Bíll var grafinn niður í holu við húsið. mbl.is/Heiðar Kristjánsson
Frétt mánaðarins var án efa þegar maður sem misst hefur allt sitt hér á landi tók til við “aðgerðir”. Hann leigði gröfu og var ekki nema nokkrar mínútur að eyðileggja fyrrverandi húsið sitt og grafa bílinn með.
Afar táknrænt.
Ákvörðun mannsins er ekki tekin í stundarbrjálæði þar sem hann og konan voru flutt út til Noregs og tóku þessa ávörðun í sameiningu. Hvort gjaldþrot er 60 milljónir eða 120 skiptir þau ekki öllu máli.
Þetta er náttúrulega vandinn í hnotskurn. Með því að leyfa að skuldir geti náð yfir annað en það sem lagt er að veði getur ekki hjálpað. Lánveitandi er í raun bæði með axlabönd og belti. Það er ekki nóg með að hann eignist húseignina heldur er afgangurinn af skuldinni áfram áhvílandi á einstaklingnum og hægt að halda því áfram þannig til langframa.
Í svona dæmum snúast hlutirnir samt við. Fólk sem hefur engu að tapa getur gripið til ýmissa aðgerða.
Venjulega er slíkt fólk á jaðri samfélagsins og auk þess lítill hópur.
Núna er ástandið þannig að stórt hlutfall íbúðareigenda er nálægt því að vera gjaldþrota. Stærsta verkefni stjórnvalda er að leysa þann hnút, þannig að sátt skapist í samfélaginu og hægt sé að fara að byggja upp á nýtt.
Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að samningamenn okkar í þessu RISASTÓRA máli sem er icesave séu engann veginn starfi sínu vaxnir. Með því að lesa upptalningu Jóns Helga Egilssonar á 11 ranghugmyndum um icesave er erfitt að komast að annarri niðurstöðu.
Vandamálið er að við gætum alveg eins lýst okkur gjaldþrota strax. Vaxtagreiðslur af þessari stærðargráðu setja þjóðina aftur í moldarkofana og drepa alla von um samkeppnishæfni landsins við aðrar þjóðir. Einhverjir halda því fram að sem hlutfall af þjóðartekjum séu vextirnir hærri en þjóðverjar greiddu í stríðsskaðabætur eftir fyrri heimstyrjöld. Erum við betur aflögufær?
Ég efast stórlega um að Alþingi hafi heimild til að skuldsetja þjóðina á þennan hátt.
Mér finnst líka að það hljóti að vera einhver atriði sem er haldið leyndum. Því rökin fyrir skuldbindingu eru undarlega lítil.
Nokkrar spurningar:
Hvers vegna var ekki brugðist við setningu hryðjuverkalaga?
Af hverju var ekki farin dómstólaleið?
Hvað liggur svona mikið á?
Hvers vegna eru bretar og hollendingar ekki hafðir með í ráðum við að sakfella glæpamennina sem komu þessu á?
Vita bretar og hollendingar hvaða áhrif þetta hefur á kjör íslensks almennings?
Hvers vegna er ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um málið?
Ólafur Arnarsson skrifar flugbeitta grein í Pressuna. Þar tekur hann fyrst fyrir tvö dæmi um venjulegt fólk sem tekið hefur erlent lán í góðri trú og situr nú uppi með manndrápsklifjar.
Bankarnir eru í sterkri stöðu gegn veikum almenningi. Stjórnvöld hækka skatta á þetta sama fólk og hækka í leiðinni lán heimilanna um mun hærri fjárhæð. Heimilin sem átti að verja sitja eftir í súpunni og vonin fer þverrandi.
Örvænting hefur gripið um sig meðal stórra hópa Íslendinga.
Vonin, sem í vetur var eina haldreipi fólksins, fer þverrandi. Með hverjum degi verður ljósara að stjórnvöld ætla ekki að koma íslenskum heimilum og atvinnulífi til hjálpar.
Það er verið að reka okkur eins og hjörð skynlausra skepna fram af bjargbrún. Og við erum of dofin til bregðast við og verja okkur.
Ríkisstjórnin hefur nú setið í fjóra mánuði og einu skýru skilaboðin, sem þjóðin hefur fengið frá henni, eru þau að þetta sé erfitt! Við eigum sennilega að vorkenna vesalings ráðherrunum. Datt þeim virkilega í hug að þetta yrði auðvelt?
Opinn kynningarfundur um tillögu talsmanns neytenda
Minnum á fundinn þriðjudagskvöldið 19. maí 2009 kl. 20.00 í Borgartúni 3.
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, mætir á fundinn og kynnir tillöguna og svarar fyrirspurnum fundarmanna.
Eftirfarandi má lesa á heimasíðu embættis talsmanns neytenda um málið:
Talsmaður neytenda hefur sent forsætisráðherra tillögu með ítarlegum rökstuðningi fyrir því að taka beri öll neytendalán með veði í íbúðarhúsnæði eignarnámi og fela gerðardómi að leggja til niðurfærslu þeirra.
Lagt hefur verið til við forsætisráðherra að sett verði neyðarlög í þágu neytenda þar sem kveðið verði á um
eignarnám íbúðarveðlána til neytenda,
niðurfærslu allra íbúðarveðlána til neytenda
eftir mati lögbundins, sérstaks gerðardóms.
Lagt er til að tiltekin samtök neytenda tilnefni tvo fulltrúa í gerðardóminn og þrír aðilar úr hópi kröfuhafa tilnefni aðra tvo fulltrúa í gerðardóminn en Hæstiréttur skipi formann sem skuli vera lögfræðingur.
Alger forsendubrestur aðalröksemdin
Meginrökin eru forsendubrestur og eru tilteknir útreikningar um að neytendur hafi ekki mátt gera ráð fyrir því gengishruni sem varð enda aðeins 0,7% líkur á að gengi Bandaríkjadals yrði lægra en 122 ISK/USD. Sömuleiðis hafi aðeins verið um 2,1% líkur á því að gengisvísitalan tæki gildi yfir 171.
Þá er tiltekinn í tillögunni fjöldi annarra lagasjónarmiða og röksemda af sviði neytendaréttar, auðgunarsjónarmiða, skaðabótareglna, réttarfarsreglna og stjórnskipulegra röksemda auk staðreynda og sanngirnissjónarmiða.
— Hagsmunasamtök heimilanna www.heimilin.is
Framlög til HH af frjálsum vilja
(o: 1110-26-5202, kt. 520209-2120 :o)
Gísli Tryggvason talsmaður neytenda hefur lagt fram ítarlega tillögu um
leiðréttingu á húsnæðislánum landsmanna. Hún felur í sér skipun gerðardóms
sem meta skuli áhrif forsendubrests og fjölda málsástæðna á hækkanir
húsnæðislána og finna mælikvarða til leiðréttingar hinna ýmsu flokka lána.
Hann hefur kynnt þessa tillögu fyrir stjórnvöldum og ýmsum aðilum. Nú kemur
hann á fund með okkur, kynnir tillöguna og svarar spurningum.
Félagar eru hvattir til að fjölmenna. Fundurinn er öllum opinn og er
aðgangur ókeypis.
—
Hagsmunasamtök heimilanna
www.heimilin.is
Framlög til HH af frjálsum vilja
(o: 1110-26-5202, kt. 520209-2120 :o)
Það er alveg ótrúlegt hversu lítið ráðherrar hafa tekið eftir því að hér hefur heilt hagkerfi hrunið. Það er bara haldið áfram af fullri hörku gagnvart saklausu fólki sem vann sér það eitt til sakar að hafa trúað á framtíð landsins.
Það er eins og þeir haldi að við það að taka við slíku embætti aukist viska þeirra svo mikð að engin þörf sé lengur að hlusta á önnur sjónarmið.
Gunnar Tómasson ritar í morgun grein í Fréttablaðið þar sem hann talar um að eina skjaldborgin sé sú sem reist hefur verið utan um kröfuhafa:
Eignamat gömlu bankanna
Í minnisblaði viðskiptaráðherra – Endurreisn fjármálakerfisins – sýn viðskiptaráðherra á verkefnin framundan – dags. 5. maí segir svo í 1. lið:
„Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá því í október 2008 var kveðið á um að tilteknar eignir og skuldir færðust yfir frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Í kjölfarið gerði Fjármálaeftirlitið samning við Deloitte LLP um að meta þær eignir og skuldir sem færðust á milli. Einnig gerði eftirlitið samning við alþjóða ráðgjafafyrirtækið, Oliver Wyman, til þess að hafa tilsjón með mati á eignunum. Fjármálaeftirlitið fól Deloitte LLP að byggja mat sitt á hugtakinu gangvirði, en skilgreining þess gerir ráð fyrir að nýju bankarnir haldi áfram starfsemi sem fullfjármagnaðir íslenskir bankar á innanlandsmarkaði og þurfi hvorki að losa eignir (eða gera upp skuldbindingar) í bráð né með nauðungarsölu. Niðurstöður matsins liggja nú fyrir og er nú verið að kynna þær hagsmunaaðilum í samræmi við stefnu þar að lútandi.”
Gangvirði („fair value” á ensku) vísar til söluverðs eigna við ríkjandi markaðsaðstæður án tillits til upphaflegs kaupverðs eða nafnverðs, t.d. reyndist gangvirði eigna Glitnis í Noregi sl. október vera 10% af kaupverði 2004 og brezkur fjármálamaður bauð 5% í áhvílandi skuldir á eignum Baugs í Bretlandi á sama tíma. Þegar bankar fara á hliðina fara eignir þeirra á brunaútsölu, sbr. yfirtöku Bank of America á skuldum og eignum Merrill Lynch & Co. um síðustu áramót á 12% af gangvirði hlutabréfa fyrirtækisins í janúar 2007. Markaðurinn er harður húsbóndi eins og skuldsett heimili landsins sannreyna um leið og stjórnvöld bjóða þeim aðstoð í skötulíki. Hins vegar hafa íslenzk stjórnvöld slegið skjaldborg um hagsmuni erlendra og innlendra kröfuhafa á Gömlu bankana sbr. þær vinnureglur sem Fjármálaeftirlitið setti Deloitte LLP við mat á eignum þeirra og eiga ekkert skylt við gangvirði í merkingu þess hugtaks við ráðstöfun eigna gjaldþrota banka.
Höfuðstóll og skilmálar húsnæðislána Gömlu bankanna eru ótvírætt umfram greiðslugetu fjölda lántakenda. Það væri því glapræði fyrir Nýju bankana að yfirtaka slík lán skv. mati Deloitte LLP sem byggir á öðrum forsendum. Vandi stjórnvalda verður einfaldlega ekki umflúinn: skjaldborg verður ekki slegin samtímis um hagsmuni heimila landsins og kröfuhafa Gömlu bankanna. Hið sama er upp á teningnum varðandi skuldir sjávarútvegsfyrirtækja: Nýju bankarnir myndu verða nánast óstarfhæfir til langframa við yfirtöku skuldanna á margföldu gangvirði.
Mat á eignum Gömlu bankanna samkvæmt þeirri aðferðafræði sem Fjármálaeftirlitið fyrirskipaði myndi ofmeta eignir þeirra til hagsbóta fyrir erlenda og innlenda kröfuhafa um e.t.v. hundruð milljarða miðað við eignamat samkvæmt „fair value” aðferðafræðinni. Leiðrétting á mistökum Fjármálaeftirlitsins og endurmat eigna Gömlu bankanna í samræmi við viljayfirlýsingu stjórnvalda til AGS myndi skapa samsvarandi svigrúm til að aðlaga greiðslubyrði heimila landsins af skuldum við bankakerfið að greiðslugetu þeirra.
Ólafur Arnarsson sá sem skrifaði bókina “Sofandi að feigðarósi” sem fjallar um íslenska hrunið er ekki siður skýr í máli:
Það er eins og það fari hreinlega framhjá ráðamönnum þjóðarinnar að íslenska þjóðin hefur nýverið gengið í gegnum versta efnahagshrun, sem nokkur vestræn þjóð hefur þurft að þola. Það sem verra er, hörmungarnar halda áfram. Við hrunið sjálft gerðist í sjálfu sér ekki margt hjá þorra þjóðarinnar. Lánin hækkuðu hvort sem um verðtryggð eða gengistryggð lán var að ræða. En fólk bjó enn í húsunum sínum og keyrði enn um á bílunum sínum í vinnuna sína. Þetta gat verið tímabundið bakslag.
Nú vitum við að þetta er alls ekki tímabundið. Heimili og fyrirtæki standa frammi fyrir því að allar lánaskuldbindingar hafa hækkað og jafnvel tvöfaldast. Atvinnuleysi stefnir yfir 10% og vextirnir eru eins og Seðlabankinn sé að berjast við mesta góðæri Íslandssögunnar, nú eða jafnvel mannkynssögunnar. Greiðslubyrðin er óviðráðanleg og eignirnar eru nánast einskis virði, alla vega ef nauðsynlegt er að koma þeim hratt í verð.
Mjög skýrt fram sett, en niðurstaðan að mínu mati röng. Maður hefði einmitt haldið að hér þurfi réttlætissjónarmið að komast að. Hélt eiginlega að svona félagshyggjustjórn myndi taka skýrari afstöðu MEÐ þegnum landsins.
Það eru AFAR óvenjulegir atburðir sem hafa orðið. Þeir hafa orðið af völdum banka og stjórnvalda. Því þarf að beita óvenjulegum aðferðum og við þurfum HUGRAKKA stjórnmálamenn.
Leiðinlegt að sjá rök um að eitthvað sé “framsóknarhugmynd” og þar með óþarfi að ræða frekar!
Einnig finnst mér villandi að tala um “aðstoð” þegar réttara væri að ræða um “leiðréttingu”.
Hættan á algeru kerfishruni held ég að sé talsverð og svona hroki eins og mér fannst ég heyra á Gylfa og fleiri ráðherrum hjálpar þar ekki til. Hver væru áhrifin af því að 40-50 þúsund heimili hættu að borga? Hver borgar skattana ef stór hópur skattborgara er gjaldþrota eða flúinn af landi? Hvað verður um eignaverðmæti eigna sem enginn vill búa í?
Held að það verði að finna almenna lausn sem byggir á sanngirni og því að koma í veg fyrir fólksflótta og upplausn.
Hann svarar nú ekki þessum athugasemdum beint, en ég held að þetta sé stóra málið. Vilhjálmur er tölvumaður og ætti að þekkja það að ef tölvur frjósa þarf að fara í stórar aðgerðir og jafnvel þarf að endurræsa.
Sama held ég að eigi við um fjármálaástandið núna. Það hefur orðið KERFISHRUN (gengishrun, bankahrun, stjórnmálahrun o.s.frv.)
Getur ekki verið að eina leiðin sé að beita samsvarandi aðferðum?
Kjallaragenginu var að berast upplýsingar um áhugaverðan fyrirlestur:
William K. Black: Why Economists Must Embrace the “F” Word (Fraud)?
Hefst: 11/05/2009 – 12:00
Lýkur: 11/05/2009 – 14:00
Staðsetning viðburðar: Askja
Nánari staðsetning: Stofa 132
William K. Black prófessor er frá University of Missouri.
William Black hefur ritað bók um rán á banka innanfrá „The Best Way to Rob a Bank is to Own One”.
Í fyrirlestrinum mun William Black fjalla um það að hagfræði hefur ekki tekið fjársvik alvarlega og skorturinn á skýrri hagfræðikenningu um fjársvik í rekstri fyrirtækja leiði af sér rangar spár og rangar niðurstöður um samhengi ýmissa stærða í hagfræði, að ekki sé talað um röng viðhorf og vinnubrögð, sem síðan geta af sér glæpi í efnahagslífinu og meðfylgjandi faraldra hvítflibbaglæpa og kreppur með reglulegu millibili.
Að loknum fyrirlestri Blacks mun Egill Helgason blaðamaður stjórna umræðum með frummælandanum, Gunnari Þ. Andersen forstjóra Fjármálaeftirlitsins og Ólafi Ísleifssyni lektor við Háskólann í Reykjavík í pallborði.
Tilkynning frá Nýjum Tímum. Hagsmunasamtök Heimilanna taka undir kröfurnar sem hér koma fram:
Á morgun, föstudaginn 8. maí 2009 verða mótmæli vegna
aðgerðarleysis íslenskra stjórnvalda gagnvart stöðu heimilanna í landinu.
Staðsetning Alþingishúsið klukkan 13:00
Fjölmennum því á morgun við Alþingishúsið klukkan 13:00, göngum síðan upp að Stjórnarráði þar sem ríkisstjórnin mun sitja að störfum og látum í okkur heyra.
Við viljum minna stjórnvöld á að heimili landsmanna eru að brenna upp í skuldum og að sú “Skjaldborg” se mslá átti um hemilin sé hvergi sjáanleg.
Þolinmæði flestra íslendinga er að þrotum kominn!
Almenningur í landinu hefur þurft að sýna ótakmarkaða þolinmæði gagnvart stjórnvöldum sem á móti sýna l andsmönnum enga vægð þegar að innheimtuaðgerðir eru annars vegar.
Margir sjá sér ekki annara kosta völ en að fara i greiðsluverkfall.
Slagorð:
1. Aðgerðir eru valkostur!
2. Greiðsluverkfall – lokaúrræði?
3. Skjalborg óskast!
4. Björgum heimilunum!
5. Heimilin í forgang!
Í gegnum tíðina hafa stjórnvöld hlustað þegar að almenningur fjölmennir og mótmælir, reynslan hefur sýnt okkur það og kennt okkur það að samstaða er það eina sem skiptir máli.
Saga “hluta” rakin frá auðlindum, framleiðslu, sölu, notkun og þar til þeir verða að úrgangi. Skýrir á myndrænan hátt hvernig allir þessir hlutir í kringum okkur hafa áhrif á samfélagið bæði nær og fjær og hvernig þetta er meira og minna hulið fyrir hinn venjulega neytanda.
Story of Stuff er rúmar 20 mínútur þar sem hratt er farið yfir en samt skyggnst undir yfirborð framleiðslu og neyslumynsturs. Hér er sýnt fram á tengsl við umhverfisáhrif og þjóðfélagsleg áhrif. Gæti jafnvel kennt þér eitthvað eða komið til að brosa og hver veit nema þú lítir málin öðrum augum eftir en áður…
Gaman að sjá hvernig stóru fyrirtækin hafa stjórnmálamennina í vasanum – greinilega til í útlöndum líka 🙂