist vera sú að almenningur sitji þegjandi undir því sem þau ákveði á lokuðum fundum með útvöldum (og innmúruðum?) ráðgjöfum og án samráðs um breiða sátt við heimilin í landinu.

    Reyndar virðist smátt og smátt vera að rofa til í hausnum á stjórnvöldum og fulltrúar skuldara (Hagsmunasamtaka Heimilanna) jafnt sem kröfuhafa fengnir að borði.

    Það er vel.

    Nú er bráðum ár liðið frá hruninu mikla og enn ríkir gríðarleg óvissa. Hér þarf að hafa hraðar hendur og skapa viðunandi lífskjör í landinu. Koma í veg fyrir frekari eignaupptöku og snúa vörn í sókn.

    Þær aðgerðir sem þarf að vinda sér í:

    • Leysa skuldavanda heimilanna með ALMENNUM aðgerðum.
    • Breyta lögum um veðsettar skuldir, þ.a. þær nái eingöngu til veðsettu eignarinnar.
    • Hreinsa upp og ákæra EINSTAKLINGA sem báru ábyrgð á hruninu.
    • Leita ráða hjá breiðri fylkingu sérfræðinga um endurreisn og endurnýjaða framtíðarsýn.
    • Og umfram allt að tala við þjóðina (en ekki til hennar).

    Sjálfsagt mætti hafa mörg orð um hvern þessara liða, en ég læt þetta duga í bili.

    Það er því á þessum tímapunkti afar mikilvægt að VEKJA vonir hjá fólki um bjarta framtíð. Það er verkefni stjórnvalda.

  • Allt farið til andskotans?

    Posted on September 4th, 2009 Þrándur No comments

    Við lifum nú mestu umbrotatíma í sögu landsins.

    Hvernig brugðist verður við er stóra málið.

    Nú er liðið næstum því heilt ár frá hruninu og lítið bólar á aðgerðum fyrir fyrirtæki og heimili.

    Mér finnst verulega skrítið hvernig stjórnmálamenn taka á málum – rétt eins og þetta komi þeim ekki við.

    Ég lít nú á stjórnmálamenn þannig að þeir séu hluti af vandamálinu, vanhæfnir upp til hópa og skortur á framtíðarsýn er mikill. Ráðherrar tala niður til fólks og vilja ekki hlusta á rök um réttlæti og sanngjarna dreifingu kostnaðar við fall bankana.

    Meðan lykil markaðir eins og fasteignasala, bílainnflutningur og byggingariðnaður eru botnfrosnir virðast menn bara sitja hjá og horfa úr fílabeinsturninum.

    Munum að Ísland er í samkeppni við önnur lönd um fólk (sem stundum er talað um sem vinnuafl). M.a. með því að bjóða upp á hagstætt umhverfi fyrir einstaklinga, fyrirtæki og fjölskyldur.

    Hvenær koma aðgerðir?

    Hverjir munu njóta?

    Hverjir verða gerðir útlægir?

    Ég hallast að því að nú þurfi ALMENNAR aðgerðir sem sátt er um. Nú þarf að horfa á stóru myndina.

  • Icesave og Hagsmunagæslan?

    Posted on August 13th, 2009 Þrándur No comments
    Davíð og hagsmunagæslan

    Davíð og hagsmunagæslan

    Mætti á samstöðufundinn á Austurvelli í dag. Leið dálitið skringilega að sjá að Davíð Oddson var þarna rétt hjá. Gárungarnir með þetta skemmtilega skilti notuðu tækifærið og stilltu sér upp fyrir aftan hann.

    Sumir myndu kalla hann kaldann að mæta þarna – einn aðalarkítektinn að hruninu…

    Stundum segir ein mynd meira en mörg orð.

  • Icesave og aðrar skuldir

    Posted on July 1st, 2009 Þrándur No comments

    Það er nú talsverður munur á “venjulegum” skuldum ríkisins og svo icesave. Aðrar skuldir hafa yfirleitt raunveruleg verðmæti á bak við sig. Fyrir okkur er icesave bara skuld – engin verðmæti. Icesave er túlkun á lögum um tryggingarsjóð innlána.

    Ég hef aðeins á tilfinningunni að það hafi verið talið nauðsynlegt að semja til að ákveðnir menn gætu haldið andlitinu (t.d. Davíð Oddsson og Árni Mattiesen sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu og Davíð Oddsson, Geir H. Haard , Ingibjörg Sólrún og Björgvin Sigurðsson sem marglýstu yfir hversu traustum fótum bankakerfið íslenska stæði á). Sorry – þetta er bara allt of stórt mál til þess að láta einstaklinga – og tilfinningar þeirra – þvælast fyrir.

    Held að við verðum að finna varnir sem duga fyrir þjóðina hvað sem það kostar. Nú tala ég sem þjóðin 🙂

    Munum að þingmenn starfa í umboði þjóðar (okkar) og við getum tekið það aftur þegar við viljum (eins og sannaðist á Austurvelli í vetur). Það hljóta að vera takmörk fyrir því hversu mikið Alþingi getur skuldbundið þjóðina.

    Við viljum réttlæti (málið fyrir dóm) og sanngirni (ekki hærri greiðslur en hægt að ráða við).

    Það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga:
    1. Fólkið (almenningur) sem á að borga “lánið” fékk aldrei neinn pening.
    2. Bretar beittu hryðjuverkalögum.
    3. Tryggingarsjóður innlána ætti að greiða þetta (getur það reyndar sennilega ekki)
    4. Af hverju er málið ekki sett fyrir dómstóla?

    Mér finnst allavega eitthvað vanta í þessa mynd ennþá…

    Ef til vill er best að lýsa einfaldlega yfir þjóðargjaldþroti. Sætta sig þannig við orðinn hlut og byrja upp á nýtt með hreint borð.

    Bendi hér á nokkrar nýlegar greinar um icesave sem ég mæli með að þú lesir:

    Jón Daníelsson: Þennan samning verður að fella
    Jón Baldvin Hannibalsson: ICESAVE Í iÐNÓ – HREINSUNARDEILD VG
    Ólafur Arnarson: Icesave þjóðviljinn

    Hvað finnst þér?

  • Silfur Egils ekki aðgengilegt hjá RUV.is?

    Posted on June 25th, 2009 Þrándur No comments

    Allt frá því að bankarnir féllu og himnarnir hrundu í hausinn á okkur hefur verið hægt að treysta á Silfur Egils. Ég hef oftast reynt að fylgjast með umræðunum beint í sjónvarpinu eða eftir á á vefnum.

    Nú virðist hins vegar sem Silfrið sé ekki lengur aðgengilegt á vef RUV. Íris Erlingsdóttir sem skrifar reglulegar greinar í Huffington Post var að benda á þetta á Facebook og sagðist hafa fengið staðfestingu á að þetta sé rétt hjá Agli sjálfum.

    Ég skora á stjórnendur RÚV að kippa þessu í lag sem fyrst. Tortryggnin er alveg nógu mikil samt.

  • Hvað gerðist við búsáhaldabyltinguna?

    Posted on June 23rd, 2009 Þrándur No comments

    Já hvað breyttist raunverulega við búsáhaldabyltinguna?

    Það sem mér finnst kannski standa upp úr er það að ÞJÓÐIN VAKNAÐI. Allt í einu sér venjulegt fólk í gegnum blekkinguna sem stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar hafa búið til í kring um sig.

    Þátturinn Bullshit á Skjá 1 sýnir blekkingarmeistara að störfum. Munurinn á þeim og þessum fyrrnefndu er ekki mikill.

    Vandamálið er að stjórnmálamennirnir halda að þjóðin sofi ennþá Þyrnirósarsvefni og þeir geti dundað sér við gæluverkefni og haldið áfram að karpa um lítilsverð mál.

    NEI!

    Stjórnmálamenn halda að öll mál sé hægt að færa í flokkspólitískan búning og útnefna öll mál annað hvort “sín” eða “hinna”.

    NEI!

    Stjórnmálamenn halda að það skipti almenning einhverju máli hver úr fjórflokknum  er við stjórn.

    NEI!

    Stjórnmálamenn halda að það sé hægt að leggja álögur á almenning sem er langt umfram það sem aðrar þjóðir búa við (eða hafa nokkru sinni staðið undir).

    NEI!

    Hér þarf að koma til miklu stærri hugsun. Stjórnmálamenn þurfa að hætta að hugsa um þjóð sína sem sofandi hálfvita og leggja til lausnir og leiðir sem eru stærri en áður hefur sést.

    Ég spái því að sú stjórn sem nú situr eigi ekki eftir að sitja lengi. Flokkarnir voru einfaldlega fjarri því að vera búnir að ganga í gegnum einhverja endurnýjun á hugmyndafræði og nálgun til að það séu nokkrar líkur á því.

    Stjórnmál síðustu ára hafa snúist um smálagfæringar á þjóðarskútunni, t.d. að skrapa og mála. Nú þarf að byggja nýja nánast frá grunni. Það þýðir að nota þarf allt önnur og öflugri verkfæri og annað verklag. Það þarf líka að leggja harðar að sér og átta sig á því fyrir hverja er verið að vinna.

    Ef núverandi stjórnmálamenn átta sig ekki á því hversu stórt verkefnið er þurfa aðrir að koma að verki. Þjóðin er vakandi og vill taka þátt í verkefninu.

    Skilaboðin til stjórnmálamanna eru skýr:

    VAKNIÐ!

  • Greiðsluverkfall?

    Posted on June 20th, 2009 Þrándur No comments

    Kjallaranum var að berast þessi tilkynning frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

    Boðun greiðsluverkfalls – mikilvæg ákvörðun félagsmanna

    Hagsmunasamtök heimilanna munu standa fyrir opnum félagsfundum þriðjudaginn 23. júní kl. 20:00 þar sem yfirskriftin er greiðsluverkfall. Félagsmenn munu verða beðnir um að ganga til kosninga um hvort samtökin skulu hefja formlegt greiðsluverkfall. Formleg atkvæðagreiðsla fer fram með rafrænum hætti í kjölfar fundarins.

    Fundurinn samanstendur af stuttu erindi um aðdraganda greiðsluverkfalls, tilhögun, markmið og tilgang auk umræðna fundarmanna. Borin verður upp ályktun fundarins og leitað samþykkis fundarmanna. Í kjölfarið verður sett af stað rafræn kosning á internetinu um hvort stjórn HH fái umboð til skipunar verkfallsstjórnar. Fáist slíkt umboð hjá félagsmönnum mun sú verkfallsstjórn sem stjórnin setur saman ákveða nánar um framkvæmd greiðsluverkfallsins.

    Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér greiðsluverkfallið á heimasíðunni og senda inn spurningar og/eða tillögur á heimilin@heimilin.is

    Eftirfarnir staðir eru fundarstaðir:
    Fundartími: 23. júní 2009 kl. 20:00

    Reykjavík: Iðnó við tjörnina, tengiliður undirbúningsnefndin/ Guðrún Dadda
    Keflavík: Frumleikhúsið Vesturbraut 17, Laufey Kristjánsdóttir
    Akureyri: Um borð í Húna (Húni II), tengiliður Sigurbjörg Árnadóttir
    Selfoss: 800 barinn, tengiliður Magnús Vignir
    Golfhúsið Snússa á Flúðum, tengiliður Kristín Magdalena

    Fundirnir hafa verið og verða auglýstir í útvarpi næstu daga. Stjórnin hvetur félagsmenn til að fjölmenna á fundina til að sýna samstöðu og láta í sér heyra. Þetta á einnig við um þá sem eru á móti aðgerðum af þessu tagi, það er nauðsynlegt að þeir láti einnig í sér heyra.

    Við hvetjum félagsmenn einnig til að ræða um Hagsmunasamtök heimilanna við vini og vandamenn, segi frá tilgangi og starfi samtakanna og vísa á heimasíðuna. HH er breiðfylking fólks úr öllum áttum og mikilvægt að raddir félagsmanna berist stjórninni í stríðum straumum svo þær móti stöðugt starf og stefnu.

    Hagsmunasamtök heimilanna
    www.heimilin.is
    Framlög til HH af frjálsum vilja
    (o: 1110-26-5202, kt. 520209-2120 :o)

    Hvað ætlar þú að gera?

  • Frétt Mánaðarins?

    Posted on June 18th, 2009 Þrándur No comments
    Bíll var grafinn niður í holu við húsið. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

    Bíll var grafinn niður í holu við húsið. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

    Frétt mánaðarins var án efa þegar maður sem misst hefur allt sitt hér á landi tók til við “aðgerðir”. Hann leigði gröfu og var ekki nema nokkrar mínútur að eyðileggja fyrrverandi húsið sitt og grafa bílinn með.

    Afar táknrænt.

    Ákvörðun mannsins er ekki tekin í stundarbrjálæði þar sem hann og konan voru flutt út til Noregs og tóku þessa  ávörðun í sameiningu. Hvort gjaldþrot er 60 milljónir eða 120 skiptir þau ekki öllu máli.

    Þetta er náttúrulega vandinn í hnotskurn. Með því að leyfa að skuldir geti náð yfir annað en það sem lagt er að veði getur ekki hjálpað. Lánveitandi er í raun bæði með axlabönd og belti. Það er ekki nóg með að hann eignist húseignina heldur er afgangurinn af skuldinni áfram áhvílandi á einstaklingnum og hægt að halda því áfram þannig til langframa.

    Í svona dæmum snúast hlutirnir samt við. Fólk sem hefur engu að tapa getur gripið til ýmissa aðgerða.

    Venjulega er slíkt fólk á jaðri samfélagsins og auk þess lítill hópur.

    Núna er ástandið þannig að stórt hlutfall íbúðareigenda er nálægt því að vera gjaldþrota. Stærsta verkefni stjórnvalda er að leysa þann hnút, þannig að sátt skapist í samfélaginu og hægt sé að fara að byggja upp á nýtt.

    Sjá nánar:

    Bankinn fékk ekki lyklana – mbl.is

    Traustið hvarf og það þarf að endurreisa – Marínó G. Njálsson

    Örvænting, örþrifaráð og fórnarlömb græðgi – Lára Hanna Einarsdóttir

    Kraumar reiðin undir fargi ölmusukapítalismans? – Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

    Táknrænn gjörningur á Álftanesi – Stefán Friðrik Stefánsson

    Sorglegt…. en ógeðslega kúl! – Heiða B. Heiðars