Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Þjóðfundur dýr?

    Posted on November 9th, 2010 Þrándur No comments
    Þjóðfundur

    Þjóðfundur

    Nú er Þjóðfundur um stjórnarskrá lokið og kannski fátt sem kom á óvart í sjálfu sér. Almennt held ég þó að flestir geti verið sammála niðurstöðunni og að hún sé gott innlegg í stjórnlagaþingið sjálft.

    Örfáir hafa tekið sig til og fundið að kostnaði við þjóðfundinn. Um 90 milljónir kostaði að halda fundinn sem gerir um 90 þúsund á hvern fundarmann. Sjálfsagt hefði mátt reyna eitthvað að draga úr kostnaði, t.d. er spurning hvort fundarmenn hafi átt að fá borgað fyrir. Á móti má spá í hvort það hefði dregið úr þátttökuvilja.

    Ég held að auðveldara sé að spara á mörgum öðrum stöðum. Hvað hefur t.d. farið mikill tími Alþingismanna í misheppnaðar tilraunir til að endurskoða stjórnarskránna? Hvað þarf að fækka þingmönnum mikið til að halda einn svona þjóðfund á ári?

    Niðurstöðurnar:

    LAND OG ÞJÓÐ – Gildi og gildistengd atriði sem lúta að sjálfstæði ríkisins, menningu og landshögum, svo sem framsýni, gildi íslenskrar tungu og landsbyggðar.
    Stjórnarskráin er sáttmáli sem tryggir fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og er skrifuð fyrir fólkið í landinu. Stjórnarskráin á að standa vörð um íslenska tungu, menningu og auðlindir þjóðarinnar. Hún verði kynnt í skólum og almenningi tryggð áhrif á ákvarðanir í þjóðmálum. Efla skal ímynd Íslands, stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga.
    SIÐGÆÐI – Almenn siðferðileg gildi án sérstakra tengsla við stjórnskipun eða stjórnmál, svo sem heiðarleiki, virðing, ábyrgð, umburðarlyndi, sanngirni og samkennd.
    Stjórnarskráin skal byggja á siðferðisgildum. Siðgæðisþema nýrrar stjórnarskrár skal vera mannvirðing, tjáningarfrelsi og tillitssemi. Lögð sé áhersla á heiðarleika kjörinna fulltrúa, embættismanna, lög og siðareglur. Til að efla og bæta siðgæði þjóðarinnar þarf að kenna siðfræði í skólum landsins og auka samfélagslega ábyrgð almennings. Á Íslandi skal valdhöfum settur skýr rammi þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins eru höfð að leiðarljósi.
    MANNRÉTTINDI – Gildi sem liggja til grundvallar eða tengjast viðteknum mannréttindum, svo sem jafnrétti og jafnræði, tjáningarfrelsi, menntun, trúfrelsi og eignaréttur.
    Allir skulu njóta mannréttinda samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur lofað að virða, svo sem tjáningarfrelsis, friðhelgi einkalífs, trúfrelsis og eignarréttar. Tryggja skal jafnræði fyrir lögum óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, búsetu og kynhneigð. Allir skulu njóta jafns réttar til náms, heilbrigðisþjónustu og lágmarksframfærslu. Vægi atkvæða verði jafnt.
    RÉTTLÆTI, VELFERÐ OG JÖFNUÐUR – Gildi og gildistengd atriði sem lúta almennt að réttlæti, velferð og jöfnuði, t.d. með tilliti til menntunar, heilbrigði og framfærslu.
    Tryggja skal öllum landsmönnum mannsæmandi lífskjör óháð kyni, kynþætti, aldri, búsetu, vinnu, þjóðerni, trúarskoðun, efnahag, fötlun, kynhneigð eða skoðunum. Allir skulu hafa jafnan rétt til framfærslu, menntunar, heilbrigðisþjónstu og félagsþjónustu. Lífeyrisréttindi skulu öllum tryggð. Vægi atkvæða skal vera jafnt og refsilög skýr.
    NÁTTÚRA ÍSLANDS, VERND OG NÝTING – Gildi og gildistengd sem lúta að umhverfi, þ.á.m. auðlindum, svo sem sjálfbærni, umhverfisvernd og þjóðareign.
    Náttúra og auðlindir landsins eru óframseljanleg þjóðareign sem ber að vernda, umgangast og nýta á sjálfbæran hátt þannig að aðgengi almennings sé tryggt. Setja þarf skýr lög um eigna- og nýtingarétt þjóðarinnar á auðlindum, náttúru og lífríki. Náttúru Íslands og auðlindir ber að vernda fyrir komandi kynslóðir.
    LÝÐRÆÐI – Hvers kyns gildi og gildistengd atriði sem lúta beint að þátttöku þjóðarinnar í stjórn ríkisins, svo sem þjóðaratkvæði og kosningaréttur. Einnig gildi tengd forsendum lýðræðis, t.d. miðlun upplýsinga.
    Á Íslandi skal vera virkt og gagnsætt lýðræði. Vægi atkvæða verði jafnt í einu kjördæmi, kosningar með persónukjöri, þingseta þingmanna háð tímatakmörkunum og þeim fækkað. Lýðræðið byggi á þrískiptingu valds og skýrum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni. Skipan dómara skal endurskoðuð. Kjósendur með jafnan atkvæðisrétt geti einir breytt stjórnarskrá.
    VALDDREIFING, ÁBYRGÐ OG GAGNSÆI – Gildi og gildistengd atriði sem lúta almennt að uppbyggingu ríkisins og meðferð ríkisvalds, svo sem dreifing valdsins, gegnsæi og stöðugleiki. Einnig gildi (og gildistengd atriði) sem lúta að störfum einstakra stofnana og handhafa ríkisvalds og ábyrgð þeirra.
    Tryggja þarf þrígreiningu valds þar sem hlutverk og ábyrgð ráðamanna séu skýr. Ráðherrar skulu ekki gegna þingmennsku ásamt ráðherraembætti. Stjórnarskráin ætti að tryggja gagnsæi og eftirlit með stjórnsýslu. Fagmennska ráði för við ráðningar í störf í stjórnsýslunni. Endurskoða þarf vald forseta Íslands og taka afstöðu til neitunarvalds hans. Takmarka ætti þann tíma sem alþingismenn mega sitja á þingi. Tryggja þarf sjálfstæði dómstóla.
    FRIÐUR OG ALÞJÓÐASAMVINNA – Gildi og gildistengd atriði sem lúta að stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, svo sem öryggi, friður og hlutleysi.
    Ísland sé sjálfstætt og fullvalda ríki sem leggi áherslu á samvinnu við aðrar þjóðir, sérstaklega á norðurslóðum. Ísland sé málsvari friðar og taki þátt í alþjóðasamstarfi í þeim tilgangi. Öryggi landsins skal tryggt. Ísland taki virkan þátt í samstarfi um náttúruvernd, sjálfbæra nýtingu auðlinda, vernd mannréttinda og þróunar- og hjálparstarfi. Ísland sé herlaust og kjarnorkuvopnalaust.
  • Hverja á að kjósa – Hjálparkjörseðill

    Posted on November 7th, 2010 Þrándur No comments

    Ég prófaði að smella saman hjálparkjörseðli á vefnum kosning.is

    Hér eru nokkrir frambjóðendur sem ég treysti til að vinna heiðarlega að þjóðarhag. Athugaðu að nöfnin eru hér í stafrófsröð.

    1. Andrés Magnússon – 6747
    2. Friðrik Þór Guðmundsson – 7814
    3. Friðrik Sigurðsson – 9706
    4. Haukur Arnþórsson – 4503
    5. Illugi Jökulsson – 9948
    6. Íris Erlingsdóttir – 7968
    7. Jónas Kristjánsson – xxxx – EKKI KJÓSA!
    8. Lárus Ýmir Óskarsson – 6395
    9. Ómar Þorfinnur Ragnarsson – 9365
    10. Salvör Nordal – 9024
    11. Þorvaldur Gylfason – 3403

    Sú aðferð sem ég notaði er að velja þá sem hafa lítið tengst stjórnmálaflokkum, þeir sem tala meira fyrir þjóðarhag en hag ákveðinna hagsmuna og þeir sem ég get verið sammála um margt (þó alveg örugglega aldrei allt).

    Ég áskil mér fullan rétt til að breyta um skoðun allt fram á kjördag…

    Ef þú hefur athugasemdir við einhvern á þessum lista eða vilt bæta við, er það velkomið.

  • 4.10.2010 19:30 – Mætir þjóðin?

    Posted on October 4th, 2010 Þrándur No comments

    Mæting á Austurvelli í dag 4. Október 2010 kl. 19:30

    Nú verður fróðlegt að sjá hvort þjóðinni tekst að vekja stjórnvöld. Tvö ár eru komin frá hruni og stjórnmálamenn virðast enn ekki farnir að skilja að þjóðin er vöknuð og verður ekki svæfð alveg á næstunni. Þrátt fyrir það er haldið áfram að karpa á þingi.

    Vonarglætur eru þó á lofti:

    • Stjórnlagaþing
    • Skýrslur rannsóknarnefndar og þingmannanefndar
    • Man ekki eftir öðru…

    Fleiri verkefni bíða:

    • Skuldavandi heimilanna
    • Lyklafrumvarp
    • Raunveruleg refsing fyrir brot fjármálafyrirtækja (sem ekki bitnar bara á “viðskiptavinuum”)
    • Ný vinnubrögð og stjórn bankanna
    • Dómar yfir glæpamönnunum sem settu landið á hausinn
    • Afnám gjaldeyrishafta
    • Almenn virðing Alþingis endurreist
    • Sjálfsagt hellingur í viðbót…

    Vona að sem flestir mæti og mótmæli á friðsaman máta og lögreglan búi ekki til meiri vandræði með því að mæta í skrímslabúningum.

  • Chris Martenson með fyrirlestur á Íslandi!

    Posted on September 12th, 2010 Þrándur No comments

    Tími: Þriðjudagur kl. 17:00 – 19:00
    Staður: Einhversstaðar á HÍ svæðinu – nákvæm staðsetning tilkynnt á mánudag
    Umsjón: Hjalmar Gislason

    “Crash course” örfyrirlestrarnir fóru eins og eldur um sinu á netinu í fyrra. Þar tekur hagfræðispekúlantinn Chris Martenson fyrir grundvallaratriði í efnahagskerfi heimsins, hvenig það er uppbyggt og hvers vegna hann telur að við stöndum frammi fyrir stórum breytingum á næstu 20 árum.

    Fyrirlestraröðina og nánari upplýsingar um Chris má finna á: http://www.chrismartenson.com/

    Chris er með sýn á hvernig efnahagur, orka og umhverfi þurfa að skoðast í samhengi. Verður spennandi að heyra hvað hann hefur að segja.

    Chris er staddur hér á landi næstu daga og hefur fallist á að halda fyrirlestur á þriðjudaginn kemur. Staðsetning verður tilkynnt eins fljótt og hægt er.

    Ekki missa af þessu!

    Aðgangur ókeypis 🙂

    Meiri upplýsingar á fésbókinni.

  • Sviðsmyndir glæpafyrirtækja?

    Posted on July 2nd, 2010 Þrándur No comments

    Gylfi Magnússon hefur notað orðið “sviðsmynd” um það sem gæti gerst EF farið væri eftir dómi Hæstaréttar.

    Veltum nú aðeins fyrir okkur hver sviðsmyndin gætu orðið af nýjasta útspili SÍ og FME. Þar er lagt er til að glæpafyrirtækin reikni afborganir og eftirstöðvar “gengislánanna” eftir eigin uppástungum.

    • Gerum nú ráð fyrir að fólk “borgi og brosi” – einhverjir munu fara í mál við glæpafyrirtækin og munu vinna þau, fyrst fyrir héraðsdómi og síðar Hæstarétti. Þá gætu glæpafyrirtækin væntanlega átt endurkröfurétt á SÍ og FME fyrir mismuninum.
    • Hinn möguleikinn er að fólk BORGI EKKI – þá mun verulegt tekjuflæði tapast úr bókhaldi glæpafyrirtækjanna og þau munu fara í mál við “viðskiptavini” sína. Þau mál tapast síðan fyrir héraðsdómi og síðar Hæstarétti. Á sama hátt og áður gætu þá glæpafyrirtækin átt endurkröfurétt á ríkið.

    Spurningar sem vakna:

    • Ætla fjármálafyrirtæki að eiga viðskipti við fyrirtæki eða einstaklinga í landinu eftir þessi mál?
    • Ætla fjármálafyrirtækin að stimpla sig endanlega sem glæpafyrirtæki?
    • Ætlar láglaunamaðurinn í Seðlabankanum að fá á sig kæru vegna tilmæla um lögbrot?
    • Ætlar forstjóri FME að gera það?
    • Ætlar dómsmálaráðherra að sjá til þess að dómi Hæstaréttar sé fylgt eftir?
    • Sættir fólk sig við að búa ekki lengur í réttarríki?
    • Á nú enn og aftur að seilast í vasa almennings til að greiða fyrir óráðsíu bankanna?

    Höfum það líka í huga að þessu sama fjármálakerfi var bjargað með neyðarlögum fyrir ekki svo löngu síðan.

  • Réttlætið það sigraði að lokum…

    Posted on June 23rd, 2010 Þrándur No comments

    …og (bankinn) almenningur endurheimti féð!

    Það er alveg ótrúlegt að bankarnir þurfi nú allt í einu aðstoð við að lesa samningana sem þeir gerðu um gengistryggð lán.

    Samkvæmt dómi Hæstaréttar er það alveg kýrskýrt og alls engin réttaróvissa.

    Svo vitnað sé í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

    Réttlætið sigrar

    Engin réttaróvissa

    GENGISTRYGGING allra lána allra lánafyrirtækja er ÓGILD.
    Lánasamningur stendur að öðru leyti; upphaflegir vaxtaskilmálar og upphaflegur höfuðstóll í íslenskum krónum, að frádregnum greiðslum.

    Lánafyrirtæki endurreikni “áður” gengistryggð lán, án gengistryggingar og með upphaflegum vaxtakjörum og stöðvi á meðan frekari greiðslur frá lántökum eða takmarki þær við upphaflega greiðsluáætlun.

    Lánafyrirtæki endurreikni allar greiðslur afborgana, vaxta og kostnaðar og endurgreiði ofgreiðslur með vöxtum samkvæmt vaxtaviðmiði Seðlabankans (lög nr. 38/2001, 18. grein).

    Lántaki sem vill fresta frekari greiðslum eða takmarka þær við upphaflega greiðsluáætlun, tilkynni lánafyrirtæki það skriflega.

    Lántakar eru hvattir til að kanna rétt sinn til skaðabóta vegna; ofgreiðslna, innheimtuaðgerða, eignamissis eða annars tjóns vegna ólögmætrar gengistryggingar lána.

    Stjórnvöld tryggi, með fyrirmælum ef þarf, að öll lánafyrirtæki endurreikni undanbragðalaust “áður” gengistryggð lán, án gengistryggingar og með upphaflegum vaxtakjörum.

    Samtökin vilja áframhaldandi samvinnu við stjórnvöld um lausnir á skuldavanda heimilanna, og mótunar nýs lánakerfis, til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

    Taktu þátt í að verja hagsmuni heimilanna og móta lánakerfi til framtíðar með því að skrá þig í Hagsmunasamtök heimilanna á heimilin.is

    Höfum það líka í huga að engin heimild er til að breyta samningum eftirá eins og suma virðist dreyma um, hvað þá að eitthvað sé krukkað í dóma Hæstarétts.

    Vonandi verður þetta mál allt síðan til að varpa ljósi á það arfavitlausa kerfi sem verðtryggingin hefur orðið að.

    Verðtryggingin hefur virkað sem bæði belti og axlabönd fyrir vanhæft bankakerfi. Og við munum líka að það var almenningur sem þurfti samt að hysja upp um bankana buxurnar!

    Það er lífsspursmál fyrir þjóðina að verðtrygging verði lögð af NÚNA!

  • Íslenska krónan er ónýt!

    Posted on April 20th, 2010 Þrándur No comments

    Ég er sammála Vilhjálmi Þorsteinssyni að íslenska krónan er ónýt. Við verðum samt að hafa í huga að  við erum í raun með tvær myntir hér, íslenska krónu sem launþegar fá og svo verðtryggða krónu sem bankarnir fá.

    Þetta held ég að hafi mögum farið að verða ljóst þegar myntkörfulánin fóru að bjóðast. Ég held nefninlega að fólk hafi tekið bestu ákvörðun út frá fyrirliggjandi upplýsingum um að skipta yfir í erlend lán. Þar eru lægri vextir og heildarafborganir lægri.

    Þá voru menn að tala um 30% sveiflur í gengi, en enginn gerði ráð fyrir  því sem gerðist. Nánast algert hrun íslenska efnahagskerfisins. Á því áttu fáir von.

    Gæti líka bætt við stjórnmálakerfinu og einhverju fleiru. (Ætla samt ekki að fara út í hagfræðilegar skilgreiningar).

    Efnahagshrunið er borið af launþegum í amk. helmingslækkun launa og af skuldugum íbúðareigendum í formi stökkbreyttra lána (eða helmingslækkun húsnæðisverðs).

    Þar er komið að forsendubrestinum sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á, en ráðamenn þrjóskast við að viðurkenna.

  • Norðmaður um Icesave

    Posted on January 13th, 2010 Þrándur No comments

    Athuglisvert að heyra hvað Hans Lysglimt hefur að segja um Icesave, ríkisstjórnir og banka í stóra samhenginu. Það er ýmislegt sem hann bendir á sem vill stundum gleymast. ESB á t.d. alveg möguleika á að lenda í svipaðri lánakrísu og Ísland. Einnig það að ríkisstjórn er ekki sama og fólkið (nokkuð sem er alltaf að skýrast betur og betur þessa dagana).

    Hann leggur loks til að við tökum upp frísvæði gjaldmiðla. Hættum með krónuna og leyfum viðskipti með dollara, evrur, pund og jafnvel gull.

  • Samræðustjórnmál?

    Posted on January 6th, 2010 Þrándur No comments

    Ég var ánægður þegar forsetinn synjaði lögum um fjölmiðla árið 2004 og ég er líka ánægður þegar hann bregst við vilja, að því er virðist, meirihluta fólksins í landinu.

    Í hvorugt skiptið hefði málið þurft að ganga svona langt. Bara ef svona umdeild mál væru leyst með samræðum og vilja til að ná breiðri samstöðu.

    Mistökin liggja hjá ríkisstjórninni sem átti að hlusta betur á þjóð sína. Sérstaklega eftir atburði síðastliðins vetrar. Mistökin voru að gera þetta mál að flokkspólitísku máli og að hengja líf ríkisstjórnarinnar á ákveðna niðurstöðu. Það sama má reyndar segja um ESB umsóknina sem er eiginlega alveg öruggt að verður hafnað af þjóðinni nema hægt sé að sannfæra okkur um hver ávinningurinn verður.

    Hvort stjórnin lifir veltur á því að hún ákveði að breyta vinnubrögðum sínum í átt að virkari samstöðu um stóru málin.

    Það var reyndar sérstaklega ánægjulegt að sjá Steingrím í viðtali við breska fjölmiðla. Þar sem hann kom sjónarmiðum Íslands í Icesave málinu skýrar á framfæri en ég hef séð áður.

    Meira af þessu!

  • Björgum bönkunum!

    Posted on November 19th, 2009 Þrándur No comments

    Því miður er allt of mikið satt í þessu myndbandi og erfitt að hlæja að þessu. Staðreyndin er nefninlega sú að aðferðin sem nota á við “greiðslujöfnun” og “skuldaaðlögun” virðast eingöngu hugsaðar til þess að bjarga bönkunum með því að forða okkur lántakendum frá gjaldþroti og halda okkur lengur á hamsturhjólinu. Í stað þess að afnema eða aftengja vísitöluna og gengisbindingu er búið til afar flókið kerfi sem enginn skilur hvaða áhrif hefur.

    Fasteignir verða áfram óseljanlegar og sú fjárfesting sem sett hefur verið í eignirnar tapað fé.

    Þegar laun hafa auk þess lækkað um 50% m.v. nágrannalöndin er erfitt að réttlæta hvers vegna við ættum að vera kyrr á skerinu.

    Hagsmunasamtök Heimilanna virðast standa ótrúlega ein í þeirr baráttu að finna einhverja réttláta leið sem kemur fólkinu í landinu á fætur á ný. Gaman að sjá þau beita húmor í þessu myndbandi. Húmorinn bítur oft fastast.

    Mæli með að þú skráir þig í samtökin: Heimilin.is