Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Framtíð Íslands – Nýtt Lýðveldi

    Posted on January 25th, 2009 Þrándur No comments

    Loksins er kominn maður sem þorir að taka umræðuna um framtíð Íslands á næsta stig.

    Allt of mikill tími hefur farið í að sannfæra ríkisstjórnina um að hún er löngu fallin. Í dag áttaði Björgvin G. Sigurðsson sig á því og sagði af sér (og er meiri maður fyrir).

    Það er líka mikið áhugaverðara að horfa fram á veginn og ég er sammála því að það þarf að búa til alveg nýtt lýðveldi á Íslandi. Þess vegna styð ég þetta framtak og hvet þig til að gera það líka:

    Nýtt Lýðveldi

    Að þessari undirskriftarsöfnun stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsins.

    Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við, gilda á borð við heiðarleika, samvinnu, ábyrgð og jöfnuð.

    Við viljum með þessu framtaki mynda þverpólitíska breiðfylkingu um þau markmið sem koma fram í áskoruninni til forseta og Alþingis.

    Hópurinn er óháður öllum stjórnmálaframboðum og hagsmunaöflum.

    Njörður P. Njarðvík,

    Ólína Þorvarðardóttir,

    Tryggvi Gíslason,

    Birgir Björgvinsson.

  • G. Pétur og Geir. H. Haarde viðtalið…

    Posted on November 24th, 2008 Þrándur No comments

    G. Pétur var að taka viðtal við G. Haarde snemma árs 2007. Þetta er fyrst og fremst kennslustund í því hvernig á EKKI að tala við fjölmiðla (sem eru jú fulltrúar þjóðarinnar í tilvikum eins og þessu).

    Oft áhugavert að sjá hvað menn segja þegar þeir halda að það sé búið að slökkva á myndavélinni…

    Annars er þetta hreint ótrúlegt ástand og virðist sem stjórnvöldum sé algerlega fyrirmundað að sjá stóru myndina:

    -Fólk missir vinnu

    -Laun lækka um helming

    -Fasteignir lækka um helming

    -Skuldir lækka ekki

    (allt þetta miðað við alvöru gjaldmiðil)

    Afleiðingin er að fólk og fyrirtæki flýja land og eftir standa auð hús. Stefnir allt í að gerist eins og í Færeyjum þar sem nú vantar 9000 manns m.v. eðlilega þróun. Hér gætu því horfið 60000 manns varanlega.

    Nú er mikilvægt að ráðamenn komi sér að verki.

    Stund sannleikans er að renna upp.

    Kannski var hugmyndin um þjóðstjórn ekki svo slæm eftir allt saman…???

  • Útrásin dauð?

    Posted on November 22nd, 2008 Þrándur No comments

    Það hefur nú ýmislegt gengið á í efnahagslífi íslendinga undanfarnar vikur og oft rætt um útrásina sem eitthvað neikvætt. En það er nú samt svo að í allri þessari kreppuumræðu vill svolítið gleymast að það eru enn til útlönd og það eru enn til kaupendur að ýmis konar vöru og þjónustu á erlendri grundu.

    Ég er sannfærður um að nú er enn meiri þörf á námskeiði eins og þessu. Við höfum mikla þörf fyrir að byggja upp raunverulega útrás þar sem hægt er að breyta hugmyndum í markaðssetta vöru á alþjóðlegum markaði. Námskeið eins og þetta getur hjálpað mörgum einstaklingum sem hafa hugmyndir en vita ekki alveg hvernig hægt er að koma þeim á framfæri.

    Sala á vöru og þjónustu til erlendra kaupenda skapar gjaldeyri sem ekki er vanþörf á á þessum tíma.

  • Geir og Sigmar í Kastljósinu

    Posted on October 22nd, 2008 Þrándur No comments

    Gaman að sjá Sigmar þjarma loksins að Geir í Kastljósinu í kvöld. Fyrsti fjölmiðlamaðurinn sem gerir það af einhverri hörku. Þetta eru stórar spurningar og alveg ótrúlegt stefnuleysi sem virtist koma í ljós.

    Að ekki megi enn tala um að mistök hafi verið gerð.

    Var það ekki Davíð sem sagði eitthvað um að hætta að moka ef maður væri kominn í holu?

    Egill Helga segir líka vel frá þessu – fín umræða þar alltaf…

    Hér þarf alveg nýja hugsun og framtíðarsýn – ekki nóg að ausa bara og ausa.

  • Tvífarar – Trölli og Geir H. Haarde

    Posted on October 15th, 2008 Þrándur No comments

    Fékk sendar þessar áhugaverðu tvífara myndir:

    Grinch

    Trölli

    Geir H Haarde

    Geir H Haarde

    Samsæriskenningasmiðir sjá oft skemmtilegar samlíkingar.

    Þessi er nú ekki spurning. Vona bara að Trölla takist ekki að stela jólunum.

  • Dýr Mistök Seðlabankastjóra

    Posted on October 13th, 2008 Þrándur No comments

    Já, þau ætla að verða býsna dýr, mistök Seðlabankastjóra.

    Það er of ódýr lausn að kenna bara “útrásarvíkingunum” okkar um hvernig farið hefur. En það hljómar kannski vel.

    Hrun fjármálakerfis landsins má því miður rekja að verulegu leiti til mistaka Seðlabankastjóra á síðustu dögum. Nokkur dæmi um mistök og afleiðingar:

    • Davíð Oddsson hefur staðið gegn evru umræðu og Evrópusambandsaðild. Afleiðingin er veikur gjaldmiðill sem stenst ekki í þeim fellibyl sem geysar á fjármálamörkuðum heimsins.
    • Of háir stýrivextir. Gera íslenskum fyrirtækjum ákaflega erfitt fyrir að starfa með eðlilegum hætti í samkeppni við erlend fyrirtæki. Fjármálaspekúlantar hafa líka getað notfært sér ástandið til að hagnast óeðlilega og beita krónuna þrýstingi.
    • Seðlabankinn ráðlagði ríkisstjórn Íslands að taka yfir Glitni. Þetta olli keðjuverkun sem enn sér ekki fyrir endann á, þar sem Landsbankinn og óbeint Kaupþing hafa fallið í valinn. Auðvelt að vera vitur eftir á, en hér hefði mátt hugsa málið í nokkra daga og nýta þann tíma sem var til stefnu (þar til afborgunin átti að eiga sér stað). Því miður skorti ríkisstjórnina hugrekki til að kljást við Seðlabankann. Skaðinn af þessari ráðgjöf hleypur á hundruðum milljaraða eða meira. Stærri tölur en gott er að átta sig á.
    • Davíð Oddsson ráðinn í stöðu aðal Seðlabankastjóra. Sumir segja nánast af honum sjálfum. Þetta er dæmi um afspyrnulélega dómgreind og mistök þar sem seðlabankastjórar eiga að vera fagmenn og fara sér hægt í yfirlýsingum og koma með skynsamlegar ráðleggingar ÁN pólitískra tengsla.
    • Ummæli Davíðs í Kastljósi. Þar sem Seðlabankastjóri fór mikinn og sagði að Íslendingar myndu ekki greiða erlendar skuldir bankanna. Þetta var auðvelt fyrir breta að túlka á versta veg og Gordon Brown forsætisráðherra gerði það svo sannarlega. Hann fór reyndir verulega fram úr eðlilegum viðbrögðum með því að nota lög um hryðjuverkastarfsemi.

    Staðreyndin er sú að allir þrír bankarnir stóðu vel en áttu í LAUSAFJÁR vandræðum. Skuldasafn þeirra var tiltölulega gott og sæmilega stjórnað, þó deila megi um ofurlaun o.fl.

    Að lokum legg ég til að Davíð Oddson og hinir seðlabankastjórarnir verði settir af nú þegar.