Grasrótin ræðir málin
RSS icon Home icon
  • Davíð Oddson, Lalli Johns og fjármálin

    Posted on April 5th, 2009 Haldor No comments

    david-lalli-1

    -Sendi ykkur flottar myndir af Davíð Oddsyni og Lalla Johns.

    En þessum myndum fylgir saga.

    Þannig var að Davíð Oddson var á gangi í miðbænum og hitti þar á förnum vegi Lalla Johns og tóku þeir tal saman eins og þeir eru vanir.

    david-lalli-2

    Áður en þeir kveðjast þá spyr Lalli Davíð hvort hann geti séð af 5oo krónum svona upp á kunningsskapinn og segir Davíð það ekki málið og fer í vasa sinn og dregur upp 5000 kr og réttir Lalla. Lalli varð hugsi stutta stund og segir svo ;

    lalli-johns

    “Davíð minn, ekki skal mig undra þótt allt sé eins og það er í dag ef þú gerir ekki greinarmun á 500 kr og 5000 kr.”

  • Alheimsstríð lánardrottna

    Posted on April 2nd, 2009 Þrándur No comments

    Dr. Michael Hudson skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið.  Þar bendir hann á að nú er í gangi alvarlegt efnahagslegt “stríð” þar sem lánardrottnar eru að soga allar eignir til sín með gríðarháum vöxtum. 

    Með því að heimta okurvexti af skuldsettum fyrirtækjum, heimilum og ríkjum eru þessir aðilar settir í skuldafjötra.

    Hann segir t.d. blákalt:

    Bandaríkin eru skuldugasta þjóð heims og mun aldrei greiða erlendar skuldir sínar.”

    Það sérstaklega íhugunarvert að lesa hvernig hann líkir ástandinu við stríð. Fjárhagslegi hernaðurinn er bara ekki eins sýnilegur. Afleiðingarnar geta hins vegar orðið afar alvarlegar:

    • Styttri meðalaldur
    • Færri fæðingar
    • Vinnuafl flýr úr  landi
    • Hækkuð sjálfsmorðstíðni
    • Sjúkdómar og fleira

    Verst er að þeir sem fara úr landi eru oft fólk á verðmætasta aldrinum 25-40 ára.

    Eftir stendur spurningin til íslenskra stjórnmálamanna (og kollega þeirra í öðrum löndum):

    Munu stjórnvöld standa vörð um hag íslenskra heimila eða hneppa þjóðina í skuldafangelsi?

  • Hver velur hver fær að lifa og hver deyja

    Posted on March 30th, 2009 Hörður No comments

    Það er nú eitthvað bogið við að fella spron. Erlendir kröfuhafar voru búnir að lýsa sig tilbúna til að gefa eftir 21 prósent af heildarskuldum félagsins og framlengja lán. Þá hafa þeir reynt að setja sig í samband við ráðamenn á íslandi til að koma að lausn vandamálsins. Þessir misvitru stjórnmálamenn hafa ekki svarað þeim hvað þá fundað með þeim. Veit ekki hvort að spron hefði átt að standa eða falla finnst bara einkennilegt að það var búið að veita þessum aðilum frest út apríl og að þessir aðilar meta stöðuna svo að hægt hefði verið að bjarga bankanum. Ég vil taka það fram að ég treysti betur sérfræðingum frá deutche bank og fleiri stórbönkum en íslenskum aðilum. Það sem á undan er gengið veldur því að eftirlitsaðilar á íslandi eru rúnir öllu trausti. Þá trúi ég því mátulega að nýi seðlabankastjóri hafi verið búinn að kynna sér málin nægjanlega vel. Ég á alveg von á því að þessi hroki verði til þess að fella krónuna hressilega. Finnst það almenn kurteisi að ræða við þá aðila sem hafa verið að gefa út krónubréf á íslandi og þá aðila sem eiga fullt í handraðanum sem þeir geta skipt þegar höftum afléttir. Mann skulu jafnframt hafa í huga að frammundann gæti verið tímabil með lausafjárskorti og háum vöxtum, þar sem þjóðir heims hafa verið að henda milljörðum inn í bankakerfið og almennt inn í þjóðfélagið. Þessa miljarða þarf að fjármagna og það verður ekki gert nema með hærri sköttum eða útgáfu skuldabréfa. Ríki heims sem nú í langan tíma hafa ekki gert annað enn að græða á ofursukkinu þurfa nú að fara að keppa um fjármagn á markaði. Í þessu sambandi má nefna efst á blaði Bandaríkin með alla sína milljarða en flestar aðrar þjóðir vestur Evrópu hafa verið að reyna að örva hjól efnahagslífsins. Að öllu jöfnu leiðir þetta að lokum til hærri vaxta.

    Mér skilst að skuldir Spron hafi verið 80 milljarðar (held að ég muni þetta rétt) og að kröfuhafar hafi verið tilbúnir að gefa eftir 21 prósent og jafnvel meira. Mér finnst skrítið að ekki hafi verið hægt að bjarga bankanum með þessum 21 prósent niðurfellingu og 20 prósent aðkomu ríkisins. Starfsmenn bankans voru vel á þriðja hundrað. Í þessu ljósi er vert að nefna að ríkið ákvað að lána VBS og Saga Capital 42 milljarða á 2 prósent vöxtum og það án þess að taka nokkurn hlut í félaginu. Þessir vextir eru í raun gjöf stjórnvalda til félaganna. Þess má geta að starfsmenn í báðum félögum eru 74. Eitthvað er úldið á íslandi þrátt fyrir nýja bossa.

  • Útrásin dauð?

    Posted on November 22nd, 2008 Þrándur No comments

    Það hefur nú ýmislegt gengið á í efnahagslífi íslendinga undanfarnar vikur og oft rætt um útrásina sem eitthvað neikvætt. En það er nú samt svo að í allri þessari kreppuumræðu vill svolítið gleymast að það eru enn til útlönd og það eru enn til kaupendur að ýmis konar vöru og þjónustu á erlendri grundu.

    Ég er sannfærður um að nú er enn meiri þörf á námskeiði eins og þessu. Við höfum mikla þörf fyrir að byggja upp raunverulega útrás þar sem hægt er að breyta hugmyndum í markaðssetta vöru á alþjóðlegum markaði. Námskeið eins og þetta getur hjálpað mörgum einstaklingum sem hafa hugmyndir en vita ekki alveg hvernig hægt er að koma þeim á framfæri.

    Sala á vöru og þjónustu til erlendra kaupenda skapar gjaldeyri sem ekki er vanþörf á á þessum tíma.

  • Sterling RIP Myndböndin

    Posted on November 4th, 2008 Þrándur No comments

    Nú eru komin tvö myndbönd á YouTube um Sterling flugfélagið og aðkomu Pálma Haraldssonar, FL-Group/Stoða, Fons og fleiri að þessum sérkennilegu viðskiptum sem enduðu með gjaldþroti Sterling.

    Verð að viðurkenna að ég er ekki nógu góður í bókhaldi til að skilja allar þessar æfingar. Finnst þessar sölur þó óneitanlega vera afar vafasamar. Virðist vera sniðug leið til að prenta peninga.

    Einhvern veginn virðist það vera að smákrimminn sem stelur einhverjum þúsundköllum, næst og er dæmdur. Eftir því sem menn stela meiru virðist vera auðveldara að sleppa og kallast þá viðskiptasnilld. Steldu nokkrum milljörðum og þú ert alveg öruggur.

    Full ástæða væri til að vandaðir blaðamenn tækju þetta mál fyrir af alvöru…

    Hvað finnst þér?

  • Ótrúleg saga af okri…

    Posted on October 19th, 2008 Þrándur No comments

    Ég fór í byggingarvöruverslun í dag og var að kaupa smá bandspotta til að endurnýja þvottasnúrurnar. Fékk eina 30 metra af þægilegu bandi.

    Þegar ég kem á kassan set ég spottann á afgreiðsluborðið og rétti stúlkunni miðann með vörunúmerinu.

    Stúlkan: “Þetta verða þá: Fjórtán þúsund níu hundruð og nítíu”

    Ég: “Það getur nú varla verið. Þetta er nú bara bandspotti. Kostar kannsi 25 kall metrinn – og þetta eru 30 metrar.”

    Stúlkan: “Já – einmitt. Þetta var metraverðið. 30 metrar eru fjögurhundruð fjörtíu og níu þúsund og sjö hundruð.”

    Ég (heyrði ekki alveg þegar hún sagði “þúsund”): “Fjögur hundruð fjörtíu og níu – það er nú nær lagi!” – rétti henni kortið.

    Stúlkan (án þess að stökkva bros): “449.700” – og gerir sig líklega til að strauja kortið.

    Þetta var eiginlega hætt að vera fyndið og ég greip af henni kortið í snarhasti.

    Málið leystist auðvitað farsællega með því að stúlkan fór og kannaði málið betur og ég sparaði næstum hálfa milljón 🙂

    Þarna var verið að treysta í blindni á eitthvað kerfi sem eins og önnur kerfi eru alltaf full af mannlegum mistökum á öllum stigum.

  • Dýr Mistök Seðlabankastjóra

    Posted on October 13th, 2008 Þrándur No comments

    Já, þau ætla að verða býsna dýr, mistök Seðlabankastjóra.

    Það er of ódýr lausn að kenna bara “útrásarvíkingunum” okkar um hvernig farið hefur. En það hljómar kannski vel.

    Hrun fjármálakerfis landsins má því miður rekja að verulegu leiti til mistaka Seðlabankastjóra á síðustu dögum. Nokkur dæmi um mistök og afleiðingar:

    • Davíð Oddsson hefur staðið gegn evru umræðu og Evrópusambandsaðild. Afleiðingin er veikur gjaldmiðill sem stenst ekki í þeim fellibyl sem geysar á fjármálamörkuðum heimsins.
    • Of háir stýrivextir. Gera íslenskum fyrirtækjum ákaflega erfitt fyrir að starfa með eðlilegum hætti í samkeppni við erlend fyrirtæki. Fjármálaspekúlantar hafa líka getað notfært sér ástandið til að hagnast óeðlilega og beita krónuna þrýstingi.
    • Seðlabankinn ráðlagði ríkisstjórn Íslands að taka yfir Glitni. Þetta olli keðjuverkun sem enn sér ekki fyrir endann á, þar sem Landsbankinn og óbeint Kaupþing hafa fallið í valinn. Auðvelt að vera vitur eftir á, en hér hefði mátt hugsa málið í nokkra daga og nýta þann tíma sem var til stefnu (þar til afborgunin átti að eiga sér stað). Því miður skorti ríkisstjórnina hugrekki til að kljást við Seðlabankann. Skaðinn af þessari ráðgjöf hleypur á hundruðum milljaraða eða meira. Stærri tölur en gott er að átta sig á.
    • Davíð Oddsson ráðinn í stöðu aðal Seðlabankastjóra. Sumir segja nánast af honum sjálfum. Þetta er dæmi um afspyrnulélega dómgreind og mistök þar sem seðlabankastjórar eiga að vera fagmenn og fara sér hægt í yfirlýsingum og koma með skynsamlegar ráðleggingar ÁN pólitískra tengsla.
    • Ummæli Davíðs í Kastljósi. Þar sem Seðlabankastjóri fór mikinn og sagði að Íslendingar myndu ekki greiða erlendar skuldir bankanna. Þetta var auðvelt fyrir breta að túlka á versta veg og Gordon Brown forsætisráðherra gerði það svo sannarlega. Hann fór reyndir verulega fram úr eðlilegum viðbrögðum með því að nota lög um hryðjuverkastarfsemi.

    Staðreyndin er sú að allir þrír bankarnir stóðu vel en áttu í LAUSAFJÁR vandræðum. Skuldasafn þeirra var tiltölulega gott og sæmilega stjórnað, þó deila megi um ofurlaun o.fl.

    Að lokum legg ég til að Davíð Oddson og hinir seðlabankastjórarnir verði settir af nú þegar.

  • Seinna Myndbandið um Glitni

    Posted on October 8th, 2008 Þrándur No comments

    Þá er seinna myndbandið um Glitnisævintýrið komið í ljós.

    Þetta mál allt vekur óneitanlega fjölmargar spurningar:

    • Voru einhver lög hafi verið brotin og hverjir frömdu þau lögbrot?
    • Var Fjármálaeftirlitið ekki nógu öflugt?
    • Brast efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra þekkingu og mannskap?
    • Átti Seðlabankinn að grípa fyrr inn í?
    • Hvað með ríksstjórnina og Alþingi – eru þau ekki vaxin hlutverki sínu?

    Í framhaldi af þessu hlýtur að vera komið að samskonar videoi um Landsbankann og aðra skuggalega afkima íslensks fjármálalífs.

  • Glitnir: Myndbandið

    Posted on October 4th, 2008 Þrándur No comments

    Var að fá eftirfarandi póst:

    Áhugavert myndband um ríkisbankann. Ég mæli með því að menn hækki hljóðið, halli sér aftur í stólnum og slái taktinn ef það má vera til þess að menn gleymi um stund efnahagsástandinu.

    Kv. R.

    …já áhugavert út frá því hvernig sömu menn (að hluta til) hafa farið með eigur FL Group.

    Fer að minna á það sem Everett McKinley Dirksen sagði einu sinnI: “A billion here, a billion there, and pretty soon you’re talking about real money.”

  • Nýtt logo Glitnis

    Posted on October 1st, 2008 Þrándur No comments

    Eftir sviptingar helgarinnar er hér komin tillaga að nýju logoi fyrir Glitni.

    Nýtt logo Glitnis

    Nýtt logo Glitnis

    Það er óneitanlega erfitt að átta sig á þessum aðgerðum öllum og fróðlegt að lesa ýmis sjónarmið. – Til dæmis eru fjörugar umræður hjá Agli Helga…

    Var ríkið undir stjórn Dabba og Seðlabanka í hefndaraðgerðum gagnvart Jóni Ásgeiri?

    Var ríkið að eignast miklu verðmætari eign en það lagði fram fyrir þessi 75%?

    Var farið of geyst í fjárfestingar hjá Glitni?

    Var skynsamlegast að ríkisvæða bankann?

    Eiga FL Group og aðrir “öflugir” fjárfestar í Glitni ekki neina peninga til að setja í þennan banka sinn?

    Allavega er ljóst að krónan hefur veikst mikið í kjölfar aðgerðanna og bankar eins og t.d. Saxo í Danmörku eru HÆTTIR að versla með hana. Þá eru sjálfsagt fáir eftir.

    Ég hef grun um að ýmis atriði eigi eftir að skýrast betur á næstu dögum og vikum…