Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Leiðin til helvítis 2

    Posted on June 28th, 2011 Reynir No comments

    Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég grein í blaðið sem hét Leiðin til helvítis. Það var um eiturlyfjavandann, og um það hvað við gerum í góðri trú, en virkar alveg öfugt við það sem ætlast er til. Mér verður oft hugsað til Sjálfstæðismanna. Af hverju kýs fólk Sjálfstæðisflokkinn? Sérstaklega núna þegar hann hefur komið endanlega út úr skápnum sem einn spilltasti stjórnmálaflokkur á vesturlöndum. Hann setti fjármálakerfið á hliðina. Hann seldi bankana þrátt fyrir varnaðarorð stjórnarandstöðunnar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins aðhafðist ekkert þó að seðlabankar og ríkisstjórnir annara landa hrópuðu á hana að gera eitthvað áður en allt færi á hliðina. Þetta stóð í mörg ár og þeir lokuðu augunum og lugu að þjóðinni alveg fram á síðasta dag. Öll spillingarmálin er óþarfi að telja upp. Fjölmargir þingmenn flokksins eru flæktir í þau. Þeir viðurkenna engin mistök, segja bara að bankamennirnir hafi valdið hruninu. Það hafa verið bankamenn í 100 ár á Íslandi, en þeim var ekki gert mögulegt að svindla svona fyrr en nú. Þrátt fyrir allt þetta: 40% þjóðarinnar finnst rétt að kjósa flokkinn! Þetta er ekki Rússland. Það eru margir aðrir flokkar og minna spilltir sem hægt er að kjósa. Það er örugglega einhver skýring á þessu. Ég held að þetta sé einskonar trú. Fólki finnst það vera hluti af fjölskyldu. Einskonar ættarveldi, svipað og í Afríku. Davíð Oddson var ættarhöfðinginn. Menn voru ánægðir með hann, hann réði öllu eins og ættarhöfðingjar eiga að gera. Svo voru það hinir. Þeir voru hættulegir. Það voru Kommúnistarnir. Flokkurinn barðist gegn Kommúnistunum. Vinstri menn sneru baki við Kommúnismanum uppúr 1960, en þá kölluðust þeir Sósíalistar sem var álíka skammaryrði. Þannig varð til jafnan: Allir hinir = Sósíalistar = Kommúnistar = Alræðisstjórn í Sovétríkjunum. Alræðisstjórnin í Sovétríkjunum hleraði andstæðinga sína og var með tökin á öllu: Stjórnmálum, atvinnulífi, dómstólum og fréttamiðlum. Af hræðslu við óvininn safnast Sjálfstæðismenn nú enn einu sinni saman og kjósa sinn flokk, sem þeim finnst að berjist gegn öllu þessu. Staðreyndin er hinsvegar að það er einmitt Sjálfstæðisflokkurinn sem er líkastur Sovéska kommúnistaflokknum eins og hann var og hét: Flokkurinn er eini flokkurinn sem hefur hlerað pólitíska andstæðinga sína (Bjarni Ben hinn fyrri) og hann hefur haft tökin á: Stjórmálunum, atvinnulífinu, dómstólunum og fréttamiðlunum. Mest sláandi eru líkindin með flokksþingunum. Þar andmæla menn ekki, heldur rétta bara prúðir upp hendi og klappa. Er þetta virkilega það sem hinn venjulegi Sjálfstæðismaður vill? Ég held ekki. En: „Leiðin til helvítis er vörðuð góðum áformum“.