Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Dýr Mistök Seðlabankastjóra

    Posted on October 13th, 2008 Þrándur No comments

    Já, þau ætla að verða býsna dýr, mistök Seðlabankastjóra.

    Það er of ódýr lausn að kenna bara “útrásarvíkingunum” okkar um hvernig farið hefur. En það hljómar kannski vel.

    Hrun fjármálakerfis landsins má því miður rekja að verulegu leiti til mistaka Seðlabankastjóra á síðustu dögum. Nokkur dæmi um mistök og afleiðingar:

    • Davíð Oddsson hefur staðið gegn evru umræðu og Evrópusambandsaðild. Afleiðingin er veikur gjaldmiðill sem stenst ekki í þeim fellibyl sem geysar á fjármálamörkuðum heimsins.
    • Of háir stýrivextir. Gera íslenskum fyrirtækjum ákaflega erfitt fyrir að starfa með eðlilegum hætti í samkeppni við erlend fyrirtæki. Fjármálaspekúlantar hafa líka getað notfært sér ástandið til að hagnast óeðlilega og beita krónuna þrýstingi.
    • Seðlabankinn ráðlagði ríkisstjórn Íslands að taka yfir Glitni. Þetta olli keðjuverkun sem enn sér ekki fyrir endann á, þar sem Landsbankinn og óbeint Kaupþing hafa fallið í valinn. Auðvelt að vera vitur eftir á, en hér hefði mátt hugsa málið í nokkra daga og nýta þann tíma sem var til stefnu (þar til afborgunin átti að eiga sér stað). Því miður skorti ríkisstjórnina hugrekki til að kljást við Seðlabankann. Skaðinn af þessari ráðgjöf hleypur á hundruðum milljaraða eða meira. Stærri tölur en gott er að átta sig á.
    • Davíð Oddsson ráðinn í stöðu aðal Seðlabankastjóra. Sumir segja nánast af honum sjálfum. Þetta er dæmi um afspyrnulélega dómgreind og mistök þar sem seðlabankastjórar eiga að vera fagmenn og fara sér hægt í yfirlýsingum og koma með skynsamlegar ráðleggingar ÁN pólitískra tengsla.
    • Ummæli Davíðs í Kastljósi. Þar sem Seðlabankastjóri fór mikinn og sagði að Íslendingar myndu ekki greiða erlendar skuldir bankanna. Þetta var auðvelt fyrir breta að túlka á versta veg og Gordon Brown forsætisráðherra gerði það svo sannarlega. Hann fór reyndir verulega fram úr eðlilegum viðbrögðum með því að nota lög um hryðjuverkastarfsemi.

    Staðreyndin er sú að allir þrír bankarnir stóðu vel en áttu í LAUSAFJÁR vandræðum. Skuldasafn þeirra var tiltölulega gott og sæmilega stjórnað, þó deila megi um ofurlaun o.fl.

    Að lokum legg ég til að Davíð Oddson og hinir seðlabankastjórarnir verði settir af nú þegar.

    Leave a reply